142. löggjafarþing — 17. fundur,  1. júlí 2013.

framtíð Fisktækniskóla Íslands.

23. mál
[12:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hvað varðar ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þá verð ég að segja eins og er að nær hefði verið að hv. þingmaður hefði sýnt þessu máli áhuga meðan samningaviðræður stóðu yfir síðastliðinn vetur. (ÖS: Ég vissi ekki af þeim.) Það er reyndar þekkt núna — ég get alveg skilið það með hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem nú hafa áhyggjur af stöðu sinni í skoðanakönnunum, að þeir vilji undir rós ráðast pínulítið gegn þingmönnum Vinstri grænna og ráðherratíð þeirra af því að vandinn liggur í því að ekki var tekið á málinu síðasta vetur, þegar það var uppi og var verið að ganga frá þessum samningum. Það er svolítið viðurhlutamikið, að mínu mati, að koma svo og segja núna, þegar við höfum haft þennan skamma tíma: Hér er allt í kaldakoli. Þá er miklu nær fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson að fara bara beint í málið og vera ekki að hafa mig sem millilið í þessu. Það er miklu árangursríkara að fara bara beint í Vinstri græna.

En svarið við þessu er þetta: Ég mun að sjálfsögðu setjast yfir þetta mál. Ég hef farið yfir það að ég tek algerlega undir það sem sagt hefur verið varðandi mikilvægi þessa skóla og mikilvægi þessa náms. Auðvitað er það námið sjálft sem skiptir mestu máli, ekki endilega fyrirkomulagið eða hvað það heitir heldur innihald námsins, að það sé í boði og sé aðgengilegt.

Þess vegna er svolítið vont, það verður bara að segja það eins og er, að við skulum ekki hafa haft betri tíma fyrir þetta, að ekki skuli hafa verið tekið betur á málinu síðastliðinn vetur þegar menn höfðu meiri tíma til þess. Það leysir okkur ekki undan því að bregðast við og ég ítreka að ég mun setjast yfir það með embættismönnum mínum og ég mun líka kalla til mín forustumenn skólans til að ræða við þá um hvernig best verður að þessu staðið.

Enn og aftur: Þarna er mjög gott tækifæri til að búa til mjög gott samstarf á milli hins opinbera og atvinnulífsins og þessarar mikilvægu atvinnugreinar um menntamál innan greinarinnar. Við eigum að reyna að nýta það og ekkert annað að gera en fara í þá vinnu nú á næstu dögum.