142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:23]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ágætu þingmenn sem eru í salnum. Sú breytingartillaga sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason mælti fyrir lagar ekki það skjal sem liggur fyrir hér. Það að starfsfólk fái aðkomu að stjórninni breytir því ekki að um er að ræða breytingu á skipun í stjórn sem snýr að því að gera hana einsleita, gera hana pólitíska, gera hana undir hæl þings setta hverju sinni og þá auðvitað ráðandi þingmeirihluta.

Þetta skiptir gríðarlegu máli. Þessi breyting samhliða breytingu nýrra laga sem samþykkt var í vor, vel að merkja með öllum atkvæðum þingmanna Framsóknarflokksins, fól í sér að stjórn Ríkisútvarpsins hefði nú dagskrárgerðarvald. Því stendur ekki til að breyta. Hins vegar stendur til núna að breyta skipuninni í stjórn. Stjórnin skal lúta Alþingi, vera skipuð af þingflokkum Alþingis eftir því hver skipar þar meiri hluta hverju sinni og mun þar af leiðandi endurspegla valdahlutföll inni á þingi. Það sem meira er, samkvæmt óbreyttum nýjum lögum sem samþykkt voru í vor mun sú stjórn móta dagskrárefni og dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins.

Saman gera þessar breytingar núna í samkrulli við nýju lögin sem eru samþykkt banvænan kokteil, banvænan kokteil þess efnis að pólitíkin mun fara að skipta sér af dagskrárstefnu eina stóra hlutlausa fjölmiðilsins sem er til á landinu í dag.

Það er nefnilega fullkomlega óumdeilt að Ríkisútvarpið er hlutlaust, hlutlaus miðill. Það er hins vegar þannig að margir úti í samfélaginu líta svo á að miðlinum sé einhvern veginn handstýrt og hafi sérstaklega síðastliðin fjögur ár verið handstýrt af öflum innan þings. Margur heldur mig sig, segi ég bara í þessari umræðu. Það er vissulega svo að Sjálfstæðisflokkur hefur haft það sem vinnulag sitt að stýra umræðu. Við sjáum það náttúrlega langbest á því hvernig Morgunblaðið er orðið. Við sjáum þá miklu afturför sem hefur orðið á málefnalegri umræðu um málefni samfélagsins í Morgunblaðinu. Það þarf enginn að fara í grafgötur með það hvert sá miðill er farinn ef menn glugga í nokkra leiðara undanfarin fjögur ár eða í Staksteina, sem væri náttúrlega enn verra, eða umfjöllun yfir höfuð.

Það er náttúrlega furðulegt að ritstjóri þessa blaðs skuli heita Davíð Oddsson sem var forsætisráðherra í 14 ár, stýrði hér í rauninni landi í 18 ár sem seðlabankastjóri og líka sem utanríkisráðherra. Það líkti þessu einhver við það að Nixon hefði verið settur yfir Washington Post eftir Watergate-hneykslið. Það er álíka gáfulegt að setja Davíð Oddsson sem ritstjóra Morgunblaðsins eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008, en það var liður í mjög markvissri aðgerðaáætlun sem sneri að því að endurskrifa söguna, þ.e. að láta líta út fyrir að hrunið 2008 hafi einfaldlega verið einhvers konar slys, einhvers konar tilviljun og að mestu leyti utanaðkomandi öflum að kenna, vondum útlendingum, allsherjarfjármálakrísu o.s.frv. Það er það sem hefur síðan dunið á okkur í umræðunni undanfarin fjögur ár í gegnum blaðsíður Morgunblaðsins.

Þetta er sorglegt. Það er sorglegt að horfa upp á þetta. Á sama tíma hafa hins vegar skref verið tekin, markviss skref verið tekin í að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins, fjarlægja Ríkisútvarpið frá pólitískum öflum, tryggja sjálfstæði þess og efla getu þess til fagmennsku, til faglegrar umfjöllunar. Þetta svíður fólki sem vill auðvitað endurskrifa söguna. Þetta svíður fólki sem vill skrifa sögu sína sjálft og hvernig undanfarin ár hafa farið fram. Þá er ekkert auðveldara að gera en að láta í það skína að auðvitað sé þeim miðli, eins og öðrum, handstýrt af annarlegum pólitískum öflum, af annarlegum pólitískum hagsmunum rétt eins og þeir sem hafa uppi svoleiðis málflutning eru vanir að ástunda sjálfir, vinnubrögð sem þeir eru vanir að ástunda sjálfir. Það vill svo til að í samfélagi okkar hugsa ekki allir eins, það vinna ekki allir eins. Með öðrum orðum eru ekki allir eins og Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkurinn.

