142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. innanríkisráðherra fyrir þessi viðbrögð. Þau eru mjög gleðileg og það yljar mér um hjartarætur að sjá þingmenn taka þetta alvarlega, því að alvarlegt er það vissulega.

Það er satt sem hæstv. innanríkisráðherra segir, við getum ekki tryggt að hleranir eigi sér ekki stað erlendis. Því mikilvægara er að við eigum í samskiptum við aðrar þjóðir með mjög skýrum hætti og á eina lund — að þetta sé ekki líðandi að því marki sem það er satt.

Ég vara líka við því að þetta er ekki einsdæmi, þetta er ekki bara hervæðing Bandaríkjanna og Bretlands. Þetta er almenn þróun alls staðar í heiminum, þar á meðal hér. Eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson vék að áðan liggur í allsherjarnefnd frumvarp um Hagstofuna þar sem nákvæmlega svona mál eru undir. Því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við tökum friðhelgi einkalífsins alvarlega. Stærsta lygin á netinu er: Ég samþykki.

Það er ekki bara öryggissjónarmið sem gera það að verkum að þjóðir vilja safna saman persónulegum upplýsingum, það er misjafnt milli þjóða hverjir hvatarnir eru. Í okkar tilfelli akkúrat núna er það efnahagslegur stöðugleiki og í einstaka tilfellum siðgæði, eða meint siðgæði.

Því er spurningin sem ég vil leggja fyrir þingmenn og þjóðina alla dimm og miskunnarlaus en óumflýjanleg: Munum við finna nýjar leiðir til að styrkja borgararéttindi eða mun samspil tækniframfara og sjálfstraust yfirvalda gera friðhelgi einkalífsins að engu?