142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[12:34]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn og aftur málefni Ríkisútvarpsins og frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og þá eftirtektarverðu ákvörðun hans að breyta núgildandi lögum og taka eingöngu út úr lögunum það sem snýr að vali stjórnarmanna. Þetta er hans helsta mál ásamt því að boða til niðurskurðar í lánamálum námsmanna og gera til þeirra auknar kröfur um námsframvindu þar að lútandi. Þetta eru helstu mál hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem hann leggur fram á þessu sumarþingi. Sem sé, ákvörðun ráðherrans um að stjórnmálavæða á ný Ríkisútvarpið og herða enn tök pólitíkurinnar á ríkisreknum fjölmiðli, og af því að ég er svo vinstri græn og róttæk að fullyrða að almenn sátt sé um það í samfélaginu að við viljum vera framsýnt og framsækið þjóðfélag sem gangi í nútímalegum takti við aðrar þjóðir þá er ansi hreint áhugavert að sjá hversu afturhaldssamt frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er. Í því er dregið með kröftugum og mjög skýrum hætti úr þeim lýðræðislegu áherslum sem finna má í núgildandi lögum um val á stjórnarmönnum. Og það aðeins réttum tæpum þremur mánuðum frá því að Alþingi samþykkti ný heildarlög um Ríkisútvarpið, nr. 23, en með þeim voru gerðar margþættar breytingar á þeim lagareglum sem giltu um Ríkisútvarpið og lögð megináhersla á hlutverk þess sem fjölmiðils í almannaþágu.

Eins og öllum er kunnugt um var þeim lögum, núgildandi lögum, ætlað að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni. Vísað er líka í lögunum í ákveðin siðferðisgildi sem Ríkisútvarpið skuli hafa í heiðri svo sem fagmennsku, heiðarleika og virðingu og í þeim er ítarlegra kveðið á um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins en í eldri lögum, meðal annars er það sérstaklega tilgreint, þ.e. lýðræðislegt hlutverk og menningarlegt.

Þannig er í núgildandi lögum, til upprifjunar, kveðið á um að ráðherra tilnefni formann stjórnar og Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins einn stjórnarmann. Aðrir fimm stjórnarmenn eru tilnefndir af valnefnd og í þá fimm manna valnefnd sem er skipuð af ráðherra tilnefnir allsherjar- og menntamálanefnd þrjá fulltrúa, Bandalag íslenskra listamanna einn og samstarfsnefnd háskólastigsins einn.

Eins og kunnug er er lagt til með fyrirliggjandi frumvarpi hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra að þetta ferli við skipun valnefndar og stjórnar komist ekki til framkvæmda og Alþingi skipi þess í stað sjö nefndarmenn. Engin af þeim umsögnum sem bárust um frumvarpið er jákvæð ef frá er skilin umsögn útvarpsstjóra sem ekki hefur neinar athugasemdir við skipan mála í nýja frumvarpinu, sem er gríðarlega umhugsunarvert, því að með frumvarpinu sem nú hefur komið fram frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er um að ræða minni aðkomu starfsmanna að ákvarðanatöku stofnunarinnar og dregið er úr áherslu núverandi laga á lýðræðislega starfshætti innan Ríkisútvarpsins.

Það er undarleg forgangsröðun að leggja til breytingu á nýjum lögum sem samþykkt voru fyrir aðeins þremur mánuðum með miklum meiri hluta greiddra atkvæða en við atkvæðagreiðslu um það frumvarp greiddu 35 þingmenn atkvæði með samþykkt þess og einungis fjórir voru á móti.

Mig langar til að rifja upp að mikil áhersla hefur verið á það lögð á liðnum árum að hverfa frá flokkspólitískum stjórnum ríkisstofnana. Þetta er hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að hunsa með frumvarpi sínu um skipun stjórnar Ríkisútvarpsins. Og það rímar kannski líka við áherslur hans við skipun stjórnar LÍN. Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á hæfi, þekkingu og reynslu við skipun stjórnarmanna og þau sjónarmið eiga enn frekar við um Ríkisútvarpið í ljósi þess hlutverks sem Ríkisútvarpið gegnir í samfélagi okkar, þ.e. að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, vera almannaþjónustumiðill og það hlutverk er áréttað í heiti núgildandi laga með orðunum fjölmiðill í almannaþágu. Ekki í þágu sumra. Ekki í þágu hagsmunasamtaka. Ekki í þágu stjórnmálaflokka heldur í almannaþágu. Einnig er í núverandi lögum lögð áhersla á að Ríkisútvarpið skuli stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni eins og ég hef áður getið um. Ég spyr: Er hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ekki sammála mér um þau gildi? Er hann ekki sammála um þau gildi sem búist er við af ríkisútvarpi, fjölmiðli okkar allra?

