142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:54]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessu andsvari var nú ekki beinlínis beint að mér heldur hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur ekki aðstöðu til þess að koma hér upp og svara andsvarinu. En ég geri nú ráð fyrir því að hv. þingmaður muni skoða þessi mál vel í nefndinni á komandi missirum. Ég tel litlar líkur á öðru í ljósi þess hvernig málflutningur hv. þingmanns hefur verið, (Gripið fram í.) svoleiðis að ég held að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því. (SII: Hvenær á að afnema verðtrygginguna?)

Það var skemmtilegt að heyra að hv. þingmaður gekkst við því að hafa fundið upp þá brellu sem ég vék að hér áðan. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með það. Hún virtist stolt af þeirri uppfinningu sinni, ég ætla ekkert að draga það í efa þó að hv. þingmaður hafi ítrekað að hún væri mikill flokkshestur og gengi í takt með öðru samfylkingarfólki, að hv. þingmaður hafi fundið upp á þeirri stórsnjöllu leið til þess að reyna að ergja framsóknarmenn að kalla þetta hægri stjórn.

Ástæðan fyrir því að þetta er fyrst og fremst skondið frekar en ergilegt er að það blasir auðvitað við öllum hvers lags miðjuskynsemisáherslur eru ríkjandi hjá þessari ríkisstjórn og birtist það ekki hvað síst í þeirri þingsályktunartillögu (Gripið fram í.) sem við höfum rætt hér í dag.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu. Hv. þingmaður var reyndar þeirrar skoðunar að þetta væri fyrst og fremst tillaga framsóknarmanna. Eins og glöggt mátti sjá á mjög skýru og greinargóðu nefndaráliti sem kynnt var við upphaf þessarar umræðu, þ.e. áliti meiri hlutans, þá er þetta tillaga sem nýtur víðtæks stuðnings enda skynsamleg á allan hátt og upphafið að miklum breytingum til hins betra í íslensku samfélagi.