142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar og ætla að byrja á því að gera grein fyrir áliti okkar og breytingartillögu. Með mér á nefndarálitinu og breytingartillögunni eru hv. þingmenn Björn Valur Gíslason og Björt Ólafsdóttir.

Lög um veiðigjöld voru samþykkt 26. júní 2012 og tóku gildi 5. júlí sama ár. Þau teljum við að hafi sannað gildi sitt, vegna þess að veiðigjöld eru fyrst og fremst auðlindagjöld, til þess sett að tryggja þjóðinni arð af auðlind sem er í hennar eigu. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur lýst sig fylgjandi sterku stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins. Slíkt ákvæði er innihaldslítið form ef því fylgir ekki tilkall til sanngjarns hluta auðlindarentunnar eða umframarðsins af náttúruauðlindunum. Lög um veiðigjöld fela einmitt í sér slíkt tilkall. Þar er kallað eftir hlutdeild í þeim umframarði sem verðmæti sameiginlegrar auðlindar skapar og verður til vegna úthlutunar þjóðarinnar á sérleyfum til nýtingar hennar. Íslenskar fiskveiðar eiga sér stað á stóru hafsvæði sem þjóðin tryggði sér rétt yfir. Þessi arður getur aldrei og má aldrei verða einkaeign fárra, hann er réttmæt eign allrar þjóðarinnar. Af þessum sökum felur álagning veiðigjalda ekki í sér venjulega skattheimtu, hún felur í sér eðlilega skiptingu auðlindarentu milli eiganda auðlindar og handhafa tímabundinna nýtingarsérleyfa. Mikilvægt er að slíta ekki þessi tengsl veiðigjalda og auðlindaarðs í sundur.

Veiðigjöld á að ákveða með hlutlægum og gagnsæjum hætti. Með lögum um veiðigjöld var búin til hlutlæg tenging milli gjalda og auðlindaarðs. Hana má ekki rjúfa þannig að álagning veiðigjalda verði háð geðþótta ráðamanna og þrýstingi hagsmunasamtaka hverju sinni. Undir slíkum kringumstæðum missa veiðigjöld gildi sitt og raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni skerðist.

Það hefur einnig sýnt sig að gjaldtaka samkvæmt lögum um veiðigjöld er hófleg og þrengir ekki óeðlilega að rekstrarskilyrðum sjávarútvegsfyrirtækja. Afkomutölur þessara fyrirtækja bera þeirri staðreynd glöggt vitni enda vex hagnaður þeirra á milli ára þrátt fyrir tilkomu gjaldanna. Fjölmargir umsagnaraðilar hafa lýst því á rökstuddan hátt að fyrirtækin ráði vel við þessa gjaldtöku. Hafa þeir látið í ljós það álit sitt að sú hækkun sem lagt er til að verði gerð á sérstöku veiðigjaldi á uppsjávarveiðar hafi ekki mikil áhrif á fyrirtæki sem stunda slíkar veiðar. Sérfræðingur sem starfaði fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið telur að veiðigjald sem áætlað er að leggja á botnfisksveiðar og vinnslu sé allt of lágt. Á fundi nefndarinnar var því lagt til að það gjald yrði fært aftur til þeirrar fjárhæðar sem fram kemur í a-lið ákvæðis til bráðabirgða I í lögum um veiðigjöld, 23,20 kr. á kg. Þessu til stuðnings má benda á að verð á aflahlutdeildum hefur ekki lækkað frá gildistöku laga um veiðigjöld. Sú staðreynd sýnir að umframrenta í fiskveiðum er mikil þrátt fyrir álagningu veiðigjalda.

Virðulegi forseti. Tilkall þjóðarinnar til auðlindarentu vegna tímabundinna sérleyfa til nýtingar á sameiginlegum auðlindum hennar hefur verið viðfangsefni í skýrslum og greinargerðum á vegum stjórnvalda síðustu áratugina. Auðlindarenta, sem kölluð er á ensku „resource rent“, og tilkall ríkisins til hluta hennar fyrir hönd þjóðarinnar sem eiganda eða umsjónaraðila auðlinda var til dæmis eitt af viðfangsefnum auðlindanefndar sem skilaði skýrslu sinni árið 2000. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í hagkerfi þar sem verð á öllum aðföngum er rétt og endurspeglar raunverulegan kostnað samfélagsins og öll fyrirtæki eru eins munu þær atvinnugreinar sem nýta takmarkaðar auðlindir, hvort sem þær eru endurnýjanlegar eða ekki, geta skilað arði umfram það sem gerist hjá fyrirtækjum sem ekki byggja framleiðslu sína á náttúruauðlindum. Þessi arður hefur verið kallaður auðlindarenta. Í hagfræði má skilgreina auðlindarentu sem mismun á verði afurða og jaðarkostnaði margfaldaðan með því magni sem notað er af viðkomandi auðlind. Þeim mun takmarkaðri sem þessi auðlind er, að öllu öðru óbreyttu, þeim mun hærra er verðið á viðkomandi gæðum og þar með auðlindarentan.“

Auðlindanefnd tók alþekkt dæmi um uppsprettu auðlindarentu, þ.e. olíu- og gasvinnslu, en nefndi einnig nýtingu vatnsfalla, jarðorku og fiskstofna. Í skýrslu sinni frá því í september 2012 studdist auðlindastefnunefnd hin síðari við eftirfarandi styttri skilgreiningu á auðlindarentu, sem ég ætla að lesa hér, og með leyfi forseta:

„Auðlindarenta myndast m.a. í atvinnugrein sem byggir á sérleyfum til nýtingar náttúruauðlinda. Hún er sá umframhagnaður sem eftir stendur þegar atvinnugreinin hefur greitt allan rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun þess fjár sem bundið er í greininni með tilliti til þeirrar áhættu sem í rekstrinum felst.“

Í skýrslu auðlindanefndar 2012 er bent á að meðal þeirra atriða sem viðhalda eða ýta undir myndun auðlindarentu eru aðgangs- eða magntakmarkanir þar sem úthlutað er sérleyfum eða takmörkuðum nýtingarrétti.

