142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

lengd þingfundar.

[11:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst dálítið sérstakur bragur orðinn á þessu þinghaldi. Hér eru brotnar allar hefðir með því að efna til kvöldfundar á föstudegi, sem ég man ekki eftir að hafi gerst, en samt er ríkisstjórnin ekki búin að virða okkur þess viðlits í stjórnarandstöðunni að koma með heildstætt yfirlit um hvaða mál hún hyggst afgreiða og hvernig.

Við erum hér algjörlega til viðræðu um hvaðeina en það verður að virða stjórnarandstöðu viðlits. Mér finnst ekki góður bragur á því að efna á hásumri til kvöldfundar á föstudegi þegar ríkisstjórnin er ekki búin að gera það upp við sig hvað hún ætlar að afgreiða hér eða hvernig og algjörlega liggur ljóst fyrir að við erum til viðræðu um allt.

Ég verð að segja eins og er að ég man ekki eftir svona fundarhöldum á síðasta kjörtímabili og voru þó brýnni úrlausnarefni sem þingið hafði við að glíma en eru nú. Hérna eru nokkur mál. Á fundum með forseta höfum við lýst vilja til að ljúka þingstörfum í friði og spekt með heildarsamkomulagi. Það stendur upp á ríkisstjórnina að koma með samkomulagstillögu og mér finnst þetta fáránleg framganga meðan hún er ekki komin fram.