142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það er miklu meira en sjálfsagt, það er nauðsynlegt að fara vel yfir þá þætti sem hv. fyrirspyrjandi vakti máls á.

Það er tvennt sem ég vil gera athugasemd við. Annars vegar varðar það lán Lánasjóðs íslenskra námsmanna en því er oft haldið fram í umræðunni að ekki sé um neina styrki að ræða og þetta sé því ekki samanburðarhæft við það sem gerist á Norðurlöndunum. Það er rangt, virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikill styrkur fólginn í til dæmis vaxtaniðurgreiðslunni sem er á lánum frá lánasjóðnum. Í því er fólginn töluvert mikill styrkur og það er ekki rétt að líta fram hjá því.

Í öðru lagi er alveg rétt, og ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um það, að það eru ekki rök í sjálfu sér að benda á fyrra ástand, en þegar saman er virt, það sem við bjuggum við hér og fyrirkomulagið sem er almennt á Norðurlöndunum, tel ég að þetta sé skynsamleg ákvörðun vegna þess að krafan um 60% námsframvindu er bara krafa um að í sjálfu sér sé í lagi að vera á rétt rúmlega hálfum hraða. Ég vil benda á, virðulegi forseti, að við þurfum að skoða menntakerfi okkar, (Forseti hringir.) kröfurnar sem við gerum. Enn og aftur ítreka ég að þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. þingmanni eru mjög mikilvægar og verða teknar til alvarlegrar skoðunar.