142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:12]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þá umræðu og þá vinnu sem fór fram vegna þessarar tillögu í nefnd. Um er að ræða tillögu sem, þegar hún nær fram að ganga, felur í sér umfangsmestu aðgerðir sem hafa verið gerðar fyrir skuldsett heimili líklega nokkurs staðar í heiminum frá því að fjármálakrísan reið yfir á árinu 2007.

Fyrir liggja nokkrar breytingartillögur, breytingartillaga um að hverjum þingflokki verði heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í starfshópa sem munu útfæra það sem er hér til umræðu. Þeir starfshópar eru hugsaðir sem sérfræðihópar þannig að ég tel ekki æskilegt að þeir hafi sex stjórnmálamenn sitjandi yfir sér á öllum fundum. Tilgangur sérfræðihópanna er að útfæra það sem liggur fyrir í tillögunni. Þó munu menn að sjálfsögðu hafa samráð í þinginu um afrakstur þeirrar vinnu og við munum fylgjast með því hvernig henni vindur fram. Ég mun því hvorki styðja þessa breytingartillögu né aðrar breytingartillögur.