142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

ályktun Evrópuráðsins og landsdómur.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku ályktaði Evrópuráðsþingið um mál er varða aðskilnað stjórnmálalegrar og refsiréttarlegrar ábyrgðar stjórnmálamanna. Í framhaldi af því hefur hæstv. fjármálaráðherra réttilega, og ég vil hrósa honum fyrir það, mælt fyrir því að lög um landsdóm verði felld úr gildi og að sú stofnun verði lögð niður. Ég held að sú reynsla sem við gengum í gegnum á síðasta kjörtímabili í landsdómsmálinu hafi hvorki verið okkur til sérstaks ávinnings né virðingarauka eða skilað okkur miklum almennum ávinningi í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Ég tel líka að okkur beri skylda til þess að taka alvarlega ábendingar Evrópuráðsþingsins. Evrópuráðið skiptir miklu máli. Það er grundvallarstofnun í því stjórnkerfi sem komið var á í Vestur-Evrópu í kjölfar seinni heimsstyrjaldar og hefur verið burðarás í þróun lýðræðis og mannréttinda og eðlilegra stjórnarhátta.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að það skipti miklu máli að grípa ekki til einhvers hálfkáks nú heldur taka raunverulega af skarið og leggja af ákvæði um landsdóm í stjórnarskránni. Nú búum við svo vel að fyrir þessu þingi liggur frumvarp mitt og tveggja annarra þingmanna til staðfestingar á frumvarpi til stjórnarskipunarlaga frá síðasta þingi sem gerir okkur kleift að ráðast í slíka stjórnarskrárbreytingu án tafar og við þurfum ekki að bíða til loka kjörtímabils í því efni. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hvort það sé ekki ágætisupphaf á sameiginlegri vegferð okkar til að brjóta nýja leið og bregðast við ályktun þings Evrópuráðsins ef við mundum sameinast um (Forseti hringir.) að veita brautargengi því frumvarpi til breytinga á stjórnarskipunarlögum sem liggur fyrir þinginu og sameinast um að (Forseti hringir.) leggja af landsdóm við fyrstu hentugleika.