142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er að finna frétt um fyrsta samkynhneigða parið til að ættleiða barn hérlendis. Þessar fregnir eru mjög ánægjulegar og mér finnst þetta svo sjálfsagt að ég las fréttina meira af áhuga en nokkurn tímann af undrun. En í lok fréttar er haft eftir Sindra Sindrasyni, öðru foreldrinu, með leyfi forseta:

„En sem betur fer ætla stjórnvöld að lögleiða staðgöngumæðrun. Ef þetta hefði ekki gengið hér hefðum við farið til Indlands eða annað til að finna okkur staðgöngumóður. Það er alveg ljóst.“

Á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrr á þessu ári var mikið rætt um staðgöngumæðrun og er ég stolt af því að þar var fremst í flokki ungt fólk innan flokksins. Niðurstaðan varð sú að við skyldum styðja við vinnu nefndar um staðgöngumæðrun sem sett var á fót, þökk sé baráttu hæstv. núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Í áfangaskýrslu nefndar segir, með leyfi forseta:

„… [er] nauðsynlegt að málið fái ítarlega umræðu og umfjöllun í samfélaginu áður en afstaða er tekin til þess hvort heimila eigi staðgöngumæðrun og þá með hvaða skilyrðum.“

Herra forseti. Ég hef verið talskona fyrir athugun á möguleikum staðgöngumæðrunar hérlendis. Ég veit að sú vinna er í gangi en því miður finnst mér sem þessi umræða og umfjöllun hafi þagnað, umræða sem við verðum að fara að horfast í augu við þar sem fólk er í dag neytt til að snúa á kerfið til að láta sinn heitasta draum rætast. Með því að klára vinnu nefndar og taka umræðu getum við komist að niðurstöðu fyrr en seinna og tekið af vafa fjölmargra einstaklinga sem að þessu málefni koma á einhvern hátt.