142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

7. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi þingflokks Samfylkingarinnar um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, en þetta frumvarp var flutt á síðasta þingi sem stjórnarfrumvarp og felur í sér heildarendurskoðun á almannatryggingalögum, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og er lagt til að þau séu sameinuð í ein lög undir heitinu Lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning.

Málið er flutt hér á sumarþingi af Samfylkingunni þar sem fyrir lá að ríkisstjórnin mundi ekki flytja það, a.m.k. ekki að sinni og ekki óbreytt, en boðaðar eru breytingar á almannatryggingum og fram hefur komið fyrr í umræðunni að menn munu reyna að leitast við að sækjast eftir áframhaldandi samstarfi um þær breytingar. Við erum boðin og búin til þess og skorum á ráðherra að sá hópur sem hefur unnið að þessu starfi vinni áfram og menn vinni þetta mál til enda.

Að baki því frumvarpi sem hér er flutt liggur mikil vinna þverfaglegs og þverpólitísks hóps sem komst að sameiginlegri niðurstöðu sem birtist í þessu frumvarpi. Þess vegna er mikilvægt að tryggja að áfram verði haldið með málið og nýtt sú mikla vinna sem liggur að baki.

Hér er fyrst og fremst um að ræða breytingar hvað varðar ellilífeyrisþega en nokkur vinna er eftir varðandi örorkulífeyrisþegana, en sá kafli verður ekki unninn án aðildar Öryrkjabandalagsins eins og ég kem nánar að síðar.

Ríkisstjórnin lofaði því í kosningabaráttunni að allar skerðingar sem áttu sér stað á árinu 2009 yrðu dregnar til baka en misvísandi yfirlýsingar hafa verið gefnar um hvort það eigi að greiðast afturvirkt frá 2009, hvað eigi að draga til baka og hvernig. Nú liggur fyrir frumvarp frá hæstv. ráðherra félags- og húsnæðismála, Eygló Harðardóttur, þar sem dregnar eru til baka tvær af þeim breytingum sem gerðar voru á almannatryggingunum og voru liður í aðgerðum í ríkisfjármálum árið 2009 og hluti af aðlögun tekna og útgjalda ríkissjóðs eftir hrunið. Í frumvarpi hæstv. ráðherra er fyrst og fremst verið að afnema skerðingar grunnlífeyris vegna lífeyristekna og hækkun frítekjumarka vegna launatekna ellilífeyrisþega. Annað bíður.

Þó er kafli úr því frumvarpi sem hér er til umræðu, kafli um eftirlit og upplýsingar, tekinn óbreyttur upp og settur inn í frumvarp hæstv. ráðherra.

Fyrir lá hjá fyrrverandi ríkisstjórn að skerðingar áttu að ganga til baka um næstu áramót og samkvæmt frumvarpi hæstv. ráðherra gengur sú skerðing fyrst til baka um næstu áramót, eins og gert hafði verið ráð fyrir, en ekki strax eins og mátti skilja af umræðunni fyrir kosningar.

Ein meginhugmyndin við endurskoðun almannatryggingalaga var að ný lög um almannatryggingar með bættum kjörum öryrkja og ellilífeyrisþega tækju við frá síðustu áramótum. Það náðist ekki. Nú er gert ráð fyrir að þau taki gildi 1. júlí nk. samkvæmt þessu frumvarpi. Eftir sem áður get ég lýst því yfir fyrir hönd Samfylkingarinnar að við munum styðja ríkisstjórnina og styðja við loforð þeirra um að bæta öryrkjum og ellilífeyrisþegum upp þær skerðingar sem rætt hefur verið um, en við viljum að það verði gert í samræmi við heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar. Þá sé mikilvægt að ný lög tryggi einföldun kerfisins, geri það skiljanlegra fyrir notendur og hafi þá heildarhugsun að almannatryggingar byggi á tveggja stoða kerfi, þ.e. almannatryggingum og greiðslum úr lífeyrissjóðum.

