142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

slysatryggingar almannatrygginga.

6. mál
[17:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svörin. Reyndar þetta síðasta að það muni bitna á einhverjum að fá ekki óeðlilegar bætur — ég tel að barnalífeyrir til öryrkja og slysatryggðra sé óeðlilegur vegna þess að fólk var ekki með barnabætur áður, það var ekki með sérstakar bætur fyrir börnin sín áður en það lenti á örorku eða í slysi.

Ég held að menn hafi fyrst og fremst verið að hugsa um það að örorkulífeyririnn hefur verið svo lágur, hann dugar ekki fyrir framfærslu fjölskyldu með börn. Það er kannski vandamálið. Ef menn ætla að hverfa frá þeirri hugsun að örorkulífeyrir geti verið það góður að hann geti staðið undir framfærslu viðkomandi manns, þannig að hann sé jafn vel settur eins og ef hann væri vinnandi — það er einmitt það sem lífeyrissjóðirnir eiga að stefna á og eru að stefna á, að menn fái með framreikningi ákveðið hlutfall af tekjum sem þeir höfðu, sem geta þá hafa verið mjög háar. Það vill svo til að Lífeyrissjóður sjómanna er oft og tíðum að borga mjög háan örorkulífeyri í samræmi við þau laun sem eru tryggð hjá sjómönnum. Þá veltir maður fyrir sér: Af hverju þarf þá barnalífeyri þegar menn halda ákveðnum hluta eða jafnvel öllum laununum sem þeir höfðu áður?

Varðandi aðgreiningu milli skaðabótalaga og félagslegrar hjálpar er ljóst að verði maður fyrir tjóni hjá tryggingafélagi, sem er tryggt hjá tryggingafélagi, þá meta þeir allar tekjur sem menn fá annars staðar frá, frá ríkinu, og það lækkar þá bætur þeirra. Þannig hefur verið litið á þetta að eftir því sem við bætum betur, t.d. þetta frumvarp um slysatryggingu í vinnu, þá minnkar tryggingaþörfin í gegnum skaðabótalögin.