142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[13:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í Samfylkingunni, eins og ábyggilega í öðrum stjórnmálaflokkum, er verkaskipting. Hv. þingmaður sem hér talaði áðan leiðir flokkinn. Ég hef hins vegar tekið að mér það hlutverk án þess að vera beðinn um það að fylgjast nákvæmlega með því sem hæstv. forsætisráðherra skrifar. Ég fylgist með því öllu og finnst gaman að lesa það. Mér finnst gaman að rifja það upp. Ég held að það sé hollt, ekki bara fyrir mig og hv. þingmann, heldur held ég að það sé hollast fyrir hæstv. forsætisráðherra að rifja það upp sem hann sagði í kosningabaráttunni. Sem betur fer sé ég að hæstv. forsætisráðherra keppist við að lesa og skrifa, kannski er hann að tína upp úr hugskoti sínu stopular minningar um það sem hann sagði.

Það getur vel verið, eins og mér finnst hér dag hvern, að Framsóknarflokknum fari fram við það að gleyma því sem hann sagði, en ég hef ekki gleymt því. Kjósendur hafa ekki gleymt því. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég mun gera mitt ýtrasta til þess að rifja það upp sem lofað var vegna þess að orð skulu standa.

Það vil ég segja að enn höfum við ekki reynt hæstv. forsætisráðherra að einhverju öðru. (Forsrh.: Skjaldborgin?) Skjaldborgin um stórútgerðina, um sægreifana. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra rifjar það hér upp. Það er líka eitt af því sem halda mætti hér langar ræður um.

Hæstv. forsætisráðherra sagði það mjög skýrt í kosningabaráttu sinni hver ættu að verða forgangsmál Framsóknarflokksins. Við höfum séð þau. Því miður er það þannig að það eru mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur öðrum fremur borið fyrir brjósti sem eru forgangsmálin hér, og þá munar auðvitað mestu um 10 milljarða gjafabréfið til stórútgerðarinnar. Það er ágætt að hæstv. forsætisráðherra minnti mig á þetta.

En að öðru leyti vil ég beina því í (Forsrh.: Velferðarbrúin?) fullri vinsemd og með virðingu til hv. þingmanns og formanns Samfylkingarinnar að láta ekki líða nokkurn dag öðruvísi en að gá á heimasíðu hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) því að þar er margt hnossgætið að finna og er vel skrifað.