Ég fylgdi frumvarpinu sem hér um ræðir eftir á síðasta þingi með ítarlegri ræðu og vísa því til hennar og til greinargerðar með frumvarpinu um skýringar á breytingum í stað þess að endurtaka það allt hér. Engu að síður ætla ég að nefna nokkur atriði og flytja býsna ítarlegt mál um frumvarpið.

Eins og áður sagði var frumvarpið samið af velferðarráðuneytinu og áður félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Það var lagt fram af velferðarráðherra á vorþingi 2013, mál nr. 636 á 141. löggjafarþingi. Gerðar hafa verið nokkrar minni háttar breytingar á upphaflega frumvarpinu en frumvarpið er nú flutt, eins og áður sagði, af þingflokki Samfylkingarinnar, enda er það afstaða flokksins að óhjákvæmilegt sé að leggja nýjan grunn að sanngjörnu almannatryggingakerfi og að ekki sé lengur hægt að skjóta á frest löngu tímabærum endurbótum á almannatryggingakerfinu.

Meginmarkmið með frumvarpinu er að styrkja stöðu aldraðra og þeirra sem búa við skerta starfsgetu, þ.e. öryrkja, m.a. með því að gera lög um lífeyrisréttindi almannatrygginga og tengdar greiðslur einfaldari og skýrari en búið er við í dag.

Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af tillögum sem fram komu í skýrslu verkefnisstjórnar um endurskoðun almannatrygginga frá því í október 2009 um nýskipan almannatrygginga og byggt á tillögum starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga sem starfað hefur frá því í apríl 2011 að lokaáfanga heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar.

Endurskoðun almannatryggingakerfisins er þó ekki að fullu lokið með framlagningu þessa frumvarps. Flutningsmenn leggja áherslu á að sá þverfaglegi og þverpólitíski starfshópur sem unnið hefur að gerð þessa frumvarps, sem og frumvarps um slysatryggingar almannatrygginga, vinni áfram. Hlutverk hópsins verði að halda áfram vinnu við málaflokka sem enn eru ókláraðir og má nefna nokkur atriði sem þarf að vinna að í framhaldinu.

Í fyrsta lagi var ljóst að vinna þyrfti betur að málaflokknum sem snertir bætur til foreldra langveikra og fatlaðra barna, og var vinna í gangi varðandi það, í öðru lagi starfsgetumat, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal var að spyrja um áðan. Þar var komin af staða vinna en málið reyndist flóknara en menn höfðu reiknað með og höfðu sótt sér þá fyrirmyndir að breytingum sem hafa orðið í Hollandi og Danmörku. Annað sem líka var í skoðun og þarf að vinna áfram eru lífeyrisgreiðslur og tryggingabætur til þeirra sem dvelja langdvölum á hjúkrunarheimilum, dvalarheimilum eða öðrum stofnunum, sökum öldrunar eða fötlunar, reglur um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra vegna bifreiðakaupa og/eða reksturs bifreiða, og skoða hvort barnatryggingar séu æskileg leið. Það er ekki auðvelt mál miðað við afstöðu ákveðinna hópa en engu að síður þurfum við að vinna að því heildstætt hvernig barnafjölskyldur fái aðstoð við uppeldi og þjónustu við börn sín.

Í þessari vinnu allri er eðlilegt og nauðsynlegt að leita eftir aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem var ekki aðili að þessum vinnuhópi. Almannatryggingar og félagslegar bætur tengjast og spila oft mjög mikið saman og þess vegna skiptir miklu máli að þessir aðilar vinni vel saman. Það þarf að tryggja að Öryrkjabandalagið komi að vinnunni að nýju, en þeir sögðu sig frá vinnunni í hópnum án þess að hætta í honum, tóku ekki þátt í vinnunni en fengu allar upplýsingar og fylgdust með og tóku þátt í undirhópum sumum hverjum.

