142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um mikilvægi þess að menn standi saman um þessi markmið. Ný ríkisstjórn er núna að fara yfir ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar, mun í sumu framfylgja því sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með. En í sumu sjá menn ástæðu til að breyta þeim aðferðum sem síðasta ríkisstjórn studdist við til að ná jafnvel sömu markmiðum, þeim markmiðum sem menn eru sammála um.

Nú er hafin vinna við undirbúning og gerð fjárlaga næsta árs og að sjálfsögðu fara menn yfir þessa hluti eins og aðra. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er einhugur um markmiðið og mikilvægi þess að bæta kjör þessara stétta. Spurningarnar snúast því bara um það hvernig menn tryggja það sem best og til langs tíma.