Það er mikilvægt að gera greinarmun á hefðbundnum arði sem stafar af fjárfestingu, þekkingu, reynslu og útsjónarsemi í rekstri og auðlindarentu. Slíkur arður rennur beint til eigenda og/eða fjárfesta en skilar samfélaginu óbeinum arði með sköpun atvinnu, tekjum, eftirspurn, afleiddum störfum, sköttum og gjöldum. Þetta á við um allan atvinnurekstur. Auðlindarenta eða umframarður stafar af verðmætum auðlindar og kemur fram í rekstri vegna sérleyfa til nýtingar þeirra. Það er það sem við erum að ræða um hér. Fjölmargir aðilar í virðiskeðjunni gera síðan tilkall til þessa hluta og hægt er að skipa útdeilingu hans með ýmsum hætti. En til að skapa sátt og stöðugt rekstrarumhverfi þeirra greina sem byggjast á auðlindanýtingu er mikilvægt að tryggja réttláta skiptingu auðlindarentunnar eða umframarðsins.

Tilkall ríkisins sem eiganda eða umsjónaraðila auðlindar til auðlindaarðsins er almennt talið hafa minni neikvæð áhrif á rekstur og hvata í viðkomandi atvinnugrein en hefðbundin skattheimta eða önnur gjaldtaka. Þess vegna hafa meðal annars alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mælt með rentugjöldum. Í ítarlegri stöðuskýrslu OECD um Ísland frá því í júní 2011 segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Frá sjónarhóli efnahagslegrar hagkvæmni er auðlindarentuskattur í grundvallaratriðum besta skattlagningin því hann skekkir ekki efnahagslegar ákvarðanir og leggur þar af leiðandi ekki á neinar aukabyrðar (þ.e. engan kostnað umfram þær tekjur sem aflað er með skattinum).“

Hlutfall áætlaðrar auðlindarentu, sem ríkið gerir tilkall til sem eigandi eða umsjónaraðili, er mismunandi eftir auðlindum en undantekningarlaust er gert ráð fyrir að hluti hennar falli til sérleyfishafanna sjálfra og fyrir því eru allnokkrar ástæður. Í fyrsta lagi er oft erfitt að meta umfang auðlindarentunnar með vissu. Í öðru lagi er eðlilegt að skapa aukinn hvata hjá nýtingaraðila til hagkvæmrar nýtingar og hámörkunar auðlindarentunnar. Í þriðja lagi getur hluti auðlindarentunnar m.a. verið svokölluð nýsköpunarrenta, þ.e. aukin verðmæti auðlindar sem stafa af nýsköpun eða útsjónarsemi nýtingaraðila.

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er að íslenska þjóðin á auðlindina og veitir með lögum einkaaðilum tímabundin sérleyfi til nýtingar hennar og á því rétt á hluta auðlindarentunnar. Eins og komið hefur fram í máli mínu jafngildir slíkt ekki upptöku hefðbundins arðs af venjulegri atvinnustarfsemi. Slík réttlætiskrafa um að þjóðin fái hluta auðlindarentunnar er til dæmis grundvöllur löggjafar um sérstaka skattlagningu á olíu- og gasvinnslu innan íslenskrar lögsögu. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum lagabreytingum á því sviði þar sem er töluverð skattheimta og rentusókn af hálfu hins opinbera og um það hefur ríkt algjör sátt og samstaða í þinginu. Um þá löggjöf var enginn ágreiningur á Alþingi enda engir hagsmunaaðilar til að hafna réttlátu tilkalli þjóðarinnar eins og í tilfelli sérleyfa til nýtingar auðlinda sjávar. Samt liggur nákvæmlega sama réttlætiskrafa að baki í báðum tilfellum.

Það þarf ekki að koma á óvart að ófyrirséð vandkvæði hafi komið upp við framkvæmd laga um veiðigjöld. Þau fela í sér nýjung sem hefur ekki verið reynd hér á landi áður. Samhliða nefndaráliti þessu gerum við tillögur um nokkrar breytingar á lögum um veiðigjöld. Tillögurnar hafa verið útbúnar til að bregðast megi við nokkrum þáttum, annars vegar óvissu sem tengist vinnslu upplýsinga vegna útreiknings sérstaks veiðigjalds, hins vegar meintum óæskilegum áhrifum sem gjaldálagningin hefur á rekstur minni og meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja.

Fram hefur komið að vafi leiki á hvort veiðigjaldsnefnd, sem starfar samkvæmt lögum um veiðigjöld, hafi aðgang að öllum þeim upplýsingum sem hún þarf á að halda til að ákvarða slíkt veiðigjald. Til að mögulegt verði að bregðast við þeim vanda leggjum við til að ríkisskattstjóra verði gert skylt að afhenda Hagstofu Íslands og veiðigjaldsnefnd rekstrarframtöl og aðrar upplýsingar úr skattframtölum sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun veiðigjalda, þar með talið upplýsingar um verðmæti rekstrarfjármuna. Þá komi skýrt fram að Hagstofu Íslands beri að taka við gögnunum og vinna úr þeim í samræmi við ákvæði laganna. Áréttað verði að um veiðigjaldsnefnd og starfsmenn hennar gilda sömu ákvæði um þagnarskyldu og kveðið er á um í 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt. Að sama skapi leggur minni hlutinn til breytingu á lögum um tekjuskatt, skýrt verði að Hagstofu Íslands sé skylt að vinna úr upplýsingum til samræmis við lög um veiðigjöld. Það er mat okkar að breytingarnar eigi að gera veiðigjaldsnefnd fært að sinna því hlutverki sem henni er ætlað.

Í því skyni að minnka álögur á minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki leggjum við til breytingar sem fela í sér að sérstakt veiðigjald verði ekki greitt af fyrstu 50 þús. þorskígildiskílóunum í stað fyrstu 30 þús. eins og kveðið er á um í a-lið 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá verði aðeins greitt hálft gjald af næstu 200 þús. þorskígildiskílóum, í stað 70 þús. eins og kveðið er á um í b-lið 2. mgr. 9. gr. laganna, þannig að fullt gjald verði ekki lagt á fyrr en afli fer umfram 250 þús. þorskígildiskíló. Með þessum hætti telur minni hlutinn að komið verði til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki á mun hnitmiðaðri hátt en lagt er til í frumvarpinu sem við erum hér að fjalla um.