Það vill svo til að síðastliðin fjögur ár hefur ríkisstjórnin markvisst verið að taka skref í átt að því að fagvæða Ríkisútvarpið, gera það sjálfstætt og færa það frá pólitísku valdi. Af hverju? Jú, vegna þess að það eru sumir í þessu samfélagi sem átta sig á mikilvægi þess að fjölmiðlar geti virkað sem fjórða valdið, að fjölmiðlar hafi virkt aðhald með stjórnmálamönnum og valdastétt hvers tíma. Það er einstaklega mikilvægt í öllum ríkjum og þess vegna má ekki og á ekki undir nokkrum kringumstæðum að færa miðla nær eða undir pólitískt vald.

Þetta vissi síðasta ríkisstjórn og veit. Þetta vitum við og það skiptir máli. Hins vegar er það svo sumir halda að á valdatíð síðustu ríkisstjórnar hafi fólk verið skipað inn í Ríkisútvarpið sem var handbendi pólitískra skoðana þeirra sjálfra sem þar sáu um. Það hefur birst ítrekað í ummælum hv. þingmanna í þessu púlti þar sem menn halda einhvern veginn að hér hugsi hver einn og einasti stjórnmálamaður einungis um að maka sinn krók, ota sínum tota og koma sínum sjónarmiðum að hvar sem er, hvenær sem er, hvernig sem er og svífist einskis til þess. Þetta er rangt en aftur: Margur heldur mig sig. Margur heldur nefnilega að aðrir hugsi eins og þeir hugsa. Þetta er ekki rétt og það skiptir gríðarlegu máli.

Það sem liggur fyrir okkur í þessari tillögu er skipan einsleitrar stjórnar. Stjórnar sem verður einsleit vegna þess að hún verður pólitískt skipuð öndvert því sem var tillaga með þeim lögum sem eru í gildi, að það væri fagleg stjórn. Hún er vissulega fámennari, hún er vissulega fimm manna en hún kemur úr ólíkum áttum: Úr þingi, sem er vissulega eigandi Ríkisútvarpsins, þ.e. fyrir hönd þjóðarinnar, frá samfélagi háskólanna og frá listamönnum. Þessi stjórn, úr þeim þremur áttum, sem vel má stækka og vel má breikka, átti að hafa mótandi áhrif á dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.

Með þessari breytingu verður það svo að einsleit sjö eða níu manna stjórn, einungis skipuð þeim flokkum sem eru á Alþingi og endurspeglar þar af leiðandi valdahlutföllin á þingi, mun stýra, hafa áhrif á og móta dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins. Markmiðin eru alveg skýr, þau eru auðvitað að hafa pólitísk áhrif á dagskrárstefnuna, stýra umræðunni og færa Ríkisútvarpið, þennan merka miðil, nær pólitísku valdi, koma honum skýrar inn í faðm pólitíkurinnar og gera honum þar með erfiðara að viðhalda og efla gagnrýna umræðu í samfélaginu, viðhalda valdi sínu sem fjórða vald. Þetta er hættuleg þróun, þetta er afturför sem við verðum að vinda ofan af.

Ég hafna alfarið báðum breytingartillögum sem eru lagðar fyrir hér. Sú fyrri, sem maður gæti reyndar mögulega setið hjá við, snýr að því að veita starfsmönnum áheyrnarsetu í stjórn. Ég tel hana einfaldlega hvítþvott á annars afar vondri tillögu. Þeirri síðari, sem er að breyta stjórninni þannig að hún sé skipuð af Alþingi, hafna ég auðvitað alfarið. Hún á sér engar fyrirmyndir. Þetta er hvergi annars staðar svona. Þetta var vissulega þannig hér en það voru tekin skref, markviss skref í átt frá því fyrirkomulagi og af gildum ástæðum, þ.e. að færa Ríkisútvarpið frá hinu pólitíska valdi og efla sjálfstæði þess og getu til fagmennsku og getu til að standa undir því nafni að verða fjórða valdið í þessu samfélagi. Það voru markviss skref tekin í þá átt. Nú á að taka og vinda ofan af þeim. Nú á að fara til baka og svo ég vitni í bloggfærslur og ummæli, með leyfi forseta, á að hreinsa út samfylkingarfólkið sem er þar.

Það er galin hugmynd að þarna hafi fólki verið skipað inn út frá flokksskírteinum og að þarna sé umræðu stýrt og hafi verið stýrt undanfarin fjögur ár. Hugmyndin er galin og hún er spunnin upp úr höfði fólks sem náttúrlega ástundar að gera það sem við sjáum til að mynda á síðum Morgunblaðsins. Þar eru einmitt svona vinnubrögð ástunduð, sagan endurskrifuð, sögum komið á kreik, efni stýrt þannig að látið er líta út fyrir og látið í það skína að hlutir séu öðruvísi en þeir eru. Það er dagskrárgerð sem þeir þekkja. Það er dagskrárgerð sem við sjáum væntanlega koma til í framhaldinu þegar stjórnin verður pólitískt skipuð hjá Ríkisútvarpinu. Ég óttast þá þróun. Hún er afturför og ég hafna alfarið þeim tillögum sem liggja fyrir.