142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[13:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Til að taka af allan vafa vil ég lýsa því strax yfir í upphafi máls míns að uppreisn er ekki hafin í Samfylkingunni þó að ég komi hér og ætli að gera eina lítilvæga athugasemd við mál míns góða formanns, hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Ég er sammála honum um að það er ýmislegt sem vantar í þessa tillögu. Hv. þingmaður sneiddi að hæstv. forsætisráðherra fyrir það að hafa algjörlega gleymt leigjendum í þessari þingsályktunartillögu. Ég get svo sem tekið undir það með hv. þingmanni að hagsmuna þeirra sér lítinn stað í tillögunni. Hæstv. forsætisráðherra hefur eigi að síður ekki gleymt þeim alveg. Ég minnist þess að á kosningadaginn skrifaði hann eina af sínum gagnmerku greinum á heimasíðu sína, þar var leigjenda getið. Hæstv. forsætisráðherra reifaði þar svigrúmið margfræga og sagði, með leyfi forseta:

„Talsmaður hópsins [sem beitir sér fyrir því að stjórnmálamenn taki á snjóhengjuvandanum] hefur bent á að svigrúmið geti numið um 800 milljörðum króna. Það er a.m.k. ljóst að um leið og leifar efnahagshrunsins verða gerðar upp mun gefast tækifæri til að koma til móts við heimilin og gera aðrar ráðstafanir til að rétta stöðu íslensks samfélags.“

Síðan skrifar hæstv. forsætisráðherra töluvert mál um hvaða atriði það eru sem þarf að leiðrétta og segir m.a. — ég vil vekja sérstaka eftirtekt hv. þingmanns á því — með leyfi forseta:

„[B]æta þarf stöðu leigjenda til mikilla muna …“

Svo ég kem hingað til þess að bera hönd fyrir höfuð hæstv. forsætisráðherra. Þegar grannt er skoðað hefur hann ekki algjörlega gleymt leigjendum. Hann byrjaði vel, hann lofaði miklu, honum hefur aðeins skrikað (Forseti hringir.) fótur í sporinu. En erum við ekki sammála um það, ég og hv. þingmaður, að við þurfum að nota (Forseti hringir.) þetta tækifæri til þess að fríska upp á minni hæstv. forsætisráðherra?