Mikilvægt er að árétta að endurskoðun á málefnum öryrkja var að mestu látin bíða í þessu frumvarpi en því þarf að halda áfram vinnunni varðandi þann þátt. Það skal tekið fram að Öryrkjabandalag Íslands hefur komið með margar ábendingar og athugasemdir við frumvarpið sem fjalla þarf um og mæta að því marki sem unnt er. Mikilvægt er að þeirri vinnu verði haldið áfram, eins og ég segi, í góðu samstarfi við Öryrkjabandalagið og vinnunni lokið sem fyrst. Það kom t.d. frá þeim í lok maí umsögn um frumvarpið sem er býsna margar blaðsíður með mjög gagnrýnum athugasemdum, allt atriði sem þarf að fjalla um og þarf að taka afstöðu til. Þess vegna skora ég á Öryrkjabandalagið að mæta þeirri vinnu. Nú er þeim það kannski kleift þegar á að draga til baka hluta af skerðingunum frá 2009.

Loks ber að geta að í meðförum Alþingis þarf að uppfæra upphæðir lífeyrisgreiðslna í samræmi við launa- og neysluvísitölu og stefnu stjórnvalda og Alþingis. Ég vakti athygli á því í umræðunni um frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að hluti af því sem hefur gerst er að kaupmáttarrýrnun hefur orðið hjá lífeyrisþegum eins og öðrum og þeir hafa ekki fengið að fullu bættar þær hækkanir sem hefðu átt að koma til á síðastliðnum fjórum árum. Nú þegar svigrúmið er meira finnst mér skylda að skila því til baka. Ég saknaði þess í því frumvarpi að menn skyldu ekki koma með slíka prósentutölu strax þannig að hægt væri að stíga fyrsta skrefið þar líka sem snerti sem flesta lífeyrisþega.

Það kann að virka eins og það sé einfalt að segja að það eigi að gera þetta allt núna þegar við erum ekki lengur í stjórn, en staðreyndin er sú að menn eru búnir að fara í gegnum erfitt tímabil eins og hefur verið síðastliðin fjögur ár, þar sem skorið var niður á nánast öllum sviðum, þó að það komi mjög skýrt fram í frumvarpinu að lífeyrisþegum hafi verið hlíft umfram aðra, og kostnaðaraukningin var veruleg. Þrátt fyrir að bætur hafi ekki hækkað fjölgaði þeim sem fengu bætur. Það sem hafði meiri áhrif var að tekjurnar hrundu hjá mörgum lífeyrisþegum, ekki hvað síst fjármagnstekjur, og þá tók almannatryggingakerfið við og hækkaði verulega sín framlög í gegnum almannatryggingar. Þess vegna held ég að menn hefðu þurft að skoða þann þátt og ég veit að það mun verða gert í framhaldi. Við munum að sjálfsögðu fylgja því eftir jafnvel þó að það hafi ekki náðst í þessum fyrsta áfanga.

Með hliðsjón af því sem ég hef sagt hér að framan eru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu en þó þær helstar að sett er inn nýtt bráðabirgðaákvæði merkt X þar sem ítrekað er mikilvægi þess að halda áfram vinnu starfshóps sem unnið hefur að málinu á síðustu missirum. Bráðabirgðaákvæðið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal tryggja áframhaldandi umboð starfshóps þess sem unnið hefur að gerð frumvarpsins og skal starfshópurinn vinna að endurskoðun laga er snúa að öryrkjum í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands. Starfshópurinn skili greinargerð með tillögum að breytingum fyrir 1. október 2013.“

Þessi dagsetning er valin til þess að menn geti komið með fjárhæðir inn í fjárlög.

Við framlagningu frumvarpsins er óhjákvæmilegt að rifja lítillega upp sögu málsins. 1. október 2007 skipaði þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga. Þar var m.a. horft til hugmyndar um flutning málefna aldraðra til félagsmálaráðuneytisins frá heilbrigðisráðuneyti og ákveðið að vinna tillögur um fyrstu aðgerðir í langtímastefnumótun og jafnframt var óskað heildarendurskoðunar á almannatryggingalöggjöfinni.