Í ágætistöflum sem fylgja nefndarálitinu förum við yfir það hvaða áhrif breytingarnar muni hafa í för með sér. Það má nefna sem dæmi að í dag er fjöldi þeirra félaga sem eru undir 30 þús. þorskígildiskílóum 269 en við breytinguna verða félög undir 50 þús. þorskígildiskílóum 324. Það verður því fjölgun um rúmlega 50 félög sem fara undir frítekjumarkið.

Í dag eru 104 félög sem veiða milli 30 og 100 þús. þorskígildiskíló. Breytingin mun valda því að þau verða líklega um 102 vegna þess að þá hafa þau færst í neðra markið. Þau félög sem eru í 250 þús. þorskígildiskílóum verða þá 113. Þarna verða því einhverjar tilfærslur og komið til móts við sjónarmið minni aðila.

Í ljósi umsagna sérfræðinga á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, auk áætlaðrar afkomu sjávarútvegsins að mati veiðigjaldsnefndar og umsagna um málið, leggjum við fram breytingartillögu við frumvarpið, ásamt þeim tveimur sem ég hef farið yfir. Hún snertir það atriði sem er líklega það veigamesta og hefur valdið hvað mestum deilum í samfélaginu undanfarið, sérstaka veiðigjaldið, og kallað á það að tæplega 35 þús. manns hafa núna skrifað undir áskorun til þingsins um að lækka ekki veiðigjöld vegna þess að þjóðin vill og veit að hún á tilkall til þeirrar auðlindarentu sem ég hef verið að fjalla um og hér um ræðir.

Breytingartillaga okkar felur í sér að í stað þess að sérstaka veiðigjaldið á botnfisk verði 7,38 kr., eins og ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir leggja til, verði gert ráð fyrir 23,20 kr. eins og er í núgildandi lögum. Fyrir þessu hafa verið færð mjög ítarleg og góð rök fyrir nefndinni af sérfræðingum sem sýna okkur að útgerðin getur vel staðið undir þessu. Það að færa gjaldið niður í 7,38 kr. feli í sér að útgerðir í botnfiski greiði í raun og veru ekki neitt, sama og ekkert, enga auðlindarentu. Þetta er því tillaga okkar.

Þá bendi ég líka á að í nefndaráliti okkar er ágætistafla sem kom frá veiðigjaldsnefnd í umsögn hennar við frumvarpið, sem sýnir hver áætluð afkoma sjávarútvegsins var á árinu 2011. Hún er lögð til grundvallar þessu veiðigjaldi.

Breytingarnar sem við leggjum til munu hafa lítils háttar áhrif á tekjur ríkissjóðs og í raun og veru hverfandi miðað við frumvarpið sem liggur fyrir, og hverfandi áhrif miðað við gildandi lög. Áhrifin koma m.a. fram til vegna breytinga á sérstöku veiðigjaldi og vegna breytinga á frímarki og afsláttarþrepi.

Núgildandi frímark eða frítekjumark og afsláttarþrep hafa í för með sér að sérstakt veiðigjald er ekki lagt á um 17 þús. þorskígildistonn. Það samsvarar um 3,5% áætlaðs heildarafla næsta fiskveiðiár. Frímark og afsláttarþrep hafa í för með sér um 445 millj. kr. lækkun tekna miðað við fulla álagningu sérstaks veiðigjalds. Þær breytingar sem við leggjum til gera að verkum að um 20 þús. þorskígildistonn verða gjaldfrjáls til viðbótar því sem nú er. Af því leiðir að tekjur ríkissjóðs verða um 310 millj. kr. lægri en annars hefði orðið að óbreyttu.

Við teljum að með þessum breytingum sé brugðist við þeirri gagnrýni sem beinst hefur að lögum um veiðigjöld samhliða því að styrkari stoðum er skotið undir starfsemi veiðigjaldsnefndar og lagagrundvöll veiðigjaldanna.

Miðað við breytingartillögur okkar mun veiðigjald á næsta fiskveiðiári verða tæplega 16 milljarðar kr. að teknu tilliti til frítekjumarks og lækkunar vegna skulda vegna kaupa á aflahlutdeild. Þetta kemur ágætlega fram í nefndarálitinu.

Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem við höfum gert hér tillögu um á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Björn Valur Gíslason og Björt Ólafsdóttir auk þeirrar sem hér stendur.

Virðulegi forseti. Ég hef núna farið yfir það sem við nefndarmenn í minni hluta atvinnuveganefndar erum sammála um og við höfum náð saman um að gera þessar breytingartillögur. Hv. þm. Björt Ólafsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara sem hún mun gera grein fyrir í ræðu sinni á eftir og ég ætla ekki að fjölyrða um heldur leyfa henni að gera það sjálfri. En við stöndum saman að þessum breytingartillögum og þær koma til kannski ekki síst vegna kröfunnar sem við heyrum utan úr samfélaginu.

Það sem kemur mér hvað mest á óvart núna er að ríkisstjórnarflokkarnir skuli halda 18 fundi um málið, en hvað var gert? Það var tekið á móti gestum eftir gestum eftir gestum, hlustað á þeirra mál, tekið á móti umsögnum en það var ekkert gert með það, ekki neitt.

Málið kemur óbreytt út úr nefndinni frá meiri hlutanum og við mótmæltum því nokkur, a.m.k. mótmælti ég því að málið væri tekið út í gær í hádeginu vegna þess að ég taldi að við ættum enn þá eftir að ræða þó nokkur atriði. Það kemur mér til að mynda mjög á óvart að meiri hlutinn skuli skila nefndaráliti þar sem hann leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt þrátt fyrir að Hagstofan og ríkisskattstjóri geri enn þá athugasemdir við formið og telji að frumvarpið fullnægi í raun og veru ekki kröfum þeirra um lagabætur til að þessar stofnanir geti fullnægt skyldum sínum hvað þetta verkefni varðar. Ég undra mig á þessu. Ekki einu sinni þar, í hinum tæknilega mikilvæga þætti málsins, léði meiri hlutinn máls á því að gera neinar einustu breytingar á frumvarpinu.

