142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[15:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að fara í keppni við hæstv. forsætisráðherra um það hver hafi annarlegustu hvatirnar, ég held að það þjóni litlum tilgangi.

Það sem brotist hefur út hjá okkur þingmönnum Samfylkingarinnar, a.m.k. hjá mér, svo ég tali nú bara fyrir mig sjálfan, það eru brostnar væntingar, þ.e. brostnar vonir. Ég átti von á meiru, bara hreinskilnislega.

Ég sagði það í fyrstu ræðu minni í þinginu að ég óskaði Framsóknarflokknum til hamingju með kosningasigurinn, góða kosningabaráttu, vel skipulagða, vel fram setta. En hvað gerist svo? Það eru þær vonir sem hafa brugðist, ég kvarta yfir því. Það kann að vera óþolinmæði í mér en það er einmitt vegna þess að við erum búin að vera að vinna í fjögur ár og búin að sæta endalausri gagnrýni fyrir að við höfum gert þetta vitlaust. Við höfum fengið nýjar tillögur. Okkur hefur verið sagt að búið sé að flytja tillögur í þrígang á þinginu, fullmótaðar tillögur sem ekki hafi verið hlustað á.

Síðan komum til þings þar sem viðkomandi aðilar eru komnir með völdin. Þá ætla þeir að fara að skoða allt saman. Það er það sem kemur við veiku blettina á mér og veldur mér vonbrigðum. Það eru ekkert annarlegar kenndir, ég er bara að átta mig á þessari nýju stöðu. Við skulum þá sætta okkur við að það sem við héldum að við færum að ræða á sumarþingi kemur til umræðu — ja, væntanlega ekki fyrr en í janúar miðað við tímasetningar því að það á að skila öllu inn í nóvember. Þá er lítinn tími til stefnu. Ég vænti þess að ríkisstjórnin ætli ekki að fara að keyra svona stór mál sem eru vönduð í undirbúningi á einhverjum tveimur, þremur dögum. Eftir það koma tillögur, það á eftir að koma fram með frumvörp, þannig að við erum að tala um að ræða þetta annað hvort í lok desember, yfir jólin eða á þinginu í janúar.

Ég verð bara að stilla mig inn á það að þannig er þetta, þetta eru bara brostnar vonir. Í því felast ákveðin vonbrigði vegna þess að (Forseti hringir.) um hvað snýst það að vera í pólitík? Það snýst um hag þjóðar, það snýst um (Forseti hringir.) hag kjósenda, hvort sem þeir álpast til að kjósa Framsókn eða Samfylkingu á hverjum tíma.