Verkefnisstjórnin lagði fram tillögur til skemmri tíma í lok nóvember 2007 sem var flestum hrundið í framkvæmd með lagabreytingum árið 2008. Þar má nefna afnám skerðingar lífeyris vegna tekna maka — og kemur mér sífellt á óvart að alltaf er verið að spyrja um hvenær eigi að gera þetta, en þetta var gert árið 2008. Einnig innleiðing frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega, sem er þekkt umræða núna, úttekt séreignarsparnaðar hafi ekki áhrif á greiðslur almannatrygginga og skerðingarmörk voru lækkuð árið 2008 úr 45 í 38,35%. Því var svo breytt aftur til baka en nú er verið að tala um að fara aftur til þess sem samþykkt var 2008 af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Þá var frítekjumark vegna fjármagnstekna og frítekjumark vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna öryrkja hækkað. Aldurstengd örorkuuppbót var einnig hækkuð og 1. september 2008 var sett reglugerð um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega en sú uppbót var síðar lögfest. Sú uppbót var sett á sem aðgerð í þá átt að tryggja ákveðinn grunnlífeyri. Kostnaður við þessar breytingar árið 2008 var vel yfir 10 milljarðar kr. Ég man ekki nákvæmlega krónutöluna en var sennilega hátt í 15 milljarðar.

Í kjölfarið á þessari vinnu árið 2008 hóf verkefnisstjórnin endurskoðun á almannatryggingakerfinu með það að leiðarljósi að einfalda kerfið og bæta hag lakast settu lífeyrisþeganna. Það var verkefnið. Í samræmi við markmið verkefnisstjórnarinnar útfærði hún starf sitt á eftirfarandi hátt:

Athuga breytingar á lífeyriskerfi almannatrygginga í þeim tilgangi að bæta hag þeirra sem lægri tekjur og lakari stöðu hafa.

Leggja til róttækar tillögur um einföldun kerfisins sem næði bæði til lífeyrisflokka og framkvæmdar.

Ná fram meiri sanngirni í samspili tryggingabóta, lífeyrissjóðstekna og atvinnutekna.

Ná fram meiri hvata til öflunar atvinnutekna og sparnaðar hjá bótaþegum en áður.

Draga úr tekjutengingum einkum með hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna, lífeyrissjóðstekna og fjármagnstekna.

Afnema skerðingu vegna tekna maka lífeyrisþega.

Endurskoða skerðingarhlutföll í tengslum við breytingar á frítekjumörkum.

Allt er þetta kunnuglegt og ekki hvað síst núna eftir að hafa rætt frumvarp hæstv. ráðherra fyrr í dag.

Þarna var ákveðið líka að koma á lágmarksframfærslutryggingu fyrir lífeyrisþega og skilgreina betur réttindi sambúðarfólks og einhleypra auk eðlismunar ellilífeyriskerfisins og endurhæfingar- og örorkulífeyriskerfisins; þ.e. samspil þessara þátta.

Þá átti að færa örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfið í átt að virkari velferðarstefnu með nýju starfsgetumati og virkari þátttöku í endurhæfingu ásamt aukinni eftirfylgni og leggja línur fyrir framtíðarþróun opinbera lífeyriskerfisins og stofnanaskipan á sviði þess.

Tillögur komu svo frá verkefnisstjórn 2009 um einföldun á almannatryggingakerfinu. Þær fólu í sér sameiningu bótaflokkanna grunnlífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar í einn lífeyrisflokk með lágmarksframfærslutryggingu. Einhleypir ættu að fá hámarksfjárhæð hins nýja bótaflokks en fólk í sambúð 84% af hámarksfjárhæðinni.

Lögð var til aukin notkun frítekjumarka og að innleitt yrði frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega í áföngum, sem og hækkun frítekjumarka á fjármagnstekjur og atvinnutekjur ellilífeyrisþega. Einnig voru lagðar til breytingar á skerðingarhlutfalli vegna tekna yfir frítekjumarkinu og lagt til að bætur lækkuðu alveg að núlli vegna lífeyrissjóðstekna. Þessar tillögur voru sem sagt strax komnar inn árið 2009.

Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar frá október 2009, sem bar heitið Nýskipan almannatrygginga. Tillögur um breytingar á lífeyriskerfinu, kemur fram sú framtíðarsýn að kerfisbreyting þessi geti átt sér stað sem fyrst án umtalsverðra útgjalda. Meiri kjarabætur komi til síðar þegar dragi úr áhrifum fjármálakreppunnar. Hér var fjármálaumhverfið orðið allt annað eftir hrunið og auðvitað varð að taka tillit til þeirra aðstæðna þegar verið var að stilla saman tekjur og útgjöld ríkisins

Það er ástæða til að vekja athygli á þessum kafla um sérstaka framfærsluuppbót vegna þess að það hefur nú þvælst fyrir sumum hver tilgangurinn hafi verið með því. Verkefnisstjórninni var falið að gera tillögu um skipan lágmarksframfærslutryggingar fyrir lífeyrisþega og var það gert með reglugerð um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega sem kom til framkvæmda 1. september 2008, eins og nefnt var áðan. Heimild til greiðslu sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu var síðan innleidd í lög um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og með lögum nr. 120/2009, er tóku gildi hinn 1. janúar 2010, sbr. nú 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Hefur sú fjárhæð sem uppbótin miðast við verið hækkuð jafnt og þétt síðan og er nú nærri 38 þús. kr., en getur verið hærri í sumum tilfellum

Þar sem um var að ræða viðbót til að tryggja betur framfærslu þeirra sem engar aðrar tekjur höfðu en lífeyrisgreiðslur almannatrygginga var ákveðið að þessi uppbót skertist krónu fyrir krónu við aðrar tekjur. Ljóst var að sú skerðing gat aðeins verið tímabundin enda litu margir svo á að þar með væri farið að gera upptækar greiðslur t.d. frá lífeyrissjóðum.

Það vekur athygli að í þessu nýja frumvarpi hæstv. ráðherra er ekki ráðist í lagfæringar á þessu þannig að enn eru áfram skerðingar króna á móti krónu á sérstakri framfærsluuppbót. Það þýðir jafnframt að þegar menn hækka greiðslurnar vegna grunnlífeyris og vegna tekjutryggingar mun það líka virka sem tekjur inn í þennan flokk.

Þess vegna er mikilvægt, af því að menn hafa verið að skoða samspil lífeyrissjóðanna og almannatrygginga, að minna á upphaflegan tilgang framfærsluuppbótarinnar sem var og er enn að tryggja tekjulágum og tekjulausum lífeyrisþegum ákveðna lágmarksfjárhæð til framfærslu í hverjum mánuði. Hér er því sem sagt komið það sem margir hafa oft verið að lýsa eftir, einhvers konar lágmarksviðmið þegar um er að ræða lífeyrisþega sem þurfa á að halda að fá greidda viðbót vegna lágra eða engra tekna. Þeir sem hafa aftur á móti aðrar tekjur og bætur almannatrygginga sér til framfærslu fá ekki þessa uppbót. Það er mikilvægt að viðhalda ákveðinni lágmarksvernd í því frumvarpi sem nú liggur fyrir en á sama tíma stuðla að því að fólk sjái ávinning af því að afla sér tekna sem og að hafa greitt í lífeyrissjóði.

Eðli málsins samkvæmt hefur ekki gefist mikið svigrúm til hækkunar bóta eða annarra aðgerða sem eru til þess fallnar að bæta kjör lífeyrisþega. En eins og ég vakti athygli á fyrr í dag er fróðlegt að skoða að bætur hafa þó þrátt fyrir allt á fjórum árum hækkað um 16,2% en útgjöld ríkissjóðs um 33,6% til lífeyrisgreiðslna og almannatrygginga, farið úr 55,5 milljörðum kr. 2010 upp í 74,2 milljarða 2013 á verðlagi hvers árs.

Aðlögun útgjalda ríkisins að tekjum snertu alla málaflokka og því miður var ekki hægt að verja að fullu lífeyrisgreiðslur, sem eru stór útgjaldaliður á fjárlögum eins og hér hefur komið fram, 74 milljarðar. Aðgerðir stjórnvalda á síðasta kjörtímabili hafa einkum falist í því að verja hag tekjulægstu lífeyrisþeganna og vinna gegn aukinni fátækt meðal þeirra. Þó náðust fram einstakar breytingar til hagsbóta fyrir lífeyrisþega á síðustu árum, t.d. tímabundin lausn á víxlverkunum milli örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóðanna. Það er óljóst um framhaldið en fyrirheit eru um að ef þetta frumvarp verður ekki samþykkt með heildarbreytingu muni sá samningur gilda næstu tvö árin.

