142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:38]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram umræðum um breytingu á veiðigjöldum sem hófust fyrir helgi. Í þeim umræðum er fram fóru á föstudaginn, sem ég kem nú jöfnum höndum til með að vísa í, kom margt ágætt fram sem við skulum ekkert gera annað með en taka sem mjög málefnalegt innlegg inn í þessa umræðu — á þeim nótum vildum við gjarnan geta rætt um sjávarútveg og framtíð hans.

Í upphafi vil ég segja að það er merkilegt og mikilvægt að við munum og áréttum það að við eigum útgerð og fiskvinnslu í samfélagi okkar sem er burðug, stöndug og skapar þjóðinni gríðarleg verðmæti og er í raun undirstaða undir lífskjörum okkar.

Við erum sem þjóð í þeirri öfundsverðu stöðu að geta rætt um útgerð á þann hátt sem við gerum hér, hvað við ætlum sem samfélag að taka út úr útgerðinni, en margar aðrar þjóðir ræða miklu frekar um útgerð út frá því hvernig þær geti komið henni til aðstoðar til að halda henni áfram. Á þessu er grundvallarmunur er varðar okkar íslensku útgerð. Það skulum við alltaf hafa í huga og við skulum þakka fyrir það. Þetta er gríðarlega mikilvægt og mér finnst að við eigum á hverjum tíma að vera upptekin af því að hlúa að þessari stöðu íslensku útgerðarinnar og vinna þannig með hana áfram, hvaða sjónarmið sem við höfum um málefni útgerðar að öðru leyti.

Ég vil vísa í ræðu sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason flutti undir dagskrárliðnum um störf þingsins fyrir nokkrum dögum þar sem hann gerði að umræðuefni orðræðu um útgerðarmenn og sjómenn. Ég vil taka undir margt af því sem hann flutti hér yfir þingheimi. Bara í því sambandi sem ég ræddi áðan, að við þyrftum líka að temja okkur annað umræðulag um útgerðina og útgerðarmenn en hefur kannski verið áberandi í opinberri þjóðfélagsumræðu á undanförnum árum. Ég ætla ekki að dvelja langdvölum við það, en því miður hefur útgerð verið hlutgerð sem birtingarmynd neikvæðni og jafnvel öfundar og hagsmunum útgerðarinnar stillt upp gegn hagsmunum þjóðfélagsins og þjóðfélagsþegnanna. Í umræðum um veiðigjaldið nú, sem hefur verið mikil, og meðal annars á þessum vettvangi hér, vil ég aðeins segja það að sama hvaða stjórnmálaflokki við tilheyrum eða lífsskoðun við aðhyllumst viljum við öll aðeins það eitt að treysta og efla útgerðina, þessa mikilvægu atvinnugrein okkar.

Í raun og veru er ekki himinn og haf á milli þeirra sjónarmiða sem koma fram í þessari umræðu. Þess vegna geng ég til hennar tiltölulega bjartsýnn og jákvæður á að við munum á næstu vikum og mánuðum geta náð frekari framförum, ef við getum orðað það þannig, um hina ytri umgjörð þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Ég hef í starfi nefndarinnar pælt í gegnum margar umsagnir um fiskveiðistjórnarfrumvörp, bæði gömul og ný. Í einni af þeim umsögnum sem þar liggja inni segir, með leyfi forseta:

„Útgerðarmenn hafa í yfir 30 ár farið eftir þeim leikreglum sem hafa verið settar af stjórnvöldum. Þeir eru því ekki þjófar eða lögbrjótar, heldur hafa þrátt fyrir allt gengið vel um þá auðlind sem þeim hefur verið treyst fyrir.“

Það kemur mjög skýrt fram í þeirri umfangsmiklu umsögn, sem ég er að vitna í, að í öllum þeim gríðarlegu breytingum sem orðið hafa á undanförnum 30 árum megi segja að lagðir hafi verið gríðarlega miklir skattar á útgerðina. Öll hagræðing undanfarinna ára, sem við erum nú að uppskera ríkulega af, hefur verið sársaukamikil og hún hefur verið erfið mörgum byggðarlögum og mörgum útgerðum, en hún hefur skilað þjóð okkar gríðarlega miklum og mikilvægum ávinningi. Það er kannski einmitt þess vegna sem við stöndum og ræðum hvernig við getum skattlagt mikla og góða arðsemi í þessari atvinnugrein.

Undanfarna áratugi hefur margt verið gert sem orkar tvímælis. Ég ætla ekki að dvelja við mörg þeirra atriða. En við höfum, svo að dæmi sé tekið, skert veiðiheimildir til verndar og uppbyggingar fiskstofna og um það erum við almennt sammála. Í ofanálag höfum við skert veiðiheimildir ákveðins útgerðarflokks hér á landi um næstum þriðjung — útgerðarflokk sem ég vil kalla grunnútgerð eða burðarásinn í okkar útgerðarfélögum. Sú útgerð hefur á hverjum tíma mætt þeim skerðingum með því að kaupa veiðiheimildir af öðrum útgerðaraðilum sem annaðhvort hafa minnkað við sig, breytt áherslum eða hætt. Þannig hefur útgerðin í sjálfu sér fjármagnað þá gríðarlega miklu hagræðingu sem orðið hefur.

Við höfum líka notað veiðiheimildir til að bregðast við neikvæðum áhrifum, þeim breytingum sem orðið hafa á samfélagsmynstrinu allt í kringum landið, breytingum sem stjórn fiskveiða hefur valdið á undanförnum árum. Þannig höfum við með ákveðnum hætti litið á aflaheimildir sem nokkurs konar fjármunaprentvél til að setja í þau verkefni sem talin hafa verið rétt og mikilvæg samstaða hefur oft á tíðum myndast um, meðal annars hér á Alþingi, til að sníða þá galla af athöfnum og afleiðingum ríkjandi fiskveiðistjórnarstefnu.

