142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

verðtryggð námslán.

13. mál
[12:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir fyrirspurnina. Ég vil segja í upphafi að ég hef ekki í hyggju að leggja fram frumvarp á haustþingi um þau mál sem spurt er um í fyrirspurn hv. þingmanns. Það hefur verið lögð fram tillaga til þingsályktunar á Alþingi um aðgerðir gegn skuldavanda heimilanna á Íslandi.

Ég geri ráð fyrir því að mál er varða höfuðstólshækkun námslána og verðtryggingu slíkra lána muni koma til skoðunar þegar annars vegar niðurstaða sérfræðingahóps sem leiðir til þess að leiðrétta höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána liggur fyrir og hins vegar niðurstaða sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á neytendalánum.

Það er gert ráð fyrir að sérfræðingahópur sem fjallar um leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána skili tillögu sinni í nóvember 2013 og að sérfræðingahópurinn sem fjallar um afnám verðtryggingar á neytendalánum skili niðurstöðu sinni í árslok 2013.

Í framhaldi af niðurstöðu sérfræðinganefndanna mun ég fela stjórn lánasjóðsins að fara yfir málið.