Við óskuðum eftir því að fleiri aðilar væru fengnir til að meta áhrifin á ríkissjóð. Við óskuðum eftir því að kallað yrði eftir upplýsingum frá Hagfræðistofnun áður en málið yrði tekið út til 2. umr. Við því var ekki orðið heldur boðið upp á að við gætum heyrt í þeim á milli 2. og 3. umr., en þá verður búið að samþykkja öll helstu meginatriði málsins, við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr.

Það er því ljóst, að mínu mati a.m.k., að ekki hefur verið ríkur vilji eða ætlan að gera breytingar á málinu. Menn geta sagt: Jú, fjöldi funda hefur verið haldinn — en það er ekkert gert með það sem kom fram á þeim fundum, ekki neitt.

Menn fara heldur ekki niður af sínum háa hesti og hlusta á þau tæplega 35 þús. manns sem hafa skrifað undir áskorun um að málið fari ekki í gegn óbreytt, að veiðigjöldin verði ekki lækkuð. Ef mig misminnir ekki hafa, miðað við tölur um kosningarbæra menn, u.þ.b. 15% kosningarbærra manna skrifað undir, og ekki bara skrifað undir á einhverri heimasíðu heldur þurfti að fá staðfestingartölvupóst til að staðfesta undirritun.

Virðulegi forseti. Hér er um stórmál að ræða og risa-, risastórt réttlætismál. Meiri hluti nefndarinnar var ekki tilbúinn í viðræður við okkur um að koma til móts við þessi sjónarmið með því að hækka krónutölurnar í frumvarpinu þannig að veiðigjaldið á botnfiskinn yrði hærra, eins og álit sérfræðinga hafa gefið tilefni til að ætla að sé vel hægt. Við styðjumst við þau álit þegar við leggjum fram breytingartillögu okkar um hækkun á sérstöku veiðigjaldi.

Ég tek sem dæmi góða umsögn sem kom frá Stefáni B. Gunnlaugssyni í Háskólanum á Akureyri. Hann segir þar m.a., með leyfi forseta:

„Flest meðalstór fyrirtæki sem eru í veiðum og vinnslu á bolfiski munu greiða lítið eða ekkert sérstakt veiðigjald“ — þ.e. ef frumvarpið verður óbreytt að lögum.

Þetta kemur fram í umsögn hans. Ástæðan er sú að ákvæði til bráðabirgða í lögunum leiða til þess að mörg þessara fyrirtækja fá afslátt af öllu sérstöku veiðigjaldi.

Svo segir hann líka, með leyfi forseta:

„Enda þarf ekki mikinn afslátt til að sérstakt veiðigjald upp á 7,38 krónur á þorskígildi þurrkist að mestu út. Því hefur frumvarpið mjög lítil áhrif á meðalstór fyrirtæki í bolfisksveiðum og -vinnslu og má segja að mörg þeirra finni vart fyrir því.“

Þetta er ekki svar við réttlætiskröfunni um hlutdeild þjóðarinnar í auðlindarentunni, þvert á móti. Þvert á móti er ætlun ríkisstjórnarflokkanna að þurrka svo til út sérstaka veiðigjaldið á bolfiski.

Virðulegi forseti. Það er meðal annars vegna þessa sem við leggjum til að sérstaka veiðigjaldið verði látið standa óhaggað.

Þá kemur líka fram hvað varðar uppsjávarfiskinn í umsögn frá Stefáni B. Gunnlaugssyni að áhrif frumvarpsins séu í raun nær eingöngu íþyngjandi að einhverju leyti fyrir fyrirtæki í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski en hann tekur fram, vegna þess að þar tekur ríkisstjórnin ákvörðun um hækkun:

„Þessi fyrirtæki standa þó nær öll mjög vel fjárhagslega og er efnahagur þeirra flestra nú afskaplega traustur. Því þola þau flest vel þetta veiðigjald og það hefur lítil áhrif á efnahagslega stöðu þeirra.“

Þetta er niðurstaða aðila sem gerði úttekt á áhrifum frumvarpsins. Með öðrum orðum, gjaldið sem lagt er á bolfiskinn hefur ekki áhrif á efnahagslega stöðu þeirra fyrirtækja. Það sem gert er í þessu frumvarpi gagnvart bolfiskinum þýðir í raun og veru að auðlindarentutilkallið á þau fyrirtæki þurrkast út. Það er það sem verið er að gera.

Þetta er ekki það sem hugmyndafræðin að baki auðlindarentunnar gengur út á, þvert á móti. Nú hafa ríkisstjórnarflokkarnir stært sig af því að hafa verið þeir sem lögðu veiðigjaldið á upphaflega, en það var sýndarveiðigjald. Menn eru í raun og veru að fara nákvæmlega á þann stað aftur. Þeir geta sagt: Jú, við tökum veiðigjöld og hér fær þjóðin sinn hlut af auðlindarentunni. En það er bara sýndarmennska. Menn eru að fara rakleiðis þangað aftur.

Virðulegi forseti. Annar ágætur fræðimaður, Gauti B. Eggertsson, hefur líka fjallað um þessi mál og skrifaði pistil á vefmiðilinn Eyjuna undir yfirskriftinni „Hótfyndni ríkisstjórnar um veiðigjöld“. Þar segir hann að almennt sýnist honum þetta gjald í núverandi mynd vera ágætlega í samræmi við gjöld sem oft eru tekin af fyrirtækjum sem stunda nýtingu náttúruauðlinda og gjöld af þessu tagi séu algeng þegar í hlut eiga fyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir með blessun ríkisins. Hann gagnrýnir harðlega að menn ætli sér að lækka gjaldið.

