142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

endurskoðun fjárreiðulaga.

[10:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum reyndar tekist á um það í löngum umræðum hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni skila sér í auknum tekjum fyrir ríkissjóð til langs tíma eða ekki. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem mér heyrist þingmaðurinn vilja tala fyrir þá er bara ein leið til að auka jöfnuðinn í ríkisfjármálum, hún er sú að halda áfram að hækka skatta endalaust, en yfir 80% Íslendinga eru þeirrar skoðunar að gengið hafi verið of langt á þeirri braut.

Ég heyri engin önnur úrræði frá núverandi stjórnarandstöðu en að halda áfram að hækka skattana til að loka fjárlagagatinu. Við ætlum ekki að fylgja þeirri stefnu.

Spurt er hvort einhverjar líkur séu til þess að menn verði tilbúnir til að starfa í anda þeirra hugmynda sem ræddar eru í tengslum við nýtt mögulegt frumvarp um opinber fjármál. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið raunverulegur vilji hjá fyrrverandi ríkisstjórn til að starfa í anda þeirra gilda, vegna þess að mér finnst ekki (Gripið fram í.) — að sjálfsögðu er alvara að baki því hjá núverandi ríkisstjórn en fyrri ríkisstjórn sýndi þann vilja ekki í verki þegar hún efndi til dæmis til jafnlaunaátaksins (Forseti hringir.) sem var rætt hér áðan, vegna þess að það var ekki í samræmi við gildi um stöðugleika, (Forseti hringir.) sjálfbærni, varfærni og gegnsæi að skrifa í aðdraganda (Forseti hringir.) kosninga undir hvern samninginn á fætur öðrum sem ekki var gert ráð fyrir á fjárlögum. Það var þvert brot á öllum þeim gildum (Forseti hringir.) sem drög að frumvarpinu standa fyrir. (Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Ég bið hæstv. ráðherra og hv. þingmenn að virða tímamörk umræðunnar.)