142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er mikilvæg umræða og ég þakka fyrir að hún er farin af stað. Það eru tvö mjög ólík grundvallarsjónarmið sem takast á hérna, hernaðarhyggja herveldis gegn borgaralegum réttindum friðelskandi þjóðar.

Það er áhyggjuefni að verða vitni að því hvernig Bandaríkjamenn haga sér og taka sér leyfi, í nafni þess að þeir eigi í einhvers konar styrjöld við hryðjuverkamenn eða ímyndaða ógn, til að ganga inn á borgaraleg réttindi, ekki bara sinna eigin þegna heldur íslenskra og annarra þjóða. Það er skylda ríkisstjórnar Íslands, hverjir sem skipa hana hverju sinni, að gæta hagsmuna þjóðarinnar og þegna þjóðarinnar og standa líka klár á þeirri grundvallarafstöðu sem við höfum sem friðelskandi og vopnlaus og herlaus þjóð í þessum efnum. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að við stöndum fast í fæturna og tek hjartanlega undir með hv. þingmanni sem hefur þessa umræðu.

Miklar breytingar eiga sér stað í samfélagi okkar, þátttaka okkar í daglegu lífi sem þegnar í lýðræðissamfélagi fer að mörgu leyti fram á netinu. Ég tek til dæmis þátt í stjórnmálastarfi á vettvangi Bjartrar framtíðar á heimasidan.is þar sem er starfandi landsfundur gegnumgangandi 24 tíma sólarhrings alla daga vikunnar. Þar fer fram mikil umræða og það skiptir mjög miklu máli að litið sé á þátttöku mína þarna sem hluta af réttindum mínum og að ekki sé gengið á þau réttindi.