Þá langar mig, virðulegi forseti, að fara vandlega yfir álit frá Jóni Steinssyni hagfræðingi sem starfar við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum. Hann sendi inn nokkuð ítarlega og góða umsögn og ég hvet fólk til að kynna sér hana á vefsíðu Alþingis vegna þess að hún er afar áhugaverð. Þar fjallar hann um frumvarpið sem hér liggur fyrir en fer líka á mjög greinargóðan hátt í gegnum það hvað felst í því að greiða eða gera tilkall til auðlindarentu. Hann segir, með leyfi forseta:

„Besta leiðin til þess að komast að því“ — um það hversu hátt eðlilegt leigugjald ætti að vera — „væri að bjóða afnotaréttinn upp. Það væri markaðsleið til þess að ákvarða leigugjaldið. En það er ekki gert og því er nauðsynlegt að meta eðlilegt leigugjald á annan hátt. Ein leið til þess er að meta auðlindaarðinn út frá afkomu greinarinnar. Það má gera með því að líta á tekjur útgerðarinnar, draga frá allan tilkostnað, laun, viðhald og annað þess háttar og draga svo einnig frá eðlilegan arð af því fé sem útgerðin hefur lagt í reksturinn. Grunnhugsunin í lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, er að meta auðlindaarðinn á þennan hátt og ákvarða leigugjaldið fyrir afnotin af auðlindinni sem ákveðið hlutfall af þessum auðlindaarði.“

Svo segir hann áfram, með leyfi forseta:

„Svipaðar aðferðir hafa verið notaðar víða um heim til þess að ákvarða gjaldtöku til ríkisins þegar afnotaréttur af náttúruauðlindum er takmarkaður og úthlutað til einkaaðila. Norðmenn nota til dæmis svipaðar aðferðir til þess að ákvarða gjaldtöku í olíuiðnaði og vatnsorku þar í landi. Mörg önnur lönd gera slíkt hið sama. Það má því held ég segja að lög nr. 74/2012, um veiðigjöld, séu í samræmi við það besta sem gerist í heiminum þegar kemur að innheimtu auðlindaarðs.“

Svo heldur hann áfram:

„Reyndar er útfærsla veiðigjaldsins að einu leyti betri á Íslandi en gerist og gengur í heiminum. Í mörgum tilfellum erlendis er ekki unnt að deila nýtingu náttúruauðlindarinnar niður á marga aðila. (Það er ekki hægt að virkja hálfan foss.) Þess vegna þarf að miða gjaldtökuna við afkomu hvers fyrirtækis fyrir sig. Fyrir vikið hafa fyrirtækin sterka hvata til þess að reyna að komast undan gjaldtökunni með því að smyrja á kostnaðinn hjá sér og leggjast í alls kyns bókhaldsleikfimi og fjármálagjörninga með tengdum aðilum. Við erum betur sett hvað þetta varðar þar sem mörg fyrirtæki stunda fiskveiðar. Því er unnt að miða gjaldið við afkomu greinarinnar í heild sem dregur mjög úr hvata hvers fyrirtækis til þess að breyta hegðun sinni á óhagkvæman hátt til þess að komast undan gjaldtökunni. Hugmyndir stjórnvalda (þó er ekki að finna í þessu frumvarpi sem betur fer) um að breyta veiðigjaldinu í þá veru að það miðaðist við afkomu hvers fyrirtækis fyrir sig væri skref í ranga átt af þessum sökum.

Ég tel því að gjaldtakan sé í heildina vel út færð í lögum nr. 74/2012. Ef eitthvað er,“ — ef eitthvað er, virðulegi forseti, — „er gjaldtakan of lág í alþjóðlegu samhengi nú í upphafi vegna hinna ýmsu afslátta sem veittir voru tímabundið í lögunum. Í öllu falli sé ég ekki hagræna ástæðu til þess að lækka gjaldið eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.“

Virðulegi forseti. Þarna kemur fram sérfræðingur sem segir að í alþjóðlegum samanburði sé auðlindarentan sem við erum að sækja hér á landi í raun og veru of lág. Ég er sammála þessu. Ég er sammála því mati vegna þess að þetta er fyrst og fremst réttlætismál og ekki er hægt að segja að gengið sé að þessum fyrirtækjum með ósanngjörnum hætti. Eingöngu er verið að segja: Hlutdeild af því sem stendur eftir, og er klárlega til komið vegna þess að menn hafa fengið sérleyfi til að nýta náttúruauðlindir, renni til þeirra sem eiga auðlindina, þjóðarinnar. Út á það gengur þetta.

Það er því ekki boðlegt fyrir fólk á Íslandi sem kallar eftir að við förum fyrir alvöru að gera tilkall til auðlindarentunnar að fara enn og aftur þá leið að vera með eitthvert sýndarveiðigjald. Það er ekki það sem óskað er eftir af hinu háa Alþingi, það er ekki það sem fólk vill láta bjóða sér upp á.

Var ekki könnun í dag í Fréttablaðinu sem sýndi að 71% aðspurðra telja að það eigi ekki að lækka veiðigjaldið? Það er krafan úti í samfélaginu og hvað ætla menn að gera hér? Ætla þeir ekki að hlusta á þetta? Menn loka algerlega eyrunum, hlustuðu ekki á einn einasta gest, ekki einu sinni Hagstofuna þó að fulltrúar hennar segðu: Við getum þetta ekki þrátt fyrir þessa breytingu í frumvarpinu. Það er ekki heldur hlustað á það og ekki hlustað á neinn vegna þess að menn eru komnir með plan, þeir eru komnir með áætlun, þeir ætla. Þeir eru búnir að gera samkomulag við einhverja aðila utan þessa húss um að klára þetta mál sama á hverju gengur, óháð því hvað fólk segir fyrir utan þetta hús, óháð því hvað gestirnir segja sem kallaðir eru hingað til að tala við okkur um málið. Allir þessir fundir eru bara leikaraskapur, ekkert hlustað, ekki neitt.

Virðulegi forseti. Þetta eru mikil vonbrigði, verð ég að segja, vegna þess að ég taldi, miðað við það hvernig nefndin hafði unnið, að menn ætluðu að hlusta. Þess vegna eru það mikil vonbrigði hvernig meiri hluti nefndarinnar afgreiðir málið út. Það segir manni bara eitt: Planið var aldrei að hlusta. Það átti bara að keyra málið í gegn. Það eru menn að gera hér.