Í úttektum Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands hefur komið fram að leiðir stjórnvalda á síðasta kjörtímabili til að milda áhrif kreppunnar hjá fólki með lágar tekjur og millitekjur hafa reynst árangursríkar og að kaupmáttur lífeyrisþega, einkum öryrkja, hefur dregist minna saman en annarra hópa í þjóðfélaginu frá haustinu 2008.

Það kemur í raun mjög vel fram í umsögn fjármálaráðuneytisins um nýtt frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hversu umfangsmiklar breytingar voru árið 2008, dregnar að hluta til baka og núna verið að skila sumum þeirra aftur. Skiptir þar einnig máli að lífeyrisþegar njóta enn þeirra miklu og jákvæðu breytinga sem gerðar voru á árunum 2007 og 2008, hjá öryrkjum ekki hvað síst, að afnema tengingar við tekjur maka.

Í framhaldi af allri þessari vinnu var skipaður starfshópur 4. apríl 2011 til að vinna að lokaáfanga heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar og ljúka við drög að nýju frumvarpi til laga um lífeyristryggingar. Þá kom fram í erindisbréfinu að hópurinn skyldi gera tillögur að einfaldari og skýrari löggjöf með það að leiðarljósi að almannatryggingar veittu áfram lágmarkstryggingavernd vegna elli og örorku. Endurskoðunin færi fram á grundvelli núverandi tryggingakerfis á Íslandi, þ.e. tveggja stoða kerfis eins og áður hefur verið nefnt, þar sem einstaklingar á vinnumarkaði greiða í og safna upp réttindum í lífeyrissjóðakerfi en almannatryggingar veiti til viðbótar lágmarkstryggingavernd þeim sem á þurfa að halda.

Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar tilnefndir af þingflokki Samfylkingarinnar, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar. Raunar fór þingmaður Framsóknar síðan yfir í Bjarta framtíð og fékk boð um að vera áfram en þáði það ekki. Landssamband eldri borgara átti þar fulltrúa, og Öryrkjabandalagið átti tvo fulltrúa en mættu ekki á fundi eftir ákveðna byrjun. Fulltrúar voru frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og tveir sameiginlega frá Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambandinu. Formaður starfshópsins var fyrrverandi þingmaður, Árni Gunnarsson, og var skipaður af velferðarráðherra. Með hópnum störfuðu síðan lögfræðingar ráðuneytisins

Það er mikilvægt að undirstrika að stefnan er og hefur ætíð verið að halda því kerfi sem hér hefur verið byggt upp en endurskoða það og gera úrbætur á almennu tryggingastoðinni, eins og ég kalla það. Ekki er verið að tala um að bylta kerfinu, þ.e. þeirri hugmyndafræði að byggja á tveimur stoðum.

Starfshópurinn samþykkti tillögu um einföldun bótakerfisins vegna ellilífeyris í júní á síðasta ári. Í greinargerð með henni var farið yfir niðurstöðuna, áhrif á samspil lífeyrissjóða og almannatryggingar og áhrifin á ólíka hópa ellilífeyrisþega. Þar var einnig fjallað um kostnað við tillöguna, nauðsynlegar lagabreytingar og afleiðingar þess að haldið yrði áfram með óbreytt kerfi.

Starfshópurinn lagði til að í fyrsta áfanga yrðu bótaflokkarnir ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót sameinaðir í einn bótaflokk sem kallaðist ellilífeyrir. Þetta mundi þýða að í dag væri hann rúmar 173 þús. kr. miðað við hækkun frá síðustu áramótum. Rétt er að taka fram strax að fjárhæðir sem tilgreindar eru í frumvarpinu þarf að uppfæra miðað við síðustu hækkanir og leiðrétta miðað við neysluvísitölu og launavísitölu síðan 2009. Þær eru ekki uppfærðar hér í frumvarpinu en þarf að skoða. Ég hef fært fyrir því rök að það standi á a.m.k. um 6% sem þyrfti að leiðrétta ef menn skoða síðastliðin ár og ég tel að við skuldum lífeyrisþegum það, fyrrverandi ríkisstjórn, og bæta þurfi úr því á þessu tímabili.

