142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

[15:28]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr og góð svör og augljósan metnað fyrir málaflokknum. Það sem fyrir mér vakir er — samhliða fjölgun ferðamanna til landsins sem er gríðarmikil, sérstaklega á undanförnum tveimur árum, allt upp í 20% milli ára sem þeim fjölgar, að mjög mikilvægt er að efla opinberar valdastofnanir eins og Ferðamálastofu og Umhverfisstofnun samhliða fjölgun gestanna til að halda utan um þá uppbyggingu sem er.

Ég fagna því að ný ferðamálalög líti dagsins ljós á haustþingi væntanlega og treysti því að gott samráð verði haft við gerð þeirra eins og ævinlega er og hvet til þess endilega að hafa háskólasamfélagið með í því samráði, hönnuði og arkitekta — við eigum mikið af góðu fólki í þeim greinum — vegna þess einmitt að varðandi arðsemi af greininni er undirstaða hennar gæði upplifunar. Okkar góðu hönnuðir og arkitektar geta komið þar að og þekking háskólasamfélagsins. Þá verða kannski líkur til þess að fleiri styrkir verði sóttir ef vandað yrði til meira þar.