Virðulegi forseti. Fleira hefur komið fram sem gefur okkur ástæðu til að telja að við stöndum mjög styrkum fótum í að halda fram þessum 23,20 kr. í bolfiski og það er tekið ágætlega fram í umsögn Jóns Steinssonar hagfræðings við Columbia-háskóla. Þar segir hann að gagnlegt sé að hafa grófa mynd af því hversu hár auðlindaarðurinn er þegar rætt er um veiðigjaldið.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Ef opinberar upplýsingar frá Hagstofunni eru notaðar til þess að leggja gróft mat á auðlindaarðinn út frá afkomu greinarinnar kemur í ljós að hann var 56 milljarðar kr. á árinu 2011 (á verðlagi ársins 2012). Á árunum 2008–2010 var hann á bilinu 38–46 milljarðar kr. Samanlagður auðlindaarður áranna 2008–2011 var 180 milljarðar kr. Auðlindaarðurinn á árinu 2012 var að öllum líkindum talsvert meiri en árið 2011 — fiskverð var mjög hátt og kvóti jókst. Samanlagður auðlindaarður frá árinu 2008 til 2012 slagar því líklega upp í 250 milljarða kr.“

Virðulegi forseti. Við förum ekki fram á stóran bita af þessu, þvert á móti. Við í Samfylkingunni höfum alltaf talað fyrir því að veiðigjöld eigi að vera hófleg. Þau lög sem nú eru í gildi og þær tillögur sem við erum að leggja fram falla svo sannarlega undir það að vera hófleg. Gerð er hófsöm krafa um sanngjarnan hlut í auðlindarentunni til handa þeim sem eiga auðlindina.

Virðulegi forseti. Ég vil halda áfram að vitna í þessa ágætu umsögn af því að málið er þar tekið saman á mjög hnitmiðaðan hátt. Jón Steinsson segir jafnframt að í útreikningum sínum miði hann við að útgerðin fái 8% arð af því fé sem hún leggi í reksturinn. Auðlindaarðurinn sem hann talar um, sem eru forsendur þeirra talna sem ég fór með áðan, er reiknaður sem arður umfram þessi 8%. Það þýðir að 8% arður af skipum og frystihúsum og öðru er fyrst dreginn frá. Auðlindaarðurinn er síðan það sem stendur eftir.

Menn eru því ekki að fara inn í reksturinn eða eðlilegar arðgreiðslur eða eðlilega arðsemi fyrirtækja. Menn eru að fara inn í umframarðinn sem er til kominn vegna sérleyfa á nýtingu náttúruauðlinda. Krafan er nú ekki ósanngjarnari en svo.

Svo segir einnig í umsögninni, með leyfi forseta:

„Þorskkvóti hefur vaxið talsvert frá árinu 2011. Það bendir til þess að auðlindaarðurinn verði mun hærri á komandi fiskveiðiári en á árinu 2011. Á móti kemur að verð á bolfiski hefur lækkað. Verð á bolfiski er þó enn hátt í sögulegu samhengi og svipað því sem það var árið 2010. Það er því líklega varfærnislegt mat að auðlindaarðurinn á komandi ári verði sá sami og árið 2011, þ.e. 56 milljarðar kr.“

Svo segir áfram:

„Miðað við það mat, gerir þetta frumvarp ráð fyrir að útgerðin greiði einungis tæplega 18% af auðlindaarðinum í sjávarútvegi í veiðigjald en haldi eftir ríflega 82% arðsins. Útgerðin fær því í sinn hlut eðlilegan arð af því fé sem lagt er í reksturinn og síðan 82% af auðlindaarðinum í ofanálag.“

Þetta er það sem öll þessi umræða snýst um. Ég er sannfærð um að aldrei muni skapast sátt um þessa mikilvægu undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga fyrr en komið verður eitthvert jafnvægi á þennan þátt mála og ljóst sé að menn greiði fyrir notkun á auðlindinni með sanngjörnum hætti. Þær tölur sem koma hér fram sýna að staðan er alls ekki sú. Menn eru, ef eitthvað er, fremur að snúa af þeirri braut sem fyrri ríkisstjórn fór inn á, þ.e. að auka hlutdeild þjóðarinnar í auðlindarentunni enn frekar, en þó ekki óhóflega heldur á réttlátan og hófsaman hátt. Það kemur skýrt fram í þessum umsögnum að þær tillögur sem við leggjum fram eru um hóflega hlutdeild í auðlindarentunni, ekkert annað.

Virðulegi forseti. Með öðrum orðum, í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að af auðlindarentunni, viðbótinni, falli eingöngu um 18% í hlut eigenda auðlindarinnar en 82% verði áfram hjá fyrirtækjunum. Við teljum það einfaldlega sanngirniskröfu, réttlætismál og í samræmi við það sem gengur og gerist um allan heim að hlutdeild þjóðarinnar sé stærri í auðlindarentunni.

Ég fór yfir það áðan að þetta stóra mál er ekki bara einkamál tveggja stjórnarflokka sem fengu 51% fylgi í síðustu kosningum. Þetta mál er miklu stærra en það. Þegar kemur að auðlindamálum slær hjartað býsna ört í íslenskri þjóð og það rennur svo sannarlega í okkur blóðið þegar umræðan um þau hefst. Það kemur upp mikil réttlætiskrafa þegar menn ræða um auðlindir í landinu. Við viljum að það séu góð fyrirtæki í landinu sem nýti auðlindirnar. En við viljum líka sjá arð af þeirri nýtingu koma til þjóðarinnar í góð samfélagsleg verkefni.

Um það snýst þetta. Þegar kemur að auðlindunum er þetta algjörlega ljóst. Það sýndi sig í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrármálið 20. október sl. Þar töldu meira en 80% að tryggja yrði eignarhald þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá. Það var númer eitt. Við sjáum núna að 15% kosningarbærra manna á örfáum dögum hafa skrifað undir ákall til Alþingis um að lækka ekki veiðileyfagjaldið. Í dag kom fram að 70% þeirra sem voru spurðir í könnun Fréttablaðsins segja að þeir vilji ekki að gjaldið verði lækkað.