Auk þess að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingar og heimilisuppbót í einn ellilífeyri verða skerðingar samræmdar óháð hvaðan tekjurnar kæmu, þ.e. að reiknað er með skerðingum á 45% tekna lífeyrisþega sem hafi áhrif á fjárhæð þessa lífeyris.

Meginbreytingar til hækkunar fyrir lífeyrisþega eru hins vegar þær að sérstaka framfærsluuppbótin verður hluti af ellilífeyrinum. Það tekur svolítinn tíma. Í byrjun var talað um að það yrði miðað við 20% þar sem hætt væri við skerðinguna krónu á móti krónu, það dytti niður í 80% strax og síðan í 70% um næstu áramót, sem mundi vera veruleg leiðrétting fyrir viðkomandi aðila, og svo koll af kolli þannig að þetta verði að fullu komið til framkvæmda árið 2017.

Með sameiningu í einn bótaflokk munu allar tegundir tekna hafa sömu áhrif á útreikninga ellilífeyris almannatrygginga og engin frítekjumörk verða í gildi. Hér er því lögð til gríðarleg einföldun á kerfinu sem næst með sameiningu bótaflokkanna, afnámi frítekjumarka og þó sérstaklega því að sömu reglur gildi um meðferð allra tekjutegunda. Gert er ráð fyrir að sú regla verði þó óbreytt fyrst um sinn að séreignarsparnaður hafi ekki áhrif á útreikning ellilífeyris.

Sameining bótaflokka gerir kerfið mun skýrara og skiljanlegra, það dregur úr flóknum útreikningum Tryggingastofnunar og hættu á of- eða vangreiðslu bóta. Niðurfelling frítekjumarka einfaldar kerfið enn meira og sú breyting mun gera kerfið réttlátara og koma í veg fyrir að lífeyrisþegum með sömu heildartekjur sé mismunað líkt og nú er gert og leiðir af því að tekjur hafi mismunandi áhrif á útreikning bótanna eftir því hver uppruni teknanna er. Þannig er kerfið í dag. Það má því með nokkrum rétti tala um tímamót í almannatryggingum hvað einföldun og gagnsæi varðar þar sem eldri borgarar munu eftir breytinguna geta reiknað út réttindi sín hjá Tryggingastofnun miðað við heildartekjur sínar á hverjum tíma með einfaldari hætti.

Þetta frumvarp hefur líka þann megintilgang og nær honum býsna vel að hafa jákvæð áhrif á samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Lífeyrissjóðstekjur hafa í dag áhrif á fjárhæðir allra bótaflokka almannatrygginga en með mjög mismunandi hætti. Nú eru skerðingarhlutföllin mismunandi eftir því um hvaða bótaflokk almannatrygginga er að ræða og eins eru frítekjumörk mishá.

Ég held að í frumvarpinu sé brugðist við vandamálinu vegna sérstöku framfærsluuppbótarinnar sem ég var búinn að nefna og það er einmitt verið að hætta tengingunni króna á móti krónu og þar með styrkja lífeyrissjóðina varðandi stöðu þeirra sem hafa greitt í lífeyrissjóði gagnvart almannatryggingakerfinu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt og taka þarf á því í endurskoðun á frumvarpinu í framhaldi af því frumvarpi sem hæstv. ráðherra var að leggja fram. Það er reiknað með því að dregið verði í áföngum úr lækkun framfærsluuppbótar vegna m.a. lífeyrissjóðstekna og það mun hafa víðtæk og jákvæð áhrif, einkum á viðhorf almennings til lögbundna lífeyrissjóðakerfisins.

Bent skal á að greiðsla lífeyris úr lífeyrissjóði hefur í för með sér beinan ávinning og dregur úr útgjöldum ríkissjóðs til almannatrygginga á móti til langs tíma. Það skiptir auðvitað miklu máli þegar við horfum til breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Þá er mikilvægt að við eigum sterka lífeyrissjóði sem koma til hjálpar ásamt almannatryggingum til að tryggja ellilífeyrisþegum og öryrkjum viðunandi og góðan lífeyri.

