142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

lengd þingfundar.

[11:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi gerði þáverandi stjórnarandstaða miklar athugasemdir og líka stjórnarþingmenn um að Alþingi væri ekki nægilega fjölskylduvænn staður og tæki ekki tillit til fjölskyldufólks. Í þingflokki Bjartrar framtíðar er fólk sem býr úti á landi og hefur gert ráðstafanir til að fara heim til sín um helgina og ég treysti því að á sama tíma og ég geri ekki athugasemdir við það að þingfundur geti staðið eitthvað lengur í dag taki forseti tillit til þess við skipulagningu starfa hér að fólk muni geta komist heim til sín á skikkanlegum tíma.

Ég leggst alfarið gegn því að hér verði haldinn fundur á laugardegi með þessum litla fyrirvara. Fundir hafa staðið fram á miðjan dag alla vikuna. Það er fráleitt að fara að halda helgarfund nema það sé hluti af sérstöku samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu um lok þinghalds. Það samkomulag liggur ekki fyrir en ég treysti því að forseti muni freista þess að ná slíku samkomulagi í hádeginu.