142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu um listamannalaun því að þau hafa oft verið í umræðunni. Eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir fór yfir er listamannalaunum úthlutað með tvenns lags hætti, þ.e. annars vegar samkvæmt lögum um heiðurslaun listamanna sem allsherjarnefnd gerir tillögu um með breytingu í fjárlögum. Á milli fjárlagaára í tíð síðustu ríkisstjórnar var úthlutað 43 milljónum árið 2012 en í fjárlögum síðasta árs 81 milljón. Það var rífleg hækkun á úthlutunum og í það var ég að vísa í umræddu viðtali í DV í gær, sem hv. þm. Björn Valur Gíslason gerði mér svo mikinn greiða að lesa upp í byrjun þingfundar.

Hins vegar eru það lög um listamannalaun. Hv. þm. Oddný Harðardóttir fór vel yfir hvaða listamenn falla undir þau, en í fjárlögum síðasta árs, á bls. 52, eru þeir listamenn sem undir þau lög falla að taka til sín rúmar 500 milljónir.

Hér erum við því komin með 600 milljónir í ríkisframlög til listamanna. Hv. þm. Oddný Harðardóttir spyr hvort draga eigi úr greiðslum til þessara hópa í fjárlagagerð yfirstandandi árs. Því get ég ekki svarað vegna þess að fjárlagafrumvarpið er skrifað í fjármálaráðuneytinu, eins og hv. þingmaður veit. Þessi mál eru að sjálfsögðu öll til skoðunar.

Það er stefna Framsóknarflokksins, og hann hlýtur að mega hafa þá skoðun í friði fyrir öðrum stjórnmálaflokkum, að betra sé að styrkja ungt og efnilegt listafólk og það eigi að gera. Eins og hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir fór yfir er heiður með ýmsu móti í samfélaginu, það þurfa ekki að koma greiðslur til.