142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

ríkisfjármál.

[10:42]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Fyrr í vikunni voru rakin þau útgjöld eða útgjaldaáform sem stofnað hefur verið til og stendur til að stofna til af hálfu ríkisstjórnarinnar sem og samdráttur í tekjum sem ákveðinn hefur verið og stendur til að ráðast í með stórum aðgerðum í tekjuöflun ríkisins. Samtals nemur þessi upphæð hátt í 35 milljörðum kr. sem er 1 milljarður á hverjum einasta degi sem þessi ríkisstjórn hefur starfað, þ.e. bæði útgjöld og minnkun tekna. Það er búið að stækka þetta fjárlagagat, hallann á ríkissjóði, um 35 milljarða á starfstímabili ríkisstjórnarinnar.

Það hefur einnig komið fram hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að það verði ráðist í flatan niðurskurð á útgjöldum ríkisins upp á 1,5%. 1,5% af útgjöldum ríkisins eru 7 milljarðar. 1,5% af útgjöldum velferðarmála eru 3,5 milljarðar, svo fólk hafi það á hreinu. Það á sem sagt að hætta við þá stefnu sem öll samtök, AGS, OECD og fleiri mæla með, það á að falla frá því að deila byrðunum eftir málaflokkum. Það skal jafnt yfir alla ganga, 1,5% yfir línuna, velferðarmál sem og annað. Þetta er hrein hægri stefna líkt og sú sem breska ríkisstjórnin er með á sínum heimaslóðum og hefur kostað miklar fórnir og er mjög umdeild. Það er sem sagt allt undir.

Ég spyr hæstv. efnahagsráðherra: Hvernig á að mæta því sem eftir stendur, þ.e. 7 milljörðum af þeim 35 sem ríkisstjórnin sjálf hefur stofnað til og stækkað gatið? Það er talað um sértækar aðgerðir. Þá er verið að tala um sértækar aðgerðir upp á 25–28 milljarða í fjárlögum næsta árs ef á að loka eingöngu þeim verkum og því fjárlagagati sem núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) hefur myndað á þeim fáu dögum sem hún hefur stjórnað í landinu.