142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

framtíð Fisktækniskóla Íslands.

23. mál
[12:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera stutta grein fyrir fyrirspurn minni til hæstv. menntamálaráðherra.

Fisktækniskóli Íslands var stofnaður af fyrirtækjum og stéttarfélögum í sjávarútvegi, fræðsluaðilum, Grindavíkurbæ og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum árið 2009. Markmiðið með stofnun skólans var að efla grunnmenntun á sviði veiða, vinnslu og fiskeldi á framhaldsskólastigi og leita nýrra leiða í starfstengdu námi en ekkert heildstætt nám hefur verið í boði á þessu stigi frá því að Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði var lagður af.

Skólinn fékk formlega viðurkenningu sem sjálfstæður skóli á framhaldsskólastigi og útgefið starfsleyfi með samningi haustið 2011 en sá samningur rann út núna í lok júní, í gær nánar tiltekið, og hefur ekki verið endurnýjaður.

Í vor luku 12 nemendur námi í dagskóla á fyrstu önn og með þeim 18 nýnemum sem sótt hafa um fyrir haustið er útlit fyrir að yfir 30 nemendur stundi grunnnám á fyrsta ári næsta vetur í Grindavík. Mikill áhugi er víða um land að koma upp svipuðu námsframboði í samstarfi við skólann í Grindavík og áform eru uppi um dreifnám einstakra áfanga sérgreina í haust en markmið skólans er að námið verði boðið sem víðast.

Þá hefur skólinn staðið fyrir og/eða komið að námskeiðum á síðasta ári fyrir hátt í 1.200 starfsmenn í sjávarútvegi um land allt og þar af 300 bara í Grindavík. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir undir liðnum sjávarútvegsmál, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin vill efla fræðslu og menntun í sjávarútvegi, bæði hvað varðar veiðar og vinnslu og ekki síst til þess að takast á við ný verkefni samfara vöruþróun, nýsköpun og markaðs- og sölustarfi.“

Eitt meginmarkmiðið með samningi sem menntamálaráðherra gerði við skólann 2011 var að þróa samstarf um kennslu í fisktækni í framhaldsskólum á Íslandi, vera leiðandi í mótun vinnustaðanáms í fisktækni á landsvísu, þar með gerð ferilbóka og eftirlit með gæðum náms, þróa raunfærnimat og nám í fisktækni fyrir fullorðna í samstarfi við framhaldsfræðsluaðila, kynna nám í fisktækni fyrir nemendum í grunnskólum á Suðurnesjum og á landsvísu, sjá um kennslu í fisktækni samkvæmt samningum við framhaldsskóla og framhaldsfræðsluaðila.

Í ljósi yfirlýsingar í stjórnarsáttmálanum og þess að skólinn hefur nú þegar áunnið sér sess og stuðning allra helstu hagsmunaaðila, þar með talið starfsgreinaráði sjávarútvegsgreina sem er ráðherra til ráðgjafar í menntamálum á þessu sviði, leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Hver er stefna núverandi menntamálaráðherra í málefnum Fisktækniskóla Íslands? Ætlar hæstv. menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að skólinn fái sinn sess sem sjálfstæður skóli á framhaldsskólastigi og hann fái framlög á fjárlögum eins og aðrir skólar?