142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Hinn nýi veruleiki felur líka í sér ný tækifæri. Það er hverjum þeim sem var staddur á Tahrir-torgi í Kaíró í Egyptalandi í byrjun árs 2011 — þar sem milljónir manna komu saman og mótmæltu Mubarak forseta — ljóst að samtengingin skiptir mjög miklu máli á milli efnahagslífs og netnotkunar, viðskipta og lýðréttinda. Ég var þar staddur þegar yfirvöld höfðu gert tilraun til að slökkva á internetinu og slökkva á GSM-farsímakerfinu. Það varð til þess að efnahagslíf borgarinnar lamaðist. Það var mikill þrýstingur á að kveikja aftur á netinu vegna þess að engin fyrirtæki gátu rekið sig í þessum nýja veruleika. Samtvinnun efnahagslífs og okkar eigin persónulega lífs á netinu, fjölskyldutengsl og stjórnmálaskoðanir, fela í sér þessar miklu breytingar sem gefa okkur tækifæri til að beita okkur frekar sem borgarar í lýðræðissamfélagi. Þær auðvelda venjulegum borgurum að skipuleggja sig, beita sér í málefnum. Koma að mörgu leyti í staðinn fyrir hina hefðbundnu og að mínu mati úr sér gengnu stjórnmálaflokka.

Við sáum þetta til dæmis gerast þegar fólk safnaðist hér saman í búsáhaldabyltingunni sem er örugglega fyrsta Facebook-bylting heimsbyggðarinnar, veruleikinn er allt annar. Við sjáum þetta í þeim stjórnmálaöflum sem spretta upp hér, bæði Bjartri framtíð og Pírötum, sem grundvalla stjórnmálastarf sitt þarna. Þetta er mikil breyting sem á bara eftir að ganga enn lengra. Ég held að þetta séu réttindi og feli í sér frelsi sem við eigum að vernda eftir fremsta megni. Þetta er mikilvægt og kemur til með að skipta samfélag okkar miklu máli. Þess vegna eigum við að skora á ríkisstjórnina og okkur öll að standa vörð um þessi mikilvægu mannréttindi. (BirgJ: Heyr, heyr.)