Og við ætlum bara að loka eyrunum fyrir þessu öllu, eða hvað? Ríkisstjórnin ætlar bara að loka eyrunum fyrir þessu. Hvað gerist þá? Þá heldur deilan áfram, við náum ekki landi. Hún heldur áfram, áratugadeila byrjar aftur. Þeir eru núna að kynda undir þessari umræðu enn á ný, við erum að fara aftur í tímann, byrja deilurnar upp á nýtt frá nýrri hlið. Það á ekki að vera verkefni okkar hér. Við eigum frekar að finna leiðir til að sætta þjóðina þannig að þessi mikilvæga atvinnugrein okkar Íslendinga geti starfað á sæmilega lygnum sjó.

Ég tel að menn séu að gera mikil mistök með þessu frumvarpi og þessari lagasetningu vegna þess að deilurnar munu halda áfram. Engar sættir munu skapast meðal þjóðarinnar í málinu. Maður finnur til réttlætiskenndar gagnvart auðlindunum í landinu og vill fá og gerir tilkall til auðlindarentunnar, en það er ekkert gert til að mæta þeim sjónarmiðum, miklu frekar að rekinn sé fleygur enn á ný meðal þjóðarinnar. Það harma ég mjög.

Hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, sagði áðan í ræðu sinni: Í upphafi var vitlaust gefið. Þá var hann að tala um hvernig veiðigjöldin voru sett á. Ég ætla að leyfa mér að nota þetta: Í upphafi var líka vitlaust gefið þegar kvótakerfið var sett á. Það ríkja enn mikil særindi yfir því hvernig það var gert. Menn eru ekki enn þá komnir til botns í því hvernig það réttlæti var allt saman. Það hefur meira að segja leikið vafi á hvort það hafi hreinlega verið gert með lögmætum hætti upphaflega. Margir sátu eftir með sárt ennið. Þeim tilfinningum sem þá urðu til gagnvart sjávarútvegi verðum við að fara að mæta og ná sáttum. Það á að vera verkefni okkar hér en ekki ganga til baka og efna til ófriðar. Það er það sem gerist hér enn og aftur.

Núna, öllum þessum áratugum seinna eftir að gefið var í upphafi og kvótanum skipt á milli aðila á Íslandi eftir ákveðnum reglum, sem margir hafa vefengt, er vissulega erfitt að stíga til baka inn í þá mynd. En það er hægt að beita veiðigjöldum til að tryggja þjóðinni réttlátan hluta í auðlindarentunni.

Ég vísa því allri ábyrgð á þeim óróa sem áfram mun verða í kringum þessa meginatvinnugrein okkar á herðar ríkisstjórnarinnar sem nú situr. Það er algerlega ljóst að hún ætlar ekki að ganga fram í friði eða í sáttahug við meiri hluta þjóðarinnar, það sýnir þetta mál glöggt.

Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu langar mig að nefna dálítið mikilvægt og það er þessi almenna umræða um auðlindir þjóðarinnar. Við eigum ýmsar auðlindir, við erum rík af náttúruauðlindum. Hugsanlega gætum við fundið olíu og gas, mögulega á Drekasvæðinu, ég veit það ekki, ég ætla ekki að gera mér neinar væntingar um það nema að leyfa mér svona í laumi að vona að kannski sé eitthvað þar að finna. Þar höfum við lagasetningu sem gerir ráð fyrir auðlindarentu, sanngjarnri auðlindarentu. Um það var ekki deilt vegna þess að það voru engir hagsmunaaðilar til að verja hana.

Við erum með orkuauðlindir okkar, fallvötnin og jarðvarmann, um þær hefur líka verið deilt. Þar þurfum við í fyrsta lagi að fara mjög vandlega í gegnum umræðuna um það hvernig við ætlum að ná auðlindarentunni þaðan, og í öðru lagi hvernig eigi að skipta henni, hver eigi að vera hlutdeild sveitarfélaga sem í hlut eiga eða hversu mikið eigi að fara til þjóðarinnar allrar. Þetta eru risastórar spurningar. Síðan er það náttúra Íslands almennt, það er enn önnur auðlind, og ágangur ferðamanna. Þar þurfum við að taka auðlindarentu til að geta byggt upp og verndað náttúru Íslands. Svo er það sjávarútvegurinn.

Þess vegna var ég mjög hrifin af því sem fráfarandi ríkisstjórn gerði — þótt ég sé nú ekki alveg hlutlaus í því máli. Við gerðum þó það að við fórum í töluverða vinnu og út úr því kom skýrsla sem heitir Stefnumörkun í auðlindamálum. Þar var lagt af stað með að reyna að marka heildstæða stefnu í auðlindamálum á Íslandi. Þjóð sem er svona rík af auðlindum og byggir meginafkomu sína á þeim verður að hafa skýra stefnu og um þá stefnu þarf að ríkja nokkuð víðtæk sátt. Það finnst mér algjört lykilatriði. Ég vil hvetja menn til að kynna sér skýrsluna sem kom út í september síðastliðnum og hægt er að finna á vef forsætisráðuneytisins. Þar er mjög margt fróðlegt að finna um auðlindamál í hinu stóra samhengi.

