142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

endurskoðun fjárreiðulaga.

[10:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt að lagt hefur verið í mjög mikla vinnu við að koma saman frumvarpi til nýrra fjárreiðulaga eða laga um opinber fjármál. Það er margt mjög jákvætt í þeirri vinnu sem við mér blasir sem nýr ráðherra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Ég geri ráð fyrir því að á næstunni verði drög að frumvarpi, sem nú eru því sem næst fullbúin, um þetta efni lögð fram á netið til kynningar. Við munum þá safna athugasemdum og láta það ráðast aðeins af viðbrögðunum við þeirri kynningu hvert næsta skerf verður í málinu, en ég hallast frekar að því að á haustdögum muni frumvarp um þetta efni koma fram. Mér finnst að öll meginhugsunin að baki málinu sé góð. Við erum að færa fram regluverkið um þessi efni frá því að síðast voru sett almenn lög um efni árið 1997 um að færa okkur svona 15 ár fram í tímann. Þá þótti löggjöfin um efnið vera mjög nútímaleg og í samræmi við bestu framkvæmd sem þekkist annars staðar.

Með þeirri utanaðkomandi ráðgjöf og því mikla samstarfi sem átt hefur sér stað tel ég að hér sé í fæðingu nýr rammi utan um fjárreiður ríkisins, gerð fjárlaga og samskipti ráðuneyta og þings sem geti mjög auðveldað gegnsæið og hin faglegu vinnubrögð sem mjög er kallað eftir — auðveldað þinginu að rækja hlutverk sitt, og ráðuneytunum á sama tíma að mæta því aðhaldi sem að þeim beinist. (Forseti hringir.) Á sama tíma fá ráðuneytin þarna ákveðið svigrúm. (Forseti hringir.) Ég hyggst vera í mjög góðu samráði við fjárlaganefnd, en málið er ekki (Forseti hringir.) enn fullrætt í ríkisstjórninni.