142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Í gær var eftirfarandi haft eftir eða ritað af hálfu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur á vegum DV í viðtali þar, með leyfi forseta:

„Þessi listamannalaun fóru út í vitleysu á síðasta kjörtímabili og ég fullyrði að hefðu ráðherrar framsóknarmanna farið fyrir því að láta maka tveggja ráðherra fá listamannalaun þá hefði allt orðið vitlaust og hrópað að viðkomandi ráðherrar yrðu að segja af sér. En þar sem þetta voru samfylkingarmakar var málið þaggað niður og ekki rætt.“

Virðulegur forseti. Þetta eru náttúrlega alveg makalaus ummæli (Gripið fram í.) hjá forustumanni stjórnarflokks sem fullyrðir að listamannalaunum sé úthlutað af ráðherrum, það séu ráðherrar sem úthluti listamannalaunum, það sé pólitísk ákvörðun í ríkisstjórn Íslands hverjir fái listamannalaun. Í þessu tilfelli hafi það væntanlega verið ákvörðun samfylkingarráðherra að makar þeirra fengju listamannalaun og málið hafi síðan verið þaggað niður. Það er ekki bara gefið í skyn að þarna sé fullkomin spilling heldur að þeir listamenn sem fengu listamannalaun séu ekki verðugir launa sinna, þeir hafi ekki verið metnir að verðleikum. Það hafi verið ákvörðun ráðherra að þessi mál væru með þessum hætti.

Ég vil spyrja hv. þm. Sigrúnu Magnúsdóttur, þingflokksformann Framsóknarflokksins, hvort hún sé sammála þessari túlkun hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um listamannalaun og hvort hún geti tekið undir það sem fram kemur í orðum hennar að þeir listamenn sem um ræðir séu ekki verðugir launa sinna og um spillingu sé að ræða, væntanlega af hálfu fyrrverandi samfylkingarráðherra.