142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

nýjar reglur LÍN um námsframvindu.

[10:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Ég vil árétta að það fyrirkomulag sem stjórn lánasjóðsins hefur lagt til er að taka aftur upp sömu kröfu um námsframvindu og var hér fram að skólaárinu 2007–2008, þ.e. kröfu um 75% námsárangur. Þetta er sama krafa um námsárangur og er alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum.

Síðan er sá sérstaki þáttur málsins sem fyrirspyrjandi vekur athygli á sem er skammur fyrirvari varðandi þessa ákvörðun. Það er rétt að ég tók við embætti mínu í maímánuði. Fram að þeim tíma höfðu ekki verið staðfestar neinar nýjar reglur frá stjórn lánasjóðsins. Það var skipt um stjórn lánasjóðsins eins og stóð til að gera, það lá fyrir að skipunartíminn var runninn út. Ný stjórn tekur við. Hún stendur frammi fyrir því að fyrir lágu áætlanir um töluvert mikla hækkun á námslánum þrátt fyrir þá stöðu að ríkissjóður yrði rekinn á þessu ári með þeim halla sem hæstv. fjármálaráðherra gerði hér grein fyrir. Síðan kemur fram aðhaldskrafa upp á 1,5% og við því þarf að bregðast.

Auðvitað vildi ég hafa haft lengri tíma, virðulegi forseti, til að bregðast við þessu. En ríkisstjórnin tók við á þeim tíma sem hún tók við á. Það voru höfð snör handtök til að bregðast við og þetta er niðurstaðan.

Ég legg líka áherslu á og minni á að með því að við gerum þessa kröfu um aukinn námsárangur myndast um leið svigrúm til að hækka grunnframfærsluna. Það myndast svigrúm til að hækka hana um 3% og verða þannig við þeirri kröfu. Það er mikilvægt. Það þýðir að allir þeir sem ná námsárangrinum fá hærri námslán.

Ég ítreka að það er verið að leggja upp með sömu kröfu og var hér og það er sama krafa um (Forseti hringir.) námsframvindu og er núna alls staðar á Norðurlöndunum.