142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[14:56]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra ræðuna og skýringar á tillögunni sem hann lagði fram en það var margt skondið og skringilegt í henni svo ég vitni til eigin orða hæstv. forsætisráðherra. Það er tvennt sem ég vil draga sérstaklega fram í stuttu andsvari, þá yfirlýsingu í ræðu hæstv. forsætisráðherra að staðan í dag sé aðeins afleiðing stefnu síðustu stjórnar. Það er fráleitt að setja málin svo upp, það er gróf einföldun og ég treysti því að hæstv. forsætisráðherra viti betur. Ég þarf ekki annað en að minna á það sem varð hér haustið 2008. Þar liggur grundvöllurinn að þeim breytingum og þeim vandamálum sem við eigum við að etja í dag.

Dylgjur um 200 skattbreytingar og annað eru hefðbundnar klisjur úr kosningabaráttunni sem voru allar til þess fallnar að mála upp einhverja tiltekna mynd af síðustu ríkisstjórn sem átti að vera ríkisstjórn óstjórnar og alls kyns ömurlegheita sem áttu að hafa dunið á landsmönnum.

Hv. þm. Elín Hirst fór ágætlega yfir það í sinni stuttu ræðu í morgun þar sem hún lýsti því orðfæri sem hefur verið beitt og sagði að það væri harla viðeigandi miðað við hvað þjóðin hefur búið við á undanförnum öldum, a.m.k. í samanburði.

Varðandi misskilning um tilgang tillögunnar er hann ekki fyrir hendi. Það er nefnilega alveg ljóst hvað þetta er, það er einfaldlega rýrt í roðinu, einfaldlega nefndaskipunartillaga. Það má vel vera eins og ég ítreka í minni framsögu að þarna séu fyrstu skrefin tekin í átt að þessum miklu breytingum en aðalatriðið er að í kosningabaráttunni voru gefnar miklar væntingar um það sem koma skyldi. Þessi stjórnartillaga er ekki nokkurt skref í þá átt að standa undir þeim væntingum. Það sem meira er, ég get tekið undir að það sem virðist vera hér í sköpun er hægri stjórn, fullkomin og hreinræktuð hægri stjórn, jafnvel sú harðsvíraðasta sem við höfum séð. Það dæmi ég út frá þeim stjórnarfrumvörpum (Forseti hringir.) sem lögð hafa verið fram og því sem við höfum séð til aðgerða ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) til þessa.