142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Barátta fyrir bættum hag heimilanna í landinu er eitt fremsta og fyrsta áherslumál þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þegar hafa verið stigin skref til undirbúnings skuldaleiðréttinga ásamt því að starfshópur mun fara yfir vísitölutryggingu lána með það að markmiði að leggja verðtryggingu neytendalána af.

En fleira skiptir íslensk heimili máli en sligandi skuldir. Þróun vöruverðs á nauðsynjavörum veldur miklum áhyggjum. Nýlegar fréttir herma að á tímabilinu september 2012 til apríl 2013 hafi verð á nauðsynjavörum hækkað um 12%. Á sama tímabili styrktist gengi íslensku krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum um önnur 12%.

Svipuð þróun átti sér stað fyrir nokkrum missirum þegar krónan styrktist um 20% á ákveðnu gefnu tímabili en á sama tímabili hækkaði verð á nauðsynjum umtalsvert.

Hæstv. forseti. Vörudreifing og verslun með nauðsynjar á Íslandi er með þeim hætti að þrír stórir aðilar hafa markaðsráðandi stöðu og eru í færum til að skipta markaðnum á milli sín. Þeir stærstu þessara þriggja aðila hafa einnig yfir að ráða stærstu heildsölu landsins. Það er sérstakt áhyggjuefni þegar verðþróun nauðsynjavara er með þeim hætti sem kom fram í orðum mínum hér á undan.

Það er einnig og ekki síður áhyggjuefni að starfsmönnum verðlagseftirlits skuli gert erfitt að sinna starfi sínu.

Fram hefur komið af hálfu Samtaka verslunar og þjónustu að helstu leiðir til lækkunar vöruverðs sé að þeim sé gert kleift að flytja inn kjöt af erlendum uppruna ásamt því að ríkið létti vörugjöldum af innfluttum vörum, þ.e. að ríkið annist lækkun vöruverðs. Svo virðist sem verslunareigendur treysti sér ekki til þess. Það lítur ekki út fyrir að verslunareigendur hafi komið auga á hagræðingarmöguleikana í greininni þrátt fyrir að í nýlegri skýrslu komi fram að hér sé t.d. verslunarhúsnæði miklu stærra og meira en í nágrannalöndum og afgreiðslutími afar langur með tilheyrandi kostnaði.

Ef (Forseti hringir.) ekki verður breyting á held ég að nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld að grípa inn í með einhverjum hætti.