142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, varð við áskorun 32 þús. landsmanna um að hafna staðfestingu fjölmiðlalaga árið 2004 og benti réttilega á að gjá milli þings og þjóðar væri í málinu sem best væri að brúa, með leyfi forseta: „með því að þjóðin fái í hendurnar þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Á síðasta ári sagði hann í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni um kvótamálið, með leyfi forseta:

„Þar er um að ræða ráðstöfun á sameign þjóðarinnar. Þar er um að ræða hvað þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fær í sinn hlut. Það er erfitt að hugsa sér stærra mál en það, sem mundi vera eðlilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef einhver hluti þjóðarinnar telur það mikilvægt.“

Nú liggur fyrir þinginu stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um að lækka það gjald sem þjóðin, eigandi sjávarauðlindarinnar, fær í sinn hlut af nýtingu hennar. Þessi lækkun getur verið um 10 milljarðar á næsta ári.

Nú hafa 34 þús. Íslendingar skorað á forsetann að undirrita ekki lög um lækkun veiðigjalds heldur vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði, til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar. Aftur hefur opnast gjá milli þings og þjóðar.

Þingið er í þann mund að samþykkja frumvarpið. Þar til forsetinn kemur til landsins er málskotsrétturinn, öryggisventill þjóðarinnar, í höndum forsætisráðherra og forseta þingsins sem báðir eru stjórnarliðar sem varla munu skjóta eigin frumvarpi til þjóðarinnar ef það verður samþykkt í þinginu.

Ég hef sent forsetanum bréf til að opna umræðuna og kalla eftir upplýsingum frá forsetanum því að okkur þingmönnum Pírata þætti vænt um að vita hvort og þá hvenær við þurfum að nota þau verkfæri sem kjósendur okkar treystu okkur fyrir til að vinna að beinna lýðræði, málþófi í þessu tilfelli, til að skapa svigrúm fyrir forsetann að koma aftur til landsins til að beita því valdi sem þjóðin treystir honum fyrir, málskotsrétti forsetaembættisins, öryggisventli þjóðarinnar.

Við höfum því beðið forsetann um að upplýsa okkur hve lengi við þingmenn Pírata þurfum að þæfa málið til að hann komist til landsins til að taka málskotsréttinn úr höndum stjórnarliða.