142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

aflandsreikningar og skatteftirlit.

[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að aukið skatteftirlit hefur skilað talsvert miklum árangri og framlög hafa verið aukin til þeirra embætta sem þessum málum sinna á undanförnum árum. Á næsta fjárlagaári er ekki gert ráð fyrir öðru en að þessar stofnanir haldi sínum framlögum og verði auk þess undanskildar þeirri hagræðingarkröfu sem almennt er þó verið að gera í ríkisrekstrinum. Það má því segja að með þeim hætti hafi þegar verið tekin ákvörðun um það í mínu ráðuneyti að forgangsraða þegar kemur að hagræðingarkröfum.

Varðandi aflandsfélög og önnur skattaskjól skiptir auðvitað mjög miklu máli að gera mun á því þegar menn eru með löglega starfsemi sem gefin er upp á slíkum stöðum og svo hins vegar starfsemi sem skotið er fram hjá öllum skattskýrslum og skattyfirvöldum og menn nota hreinlega slíkar aflandseyjar til þess að komast hjá skattgreiðslum. Í því efni hafa ekki verið gerðar neinar ráðstafanir í sjálfu sér í fjármálaráðuneytinu til þess að komast yfir upplýsingar sem kunna að vera á boðstólum í alþjóðlegu samstarfi heldur er fyrst og fremst treyst á að þær stofnanir sem gegna helstu skyldum í þessum efnum láti vita ef þörf er á því að fá auknar heimildir eða eftir atvikum frekari fjárveitingar til þess að komast yfir slík gögn eða einhvers konar milligöngu stjórnvalda. En að öðru leyti þá eru mál af þessum toga í höndum ríkisskattstjóra.