Tekið skal fram að þær breytingar sem hér eru lagðar til munu í langflestum tilfellum leiða til aukinna réttinda ellilífeyrisþega. Engu að síður þykir rétt að fyrirbyggja skerðingar vegna hugsanlegra ófyrirséðra áhrifa breytinganna á hag einstaka lífeyrisþega, þannig að sett er inn tryggingarákvæði um að ef einhver skyldi vegna breytinganna lækka muni enginn fá lægri bætur en áður hefur verið. Það er sólarlagsákvæði til 2015 og mætti gjarnan lengja það til einhverra ára í viðbót.

Gerður verður samanburður á útreikningi ellilífeyris og tekjutryggingar og heimilisuppbótar fyrir gildistöku nýrra laga og hins sameinaða ellilífeyris eftir gildistöku laganna. Ef í ljós kemur að samanburðurinn er óhagstæður fyrir viðkomandi einstakling mun það verða leiðrétt.

Sú leið sem lögð er til hefur óneitanlega í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð enda vandséð hvernig hægt er að auka réttindi ellilífeyrisþega jafn mikið og raun ber vitni án þess að það hafi í för með sér aukin útgjöld ríkisins. Í tillögum starfshópsins er gerð grein fyrir árlegum kostnaði vegna tillögunnar á árunum 2013–2017 og er um þríþættan kostnaðarauka að ræða. Hann kemur fram í kostnaðarmati því sem fylgdi frumvarpinu á fyrra þingi, en kostnaðaraukinn er fyrst og fremst vegna sameiningar bótaflokkanna, vegna lækkunar á skerðingarhlutfalli framfærsluuppbótarinnar og vegna samanburðar við eldri reglu. Kostnaðurinn er þó ekki ýkja mikill í byrjun en þegar búið er að færa niður skerðingarhlutfallið úr 100% í 45% eins og annars staðar mun kostnaðurinn vera umtalsverður á árinu 2017.

Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að fara ítarlegar í frumvarpið, ég er búinn að nýta þann tíma sem ég hef til þess. En ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður að vinnunni er hvergi lokið. Það hefði verið mjög stór áfangi að samþykkja þetta frumvarp á síðasta þingi en það væri hægt að gera það núna á sumarþingi eða haustþingi. Eftir sem áður þarf að vinna áfram einstaka þætti sem ég nefndi í upphafi og tryggja betur það sem snýr að öryrkjum í frumvarpinu. Engu að síður er gert ráð fyrir að öryrkjar fái lækkun á tekjuskerðingum hvað varðar sérstaka framfærsluuppbót þannig að þeir munu njóta verulegs ávinnings af frumvarpinu ef það yrði samþykkt.

Ég óska eftir því að frumvarpið verði skoðað samhliða frumvarpi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra þannig að sú mikla vinna sem unnin hefur verið að endurskoðun laga um almannatryggingar nýtist til leiðréttinga á kjörum aldraðra og öryrkja. Þessi tvö lagafrumvörp vinna ekki endilega gegn hvort öðru þótt ljóst sé að sumar af tillögunum í frumvarpi hæstv. ráðherra eru á skjön við þetta frumvarp. Engu að síður held ég að menn eigi að halda vinnunni áfram og breyta til samræmis í framhaldi af þeirri vinnu.

Það hefur einnig komið fram að lögbundnar eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar, sem er að finna í þessu frumvarpi, eru komnar inn í frumvarp hæstv. ráðherra og ber að fagna því, þ.e. stór hluti af þeim er þar, um þagnarskyldu og meðferð persónuupplýsinga, stjórnsýslukærur og fleira.

Ég óska eftir því að frumvarpið fari til hv. velferðarnefndar og fái þar vandaða umfjöllun samhliða frumvarpi hæstv. ráðherra og verði sett í skýran farveg þar sem markmið eru sett um hvenær eigi að ljúka vinnunni og reynt að viðhalda þeirri sátt sem náðst hefur um endurskoðun á almannatryggingakerfinu.