142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli, þ.e. um eftirlit bandarískra stjórnvalda — og raunar breskra og kannski fleiri alþjóðlegra njósnastofnana eða eftirlitsstofnana — með Íslendingum, sem eru inni í þessu kerfi. Ég tek heils hugar undir það erindi málshefjanda að íslensk stjórnvöld eiga að ganga afdráttarlaust fram og óska eftir því fyrir fram að fá upplýsingar um hvort Íslendingar hafi verið inni í þessum söfnunum hjá þeim. Við getum síðan fylgt því betur eftir þegar við fáum nánari upplýsingar frá öðrum. Við eigum ekki að bíða eftir því hvað kemur frá öðrum og síðan taka afstöðu heldur eigum við að fara fram með þeim hætti sem hv. þingmaður bendir á, að taka frumkvæði og sýna þannig skýrt hver vilji okkar er gagnvart þessu máli.

Það er svolítið forvitnilegt að setja það í það samhengi og það umhverfi sem við erum að glíma við almennt. Við erum með frumvarp í allsherjar- og menntamálanefnd, til dæmis um Hagstofu, söfnun upplýsinga um skuldara og stöðu heimila, þar sem nánast er opnað á að safna öllum gögnum inn í stóra gagnagrunna. Það verður að segjast eins og er að þegar menn eru búnir að koma þessu inn í kerfin, jafnvel að búa til um þetta umhverfi, þá er hætta á því að þessar upplýsingar verði á glámbekk fyrir marga aðra. Við erum mitt í þessari umræðu sjálf um netöryggi og upplýsingasöfnun, hvernig við búum umhverfið þannig að við getum varist því að verið sé að fylgjast með einstökum mönnum.

Við eigum sjálf sök á þessu að mörgu leyti vegna þess að við samþykkjum skilmála á hinum og þessum vefjum um að miðla megi upplýsingum til hinna og þessara aðila í viðskiptalegum tilgangi. Við erum sjálf með í að setja ýmislegt inn á símann okkar, gefa upplýsingar um hvar við erum staðsett á hverjum tíma þannig að hægt er að fylgjast náið með ferðum okkar. Hægt er að fylgjast með kreditkortanotkun (Forseti hringir.) og öðru. Þeim mun frekar er það mikilvægt (Forseti hringir.) að íslensk stjórnvöld og Alþingi móti stefnu í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)