142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda, þingmanni Birgittu Jónsdóttur, fyrir að taka þetta mál upp hér á Alþingi. Varðandi það sem þingmaðurinn nefnir, og lýtur sérstaklega að fréttum undanfarna daga og viðbrögðum íslenskra stjórnvalda vegna þess, þá er það hárrétt hjá þingmanninum að undanfarið hafa ýmsir hér heima og erlendis fjallað um upplýsingar frá hinum bandaríska Edward Snowden sem benda til þess að bandarískar og breskar öryggisstofnanir hafi fylgst með og vistað upplýsingar um stofnanir og einstaklinga um allan heim umfram það sem talist geta eðlilegar ráðstafanir um varnir gegn hryðjuverkum.

Fréttir þessar hafa hins vegar hvorki verið ítarlegar né nákvæmar heldur fremur fjallað um það hvaða tækni er til staðar og hvernig hugsanlegt er að nýta hana. Engu að síður er það rétt sem kom fram í máli þingmannsins að einstaka dæmi hafa verið nefnd um meintar njósnir og óeðlilega upplýsingaöflun og í kjölfarið hafa nokkrar Evrópuþjóðir — líkt og málshefjandi kom inn á, þar með talið framkvæmdastjórn Evrópusambandsins — síðustu daga óskað skýrra svara frá breskum og bandarískum yfirvöldum um þessar óstaðfestu fréttir þess efnis að njósnastofnanir þeirra hleri ljósleiðara sem flytja símtöl og netsamskipti.

Hvað varðar spurningar málshefjanda þá er rétt að það komi fram að að sjálfsögðu fylgjast íslensk stjórnvöld með þessari umræðu og munu gera svo áfram. Það eru íslenskir hagsmunir að netnotendur geti treyst því að meginreglum íslenskra laga um frelsi, mannréttindi og persónuvernd sé fylgt og verði til rökstuddur grunur um að svo sé ekki verður að sjálfsögðu leitað skýringa á því.

Engin formleg eftirgrennslan, formleg athugun eða rannsókn er hafin en íslensk stjórnvöld munu — í kjölfar þeirra svara sem frá Bandaríkjamönnum og Bretum berast við þessum ásökunum, munu berast Evrópusambandinu og öðrum þjóðum — ákveða hvort ástæða sé til að skoða málið sérstaklega með hliðsjón af hagsmunum Íslendinga. Ef til þess kemur munu stjórnvöld óska nánari útskýringa frá viðkomandi ríkjum. Hins vegar er vert að geta þess að netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar ásamt ríkislögreglustjóra og Persónuvernd fylgjast að jafnaði með því að persónuvernd og netöryggi sé sem best tryggt á Íslandi. Þannig er til staðar ákveðið öryggisnet þar sem leitast er eftir að vernda íslenska netnotendur.

Herra forseti. Eitt af vandmeðförnustu úrlausnarefnum samtímans er það með hvaða hætti við tryggjum mannréttindi á tímum þegar tæknin hefur auðveldað svo stórkostlega tækifæri til eftirlits. Það er ljóst að á næstu árum og áratugum munu þjóðir heims, þar með talið Ísland, þurfa að tryggja að ekki sé farið yfir ákveðin mörk í friðhelgi einkalífs og að persónuvernd á netkerfum haldi um leið og við undirstrikum að sjálfsögðu ábyrgð einstaklingsins, réttindi hans og skyldur á netinu, líkt og í samfélaginu sjálfu. Líkt og þingmenn í þessum sal þekkja þá hefur fjarskiptaleynd lengi verið grundvallarregla í íslenskri fjarskiptalöggjöf en í henni felst öryggi upplýsinga sem á að girða fyrir það að óviðkomandi fái aðgang að þeim upplýsingum sem berast um fjarskiptanet.

Meginregla íslenskra laga er þannig að fjarskiptafyrirtæki bera ábyrgð á því að upplýsingaöryggis sé gætt í þeim kerfum sem þau bera ábyrgð á. Staðreyndin er hins vegar sú, líkt og kom fram í máli málshefjanda, að samskipti á internetinu liggja yfir landamæri ríkja. Þegar íslenskir þegnar fletta upp erlendum vefsíðum, hlaða þaðan niður gögnum, senda eða móttaka tölvupóst, geta slíkar gagnasendingar haft viðkomu í mörgum ríkjum um sæstrengi sem tengja Ísland við fjarskiptanet á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Það segir sig þess vegna sjálft að ógjörningur er fyrir íslensk fjarskiptafyrirtæki eða íslensk stjórnvöld að tryggja fullkomið öryggi þeirra upplýsinga sem þannig flæða um á fjarskiptanetum jafnvel eftir flóknum leiðum á milli mismunandi landa þar til þau komast eða eru móttekin á réttum áfangastað.

Hins vegar er rétt að ítreka það sem ég sagði hér í upphafi og kom fram í máli mínu að hér á landi er viðvarandi vöktun í gangi til þess að tryggja eins mikið og við mögulega getum umrætt netöryggi.

Herra forseti. Ég vil samt að lokum nefna það, vegna spurninga þingmannsins, að áður en þetta tiltekna uppljóstrunarmál kom upp hafði verið lagður grunnur að skipan samráðshóps innan stjórnkerfisins um eflingu netöryggis. Hópurinn er skipaður fulltrúum innanríkisráðuneytisins, fulltrúum utanríkisráðuneytisins, ríkislögreglustjóra og Póst- og fjarskiptastofnunar. Samráðshópnum er ætlað það mikilvæga verkefni að vinna að bættu net- og upplýsingaöryggi og gera tillögur um aðgerðir til næstu ára; meðal annars aðgerðir sem eru til þess fallnar að auka öryggi og áfallaþol upplýsingakerfa. Stefnt er að því að hópurinn taki til starfa strax í lok sumars.