142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hugur okkar hafði staðið til að styðja þessa tillögu, veita henni brautargengi og vera hluti af þessu verkefni. Nú er það þannig að ríkisstjórnarflokkarnir hafa kosið að koma með óljósar tillögur, þeir vilja ekki frekari skýringar á því sem er lagt upp með. Þeir bjóða ekki aðkomu að því að móta spurningarnar sem sérfræðinganefndirnar eiga að vinna eftir. Þeir hafna aðkomu okkar að sérfræðinganefndunum sjálfum og síðan á að hafa samráð við þingið þegar niðurstaðan liggur fyrir.

Við höfðum annan hátt á í síðustu ríkisstjórn. Þá fengu allir stjórnarandstöðuflokkarnir að koma að mótun tillagnanna meðan við vorum enn þá á hugmyndastigi. Það er hinn eðlilegi framgangsmáti í miklu hagsmunamáli sem skiptir alla þjóðina miklu máli. Þetta er framganga sem veldur því að ríkisstjórnarflokkarnir verða einir að bera ábyrgð á þessari tilurð og ábyrgðin er þeirra. Ég vona samt sem áður — ég vona það einlæglega — að menn sjái að sér og setji á fót einhvers konar þverpólitíska verkefnastjórn sem (Forseti hringir.) gefur stjórnarandstöðunni færi á því að koma að mótun þessa verkefnis.