Þar segir um sjávarútveginn sérstaklega, sem er enn einn rökstuðningurinn fyrir því að lækka ekki veiðileyfagjaldið, með leyfi forseta:

„Árlegir útreikningar Hagstofu Íslands á hag veiða og vinnslu, þar sem beitt er svokallaðri árgreiðsluaðferð, gefa vísbendingar um að veruleg auðlindarenta sé í íslenskum sjávarútvegi. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laga um veiðigjöld, sem varð að lögum á 140. löggjafarþingi,“ — frumvarpið sem við erum að ræða breytingar á — „virðist ekki óvarlegt að ætla að sem stendur sé auðlindarentan um 40 milljarðar kr. á ári og hafi á síðasta áratug verið nálægt 30 milljörðum kr. að meðaltali á ári á verðlagi ársins 2010.“

Sú hlutdeild í auðlindarentunni sem við erum að fjalla um er því ekki ósanngjörn, hún er ekki óhófleg, þvert á móti. Þær tölur sem ég hef hér verið að taka upp eftir ýmsum sérfræðingum sýna það svart á hvítu.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að nefna að mig undrar í fyrsta lagi að komið sé fram með þetta mál til að skapa enn á ný ófrið um sjávarútveginn og í öðru lagi að lýst sé algjöru frati á skoðanir meiri hluta þjóðarinnar í þessum málum og algjöru frati á þá sem hafa sett nafn sitt og staðfest það á áskorun til okkar um að lækka ekki þessi gjöld. Fyrir utan þetta er hér gengið þannig fram að þetta mun hafa gríðarleg áhrif á ríkissjóð sjálfan og ríkisfjármálaáætlunina. Menn eru ekki með neinar áætlanir um hvernig eigi að mæta því.

Ef við horfum bara þröngt á ríkissjóð hefur þetta töluverð áhrif. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því vegna þess að fjárlagagatið sem við höfum verið að kljást við frá hruni hefur verið okkur til mikilla trafala og það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið allt að því sé lokað. Af hverju? Vegna þess að öðruvísi munum við ekki sjá samfélagið spretta úr spori til vaxtar, við munum ekki sjá afnám hafta, en höftin eru sem lamandi hönd yfir öllu okkar samfélagi og munu verða það. Þau eru í eðli sínu ósanngjörn, þau gera upp á milli aðila og eru líka mjög hamlandi í öllum daglegum rekstri fyrirtækja.

Ég legg því mjög mikla áherslu á að ríkisstjórnin svari því, ef hún ætlar að keyra fram með málið, skapa ófrið á ný og stækka gatið á ríkissjóði, hvernig hún ætli að mæta þessu. Það er ekki gert. Svo óskapast hún yfir því að taka við einhverjum litlum verkefnum frá fyrri ríkisstjórn sem við náðum ekki að klára upp á kannski 8 milljarða. Þeir standa svo hér sjálfir dag eftir dag og búa til gat, stærra gat, stækka gatið á ríkissjóði.

Virðulegi forseti. Þetta er að mínu mati mjög alvarleg staða og þeir verða að svara þessu vegna þess að ég líta svo á að þjóðarheill sé undir í málinu. Menn þurfa að fara að svara mjög skýrt hvernig þeir ætla að mæta þessu.

Ég mundi líka vilja að Alþingi Íslendinga sýni a.m.k. viðleitni þegar við fáum ákall frá um 15% þjóðarinnar á örfáum dögum, í þessu tilfelli um að lækka ekki veiðigjöldin, og að við sýnum fólki að á það sé hlustað. Ekkert slíkt á sér stað hér, ekki neitt. Það er bara keyrt áfram eftir línunni, línunni sem var mótuð annars staðar en hér.

Virðulegi forseti. Það hryggir mig að málið komi fram með þessum hætti og að menn ætli að fara þessa leið, fara fram í ófriði og skapa þannig áframhaldandi óvissu fyrir sjávarútveginn í landinu, sem er okkur svo mikilvægur. Það er vissulega þannig að gera má einhverjar breytingar á þeim lögum sem við fjöllum hér um. Það hefur komið fram mjög réttmæt gagnrýni á þau um að það geti komið illa út að vinna með tveggja ára gömul gögn. Mögulega væri betra að meta út frá lönduðum afla og fara í gegnum skattkerfið með þetta. En við erum lögð af stað í þennan leiðangur og það er enginn sem segir að ekki megi gera breytingar á lögunum eins og þau eru nákvæmlega núna eða útfærslunni á kerfinu sjálfu, innheimtukerfinu sjálfu, það er enginn sem segir það.

Það sem ég mótmæli hins vegar er að menn ætli ekki að gera neinar sérstakar breytingar á kerfinu til að þróa það til betri vegar heldur fara í grunnprinsippið sjálft, sem er tilkallið og krafan um hlutdeild þjóðarinnar í auðlindarentunni. Megintilgangurinn með frumvarpinu er ekki að betrumbæta kerfið heldur bara að lækka veiðigjöldin. Hitt er látið fylgja með til þess mögulega að sýnast.

Menn eiga að koma hreint fram með erindið eins og það er nákvæmlega. Það er algjörlega skýrt í mínum huga að meginerindi ríkisstjórnarinnar með frumvarpinu er að lækka veiðigjaldið. Þar með er hún að lækka hlutdeild þjóðarinnar í auðlindarentunni, sanngjörnum hluta sem þjóðin á réttlátt tilkall til. Niðurstaðan er sú, eins og Jón Steinsson kemur inn á, að af auðlindarentunni fær þjóðin 18% en útgerðin 82%, ofan á eðlilegan arð sem hún fær af starfsemi sinni. Þetta er réttlætið í huga ríkisstjórnarinnar. Þessu er ég á móti. Þess vegna mun ég ekki geta stutt þetta mál ef menn halda því óbreyttu og fara með það óbreytt í gegn.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og þingmenn stjórnarflokkanna að styðja breytingartillögurnar sem við leggjum til. Þær eru hóflegar, þær eru skynsamlegar, við komum til móts við sjónarmið um að breyta kerfinu þannig að auðveldara verði fyrir þá aðila sem þurfa að reikna þetta út að afla gagna. Við leggjum til að minni aðilum í sjávarútvegi verði mætt með hærri frítekjumörkum og við leggjum til að hlustað verði á ákallið um hærri hlutdeild þjóðarinnar og ríkisins í auðlindarentunni. Því hvet ég alla sem hér eru inni og munu greiða atkvæði um þetta mál að líta a.m.k. á þessar tillögur og meta þær og melta með sjálfum sér hvort þeir vilji i alvörunni halda áfram þessu stríði eða hvort þeir vilji koma með okkur í þann leiðangur að tryggja hóflegt veiðigjald til lengri tíma.