142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

7. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að fá þær upplýsingar frá hv. þingmanni að eftirlitið hafi ekki byrjað fyrr en 1997, það er forvitnilegt að skoða það. En það er líka ástæða til að skoða að sumir lífeyrissjóðir hafa farið mjög illa og greiðslur úr lífeyrissjóðum hafa hrunið vegna ýmissa ástæðna, ég ætla ekki að rekja þær. Þar með hafa menn ekki fengið þann lífeyri sem reiknað hafði verið með.

Við höfum líka þennan þekkta mismun að opinberu sjóðirnir hafa verið tryggðir og verðtryggðir en almennu sjóðirnir ekki. Þeir sem borguðu gegnum almennu lífeyrissjóðina komu þar að auki seinna inn. Þetta eru allt saman hlutir sem hafa áhrif á það hvaða tekjur menn fá út úr lífeyrissjóðunum.

Ég vil einnig nefna að kostnaðaraukinn í þessu nýja frumvarpi, sem skellur á í byrjun eða í kringum 2017 og verður til 2022, 2023, er einmitt á meðan menn eru að styrkja almennu sjóðina þannig að þeir komist í að greiða eins og væntingar voru um, allt upp í 75–80% af launum. Það mun varla nást fyrr og hefur raunar aldrei staðið til. Menn hafa reiknað með að það mundi nást á árunum í kringum 2025.

Varðandi einföldunina að öðru leyti held ég að allir sem hafa komið að þessu hafi talað um að kerfið muni verða miklu einfaldara í framkvæmd. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það verður fullt af aukagreiðslum. Kannski ætti að vera, eins og við ræddum áðan, einhver grunnur og síðan tækju við bætur óháð því hvort viðkomandi er öryrki, ellilífeyrisþegi eða eitthvað annað slíkt. Húsnæðisbótakerfið er t.d. ein leiðin, það var tilbúið og fullmótað. Húsaleiguhlutinn var hækkaður núna til að reyna að mæta því. Hið sama má segja um barnatryggingar sem væru borgaðar vegna barna á heimili. Húsnæðisbætur væru þá miðaðar við fjölda á heimili eða óháð því. Síðan væri sérþörfum viðkomandi hópa mætt, sem geta stafað af veikindum, örorku, starfsgetu eða hvað annað sem það kann að vera og sem getur alveg eins lent á hverjum og einum, menn þurfa ekki endilega að vera öryrkjar. Ef það er vegna veikinda og fólk þarf sérstaka aðstoð væri það bætt með öðrum hætti.

Allt þetta þarf auðvitað að skoða en ég held að við þurfum að stíga afdráttarlaus skref og til þess er þetta frumvarp þannig að við komumst áfram í breytingar. Ég veit að hv. þingmaður hefur tekið þátt í þeirri vinnu og stutt hana.