142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:44]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Að þessari breytingartillögu standa fulltrúar allra flokka í allsherjar- og menntamálanefnd nema Samfylkingar og Vinstri grænna og hún felst í því að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins fái áheyrnarfulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins.

Í þeim lögum sem gilda í dag er gert ráð fyrir að starfsmenn hafi einn áheyrnarfulltrúa sem er einn af stjórnarmönnum en þar sem við breyttum fyrirkomulaginu féll hann sjálfkrafa út og þótti okkur eðlilegt að koma til móts við þær athugasemdir sem fram komu í nefndinni um að starfsmenn ættu eðlilega að hafa áheyrnarfulltrúa þarna. Þakka ég þeim sem í nefndinni voru fyrir þá vinnu sem við lögðum í þetta og umræður og fyrir að vilja standa að þessari tillögu með okkur þar sem ég tel hana til bóta.

Ég ætla líka að koma inn á hina breytingartillöguna undir sama lið af því að hún fjallar um sama mál og sama efni. Það er alveg rétt að hlutverk Ríkisútvarpsins er mjög mikilvægt og vítt sem hefur verið margrætt hér. Menn hafa haft miklar áhyggjur af því að ekki kæmust nógu mörg sjónarmið á framfæri, þetta væri ekki nógu faglegt með þeim breytingum sem við erum að gera á lögunum með því að láta Alþingi velja fulltrúana. Það var talað um að það fyrirkomulag sem stendur í dag ætti að tryggja að sem breiðastur hópur kæmi að þessu og þetta yrði sem faglegast og þess vegna ákvað ég að leggja fram breytingartillögu um að í stjórninni yrðu níu fulltrúar í stað sjö til þess þá að breikka aðkomu að stjórninni þannig að fleiri sjónarmið fái að heyrast í henni. Þá mun um leið vægi hvers stjórnarmanns minnka.

Áður var stjórnin fimm manna og þá vegur sjónarmið hvers manns náttúrlega þyngra. Með þessu teljum við okkur koma töluvert til móts við þær athugasemdir sem komu fram í þessari umræðu af því að okkur er mikið í mun að tryggja að stjórn RÚV starfi faglega, að um þessa stofnun ríki friður og að menn beri til hennar traust.

Ég legg til að báðar þessar breytingartillögur verði samþykktar.