142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

endurskoðun fjárreiðulaga.

[10:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hefur í fjármála- og efnahagsráðuneyti staðið yfir um alllangt skeið vönduð vinna við endurskoðun fjárreiðulaga. Fjórir hópar hafa undirbúið drög að frumvarpi og þeir eru skipaðir ráðuneytum, Fjársýslunni, Ríkisendurskoðun, Hagstofunni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjárlaganefnd.

Frumvarpið sem í smíðum er er samið með áherslu á ákveðin gildi sem alþjóðastofnanir og sérfræðingar í ríkisfjármálum benda á að skili mestum árangri. Þannig er í frumvarpsdrögunum gert ráð fyrir stefnumörkun í opinberum fjármálum sem felist í fjármálastefnu ríkisstjórnar og að hún sé grundvölluð á eftirtöldum gildum:

Sjálfbærni sem felst í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir.

Stöðugleika sem byggir á því að stjórn opinberra fjármála stuðli að jafnvægi í efnahagsmálum.

Varfærni sem byggir á því að hæfilegt jafnvægi sé á milli tekna og gjalda.

Festu sem felst í því að forðast óvæntar og óæskilegar breytingar eða frávik frá tekju- og útgjaldaáætlun.

Gagnsæi sem felst í að stefnumörkunin í opinberum fjármálum eru sett mælanleg, skýr og auðsæ markmið sem birt eru opinberlega ásamt gögnum sem auðvelda mat á stöðu opinberra fjármála.

Ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort honum hugnist ekki þessar áherslur í endurskoðun fjárreiðulaga. Hvað honum finnist um áherslur á fjármál sveitarfélaga í lagasetningu er varðar ríkisfjármál, og hvort líklegt sé að frumvarp byggt á fyrirliggjandi vinnu verði lagt fram á haustþingi.