142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

[15:24]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Í dag, 1. júlí, eru 168 ár síðan endurreist Alþingi kom fyrst saman í Reykjavík. Ég vil óska hv. þingmönnum, hæstv. ráðherrum og virðulegum forseta til hamingju með það og daginn.

Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ráðherra ferðamála, varðandi eftirfylgd ferðamálaáætlunar 2011–2020, en Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um hana 7. júní 2011 með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna, 52 talsins.

Hið opinbera hefur sett 300 milljónir á ári í markaðsátak og markaðsherferðir síðan 2010 og ég veit að hagsmunaaðilar vilja meira frá hinu opinbera í þeim efnum. Hið opinbera hefur einnig sett á fót Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem þegar er byrjað að veita fé úr, nú síðast um 150 milljónum á vordögum. Þetta er vel þó að ég vilji auðvitað minna á mikilvægi hönnunar og gæða þegar kemur að framkvæmdum á einstaka ferðamannastöðum, enda gæði upplifunar undirstaða arðsemi af greininni.

Þegar hins vegar kemur að áherslum ferðamálaáætlunar hefur hvorki Ferðamálastofa né aðrir fengið fé til að fylgja eftir markmiðum hennar. Markmið hennar eru fjögur. Í fyrsta lagi að auka arðsemi atvinnugreinarinnar. Í öðru lagi að standa að markvissri uppbyggingu áfangastaða, öflugri vöruþróun og kynningarstarfi til að skapa tækifæri til að lengja ferðamannatímabilið um land allt, minnka árstíðasveiflur og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið. Í þriðja lagi að auka gæði, fagmennsku, öryggi og umhverfisvitund ferðaþjónustunnar. Í fjórða lagi að skilgreina og viðhalda sérstöðu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna meðal annars með öflugu greiningar- og rannsóknastarfi.

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort til standi að vinna að þeim meginmarkmiðum og hvernig? Og jafnframt því hvernig hæstv. ráðherra hyggst tryggja tekjur til að standa að skipulagi og markvissri uppbyggingu ferðamála og ferðaþjónustu í landinu?