142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hefur svo sem fengið ágætisumfjöllun, bæði við fyrri umr. og einnig í nefndum og þar hefur komið ágætlega fram af okkar hálfu hvað okkur finnst vanta inn í málið. Það sem er kannski aðallega vonbrigði í þessu er eins og fram hefur komið hversu gleitt menn gengu fram í kosningabaráttunni í loforðum um aðgerðir strax, engar nefndir, bara efndir. En svo erum við að sjá hér tillögu sem gengur akkúrat í þveröfuga átt, meira um nefndir en nokkrar efndir. Það eru vonbrigði og hljóta að vera vonbrigði fyrir þá sem styðja ríkisstjórnina en það eru líka vonbrigði fyrir okkur sem öttum kappi við þá stjórnmálaflokka sem gengu fram eins og þeir gerðu, að hér væri hægt að smella fingri og kippa öllu í liðinn fyrir alla. Það er auðvitað ekki svo. Verkefnið er miklu, miklu stærra og það sést á þeim tillögum sem hér eru. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast vera farnir að gera sér grein fyrir því og átta sig kannski á þeirri stöðu sem fyrri ríkisstjórn var í gagnvart þessum málum þegar verkefnin blasa við þeim.

Þetta er nefnilega ekki einfalt mál og var eitt af okkar stærstu verkefnum á síðasta kjörtímabili fyrir utan það að reisa við ríkissjóð og skapa aftur tiltrú á íslenskum efnahag, sem gekk vonum framar verð ég að segja, en það var samt ekki þannig að okkur hafi tekist að klára allt, alls ekki. Það voru mjög mörg verkefni sem út af stóðu, til að mynda hvað varðar heimilin í landinu.

Áður hefur komið fram að um það bil 300 milljarðar fóru til heimilanna á síðasta kjörtímabili, 200 milljarðar í formi lækkunar skulda í gegnum fjármálastofnanir og 100 milljarðar beint úr ríkissjóði í gegnum vaxtabætur og barnabætur. En þetta var ekki nóg og það er algerlega ljóst að við þurfum að ganga lengra. Ágæt skýrsla sem fyrrverandi hæstv. velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, fór fyrir að gerð yrði sýndi fram á það. Við gerum okkur vel grein fyrir því og það er þess vegna sem við munum styðja þau góðu verk sem lögð verða fram til handa heimilunum í landinu og væntum þess þá að ríkisstjórnin muni vinna vel að þeim.

Í þingsályktunartillögunni er þó nokkuð sem upp á vantar og hv. þm. Árni Páll Árnason fór ágætlega yfir fjölmörg þeirra atriða. Ég vil gera eitt atriði að umtalsefni og geri ég breytingartillögu við málið þar um og það er hinn svokallaði lánsveðshópur. Í fyrri umr. um málið óskaði ég svara frá hæstv. forsætisráðherra um af hverju hans væri ekki getið í þessari tillögu og hvort ástæðan gæti hugsanlega hafa verið sú að menn ætluðu sér þá að standa við undirritaða viljayfirlýsingu fráfarandi ríkisstjórnar við Landssamtök lífeyrissjóða um úrbætur til þessa hóps. Við því bárust engin svör, því miður, en þau koma kannski á eftir. Ég vona það vegna þess að sá hópur má ekki vera í neinni óvissu.

Það er nefnilega þannig með þann hóp svo maður hlaupi létt yfir sögu að þegar síðasta ríkisstjórn fór í skuldaúrræðin voru fjölmargir sem gátu nýtt sér ýmsar leiðir og úrræði, til dæmis hina umtöluðu 110%-leið sem skilaði mjög mörgum heimilum skuldaniðurfærslu og fleiri slík úrræði en þau úrræði gat hópurinn með lánsveðin ekki nýtt sér. Við stóðum í töluverðu stappi lengi á síðasta kjörtímabili við lífeyrissjóðina sem vildu ekki taka þátt í þessu með okkur, þ.e. taka þátt í því að lækka veðin til samræmis við aðra hjá þeim sem höfðu þurft að taka veð fyrir láni og þetta er mestmegnis unga fólkið og þeir sem höfðu keypt á erfiðasta tíma fyrir hrun og voru kannski í hvað mestum vanda. Þess vegna lögðum við mikla vinnu í það og það tókst eftir mikið harðfylgi að ná þeirri viljayfirlýsingu við lífeyrissjóðina.

Við fögnuðum því mjög að þeir væru tilbúnir að brjóta odd af oflæti sínu og taka þátt í þessu með okkur þó að við hefðum auðvitað viljað sjá skerf þeirra stærri. En engu að síður töldum við mikilvægt að þetta yrði gert og mér finnst mikilvægt að því sé svarað af ríkisstjórninni hvort ekki verður staðið við þá viljayfirlýsingu. Þetta er ekki dýrasti pakkinn, þetta er ekki stærsti pakkinn en þetta er einn viðkvæmasti hópurinn af skuldurum vegna þess að þar er akkúrat hópurinn sem kom inn á versta tíma, keypti eignir á árunum 2005, 2006, 2007 þar sem erfitt var að koma inn á húsnæðismarkaðinn og mikil bóla í gangi og fólk þurfti að fá lán hjá foreldrum sínum eða veð að láni. Sá hópur hefur setið eftir vegna tregðu lífeyrissjóðanna en núna er sú tregða ekki lengur til staðar. Þeir hafa meira og minna samþykkt í stjórnum sínum að taka þátt í þessu verkefni.

Til að ekki verði óvissa hjá þessum hópi legg ég ásamt þingflokki Samfylkingarinnar til breytingartillögu við þingsályktunartillöguna um að við bætist nýr töluliður sem kveður á um að stjórnvöld ljúki nauðsynlegri vinnu til að uppfylla fyrir sitt leyti þau skilyrði sem felast í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Landssamtaka lífeyrissjóða — sem ég nefndi áðan milli fráfarandi ríkisstjórnar og Landssamtaka lífeyrissjóða — varðandi lánsveð og að þau skilyrði verði uppfyllt fyrir lok þessa árs þannig að þessi hópur geti fengið úrlausn mála sinna sem allra fyrst af því að sá hópur hefur algerlega setið eftir.

Það er eðlilegt að hann sé settur í ákveðinn forgang og til hans horft vegna þess að hann hefur ekki notið þess að sitja við sama borð og aðrir lántakendur í þeim úrræðum sem hingað til hafa verið veitt íslenskum skuldurum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu, erindi mitt hingað upp var um þetta. Ég tel þetta brýnt mál og ég vona að þingheimur sé tilbúinn til að taka þessa breytingartillögu til skoðunar og samþykkja hana svo að lánsveðshópurinn svokallaði viti hvað bíður hans en að mál hans séu ekki sett enn og aftur í óvissu bara með því einu að hér er komin ný ríkisstjórn til valda.