Til að það geti rækt hlutverk sitt er sérstaklega mikilvægt að gæta faglegs og pólitísks sjálfstæðis stofnunarinnar í daglegum rekstri og í dagskrárgerð. Frumvarpið stefnir þeim áformum í hættu. Það stefnir þeim áformum um eflingu hins lýðræðislega, menningarlega og samfélagslega hlutverks, sem Ríkisútvarpið skal og ber að gæta, í hættu. Af hverju? Vegna þess að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra vill að pólitíkin skipi sér inn í stjórn ríkisfjölmiðilsins og hafi þar með áhrif og ekkert tal um lýðræðislegar ákvarðanir eða að fulltrúar almennings komi þar inn í. Allt svoleiðis tal eða ákvarðanir eru slegnar út af borðinu með einu pennastriki, sambærilegt við skipun stjórnar LÍN.

Ákvæðum núgildandi laga um skipun valnefndar var ætlað að tryggja að í stjórn veldust einstaklingar með nauðsynlega þekkingu á þeim málefnum sem samkvæmt markmiðsákvæði laganna eru helstu verkefni Ríkisútvarpsins. Í samræmi við það hlutverk er það hlutverk Ríkisútvarpsins að stuðla að lýðræðislegri umræðu og þá er að sjálfsögðu eðlilegt að við skipun stjórnar sé leitað til háskólanna og til Bandalags íslenskra listamanna þegar við kemur því hlutverki ríkisfjölmiðilsins að stuðla að menningarlegri fjölbreytni. Fyrirhuguð breyting ráðherra á skipun stjórnar má teljast enn alvarlegri þegar horft er til þess að í núgildandi lögum er hlutverk stjórnar talsvert víðfeðmara en samkvæmt eldri lögum. Þannig kemur stjórnin ekki eingöngu að rekstri stofnunarinnar eins og áður heldur hefur hún meiri umsvif og völd.

Gott og vel. Þessu vill núverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ekki breyta en hann vill breyta skipun stjórnarmanna og vali á þeim. Með núgildandi lögum voru möguleikar stjórnar Ríkisútvarpsins til að hafa áhrif á dagskrárliði, þætti, innihald og efnislega umfjöllun stofnunarinnar auknir enda gert ráð fyrir breyttri skipun stjórnar þar sem fagleg sjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi. Og enn og aftur, nú á að auka á ný vægi pólitískra þátta við skipun stjórnar og færa hana aftur í gamaldags hægri sinnaða leyndarhyggju pólitísks farvegs sem víkja átti frá. Þetta er gert án þess að horft sé til breytts hlutverks hennar og þannig virðist fyrirhuguð breyting ekki byggð á heildstæðu mati.

En nú er komin dúsan frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það er þessi breytingartillaga. Þessi pinkulitla, örstutta breytingartillaga sem hljóðar svo:

„Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefna einn mann og annan til vara á löglega boðuðum fundi og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins.“

Þeir mega sitja, þeir mega taka til máls og þeir mega koma með tillögur en alls ekki hafa neinn atkvæðisrétt. Ég rifja upp umsögn frá stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins við frumvarp þetta. Umsögnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins (RÚV) harmar að fulltrúi Starfsmannasamtakanna verði ekki í stjórn Ríkisútvarpsins, samkvæmt tillögu um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið.“

Í umsögn þeirra er enn fremur sagt, með leyfi forseta:

„Með setningu laga nr. 23/2013 um stjórn Ríkisútvarpsins og skipan hennar var það talið til bóta að fulltrúi starfsmanna fengi sæti í stjórn til að fylgjast með og hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta starfsmenn fyrirtækisins. Með þeirri tillögu sem nú liggur fyrir er ljóst að þessum endurbótum verður snúið við. Það harmar stjórn Starfsmannasamtakanna og bendir enn fremur á að nú þegar er búið að kjósa fulltrúa starfsmanna í stjórn Ríkisútvarpsins samkvæmt gildandi lögum.“

Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins harma þetta. En hér er verið að bjóða þeim örlitla dúsu þrátt fyrir að fyrir um það bil einum og hálfum mánuði hafi tæplega 200 manns, sem sitja í Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, setið á fundi, mætt og greitt atkvæði um þann fulltrúa sem þau vilja sjá sem sinn fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins. Fimm eða sex manns buðu sig fram sem sýnir þann mikla áhuga og þá áherslu sem Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins leggja á að koma að ákvarðanatöku í stjórn Ríkisútvarpsins. Nei, með þessari dúsu, gjörið svo vel, þið megið sitja fundi en alls ekki hafa neinn atkvæðisrétt.

Þarna er verið að slá fast á fingurna á starfsmönnum og þeirri gríðarlega varasömu hugsun að sjónarmið þeirra eigi heima við faglega ákvarðanatöku og stefnu fjölmiðilsins, en til upprifjunar er í gildandi lögum kveðið á um að starfsmenn Ríkisútvarpsins tilnefni einn stjórnarmann stofnunarinnar. Gjörið þið svo vel, kæru starfsmenn, þið megið hlusta, þið megið koma með tillögur, en engin atkvæði, takk fyrir.

Virðulegi forseti. Ég harma þetta frumvarp. Ég harma að þessi breytingartillaga skuli ekki ganga lengra í þá átt að auka vægi atkvæðisréttar starfsmanna í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég harma það líka að með frumvarpinu er slegið fast á alla tilburði til lýðræðislegra stjórnarhátta ríkisfjölmiðilsins, fjölmiðils okkar allra.