142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

ríkisfjármál.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er óskaplega erfitt að eiga orðastað við hv. þingmann þegar hann þvælir saman tölum þannig að engin eðlileg skýring er látin fylgja. Hér er talað um að menn hafi gefið frá sér 30 milljarða. Væntanlega er þingmaðurinn búinn að reikna upp einhverjar stærðir og fletja þær út allt kjörtímabilið, fjögur ár fram í tímann.

Hann lætur liggja að því að menn hafi gefið frá sér 1 milljarð hvern dag sem ríkisstjórnin hefur starfað. Auðvitað er þetta ekki svaraverður málflutningur, ekki á nokkurn einasta hátt. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður ætti frekar að beina orðum sínum að þeirri staðreynd sem fyrrverandi fjárlaganefndarmaður að nú stefnir í um 30 milljarða halla þó að gert hafi verið ráð fyrir því í fjárlögum að við yrðum því sem næst í jöfnuði á yfirstandandi ári. Hann ætti kannski frekar að lýsa áhyggjum sínum af því að aftur stefni í halla á næsta ári ef ekki verður gripið til þeirra aðhaldsaðgerða (Gripið fram í.) sem hann er að kalla eftir.

Hann er að kalla eftir feiknalega miklum niðurskurði vegna þess að honum er svo mikið í mun að ríkissjóður verði rekinn í jöfnuði á næsta ári, eins og mér. Hann er að kalla eftir feiknalegum niðurskurði, langt umfram þessa 6 milljarða aðhaldskröfu (Forseti hringir.) sem um ræðir. (Gripið fram í.) En 5% aðhaldskrafan á heilbrigðisstofnanir og öldrunarstofnanir, (Forseti hringir.) sem var gerð á árunum 2010 og 2011, er margföld sú sem við erum að gera á næsta ári.