Ég vil draga þetta fram hér til að minna á þá staðreynd að með þessum aðgerðum höfum við lagt, eins og ég hef sagt áður, miklar álögur á útgerðina. Þannig höfum við, og ég segi það aftur, skattlagt hagnað hennar með ákveðnum hætti til að standa undir öðrum þáttum.

Við höfum til að mynda fært til heilmikið af veiðiheimildum til að dempa áföll er hrun hefur orðið í öðrum fiskstofnum til að bregðast við erfiðleikum sem hafa orðið svæðisbundin í nokkrum byggðarlögum kringum landið o.s.frv.; til að dempa þau áföll höfum við verið að færa til heilmiklar veiðiheimildir.

Margar þessar aðgerðir, hvort sem við nefnum þær sértækar aðgerðir eða pottaaðgerðir, hafa ekki gengið til baka til upphaflegra handhafa veiðiheimilda. Þannig séð höfum við bætt stöðu margra útgerða og byggðarlaga, en á móti skekkt myndina hjá þeim sem af var tekið. Allt þetta verðum við að viðurkenna og meta þegar við ræðum um mismunandi hagsmuni og afleiðingar þeirra háu veiðigjalda sem við fjöllum um hér.

Ég vil líka draga fram að vegna þessara aðgerða, sem ég er ekki að lýsa mig andvígan, verðum við að átta okkur á því hve þol atvinnugreinarinnar til skattgreiðslu er takmarkað. Það sjónarmið er þekkt, það á sér vafalaust sterk rök, að taka mætti mun hærri fjárhæðir í arðgreiðslur eða skattgreiðslur á útgerð. Það kom meðal annars fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur hér á föstudaginn var, að taka mætti miklu hærri fjárhæðir út úr útgerðinni í auðlindagjöld. Á sama tíma verðum við þá að viðurkenna að sú hugsun kallar á meiri samþjöppun veiða og vinnslu, sem aftur kallar fram enn meiri breytingar á byggðamynstri allt í kringum landið.

Sjónarmið um að taka út 40–50 milljarða í veiðigjöld á ári hafa komið fram. Ef þangað á að stefna getum við líka alveg gleymt allri hugsun um fjölbreytt útgerðarmynstur, hagsmuni einstakra byggða o.s.frv.

Það má örugglega rökstyðja að hægt sé að taka tugi milljarða í skatt af útgerðinni en þá hefur það þær neikvæðu afleiðingar að gríðarleg samþjöppun hefst með tilheyrandi röskun á byggðamynstri allt í kringum landið. Ekki aðeins að hún skapi óvissu um rekstrarumhverfi útgerðar og byggðarlaga til lengri eða skemmri tíma heldur er engum greiði gerður með slíkri ofurskattlagningu.

Ríkissjóður þarf tekjustofna sem eru endurnýjanlegir eins og fiskstofnarnir. Það eru ekki hagsmunir okkar til lengri tíma að taka í fáein skipti út miklar skatttekjur ef það leiðir til stöðnunar, til þess að tæki og búnaður úreldist og framþróun stöðvist. Þá er ótalinn sá þáttur sem er gríðarlega mikilvægur sem er nýting og tilraunaveiðar á ýmsum stofnum í hafinu sem eru vegna breyttra aðstæðna, vegna þess að komin er til aukin veiðitækni, rannsóknir, menn hafa uppgötvað nýja nytjastofna og oft og tíðum hefur þurft heilmikla fjármuni til að plægja þann akur að gera þá arðbæra til veiða og vinnslu.

Ofurskattlagning virkar nefnilega neikvætt á slíka hvata, að við sækjum fram með það að markmiði að finna fleiri nytjastofna, gera úr þeim markaðsvöru og breyta þeim í verðmæti.

Við höfum með öðrum orðum verið að nota sjávarútveg og útgerð og stjórn fiskveiða jöfnum höndum sem nýtingarstefnu auðlinda og líka til byggðaaðgerða á sama tíma og við ætlum að hámarka hagnað okkar af sömu auðlind. Þetta hefur gengið bærilega upp að mínu viti á undanförnum árum.

Á fundum nefndarinnar mátti glögglega heyra, og það má lesa í gömlum og nýjum umsögnum, hve alvarlega óbreytt gjaldtaka mundi fara með mörg fyrirtæki. Líkt og fram kom á fundum atvinnuveganefndar hafa endurskoðendur og rekstrarráðgjafar metið og reiknað framtíðarrekstrarhorfur fyrir einstakar útgerðir. Glöggt kom þar í ljós að í allmörgum tilfellum mátti jafnvel binda skipin eða selja þau strax og hætta útgerð, enda hefur það verið í umræðunni að litlar og meðalstórar útgerðir hafi leitað eftir möguleikum á að stærri útgerðarfélög mundu kaupa þau minni. Það er staðreynd, það er afleiðing af mjög háum álögðum veiðigjöldum.

Þess vegna meðal annars stöndum við í því á þessu sumarþingi að breyta álögðum veiðigjöldum til að koma í veg fyrir kollsteypu.

Verkefni okkar hér er öðrum þræði að lappa upp á löggjöf sem þegar hefur verið sett. Á fundi atvinnuveganefndar kom fram að þau verkfæri sem ætluð voru til að reikna út veiðigjöldin dygðu ekki til. Umræðan hefur síðan nokkuð snúist um það hvort mögulegt hefði verið að fiffa þau verkfæri til. Því er til að svara, eins og fram kom á fundum atvinnuveganefndar, að kannski dygði ekki að opna heimildir á milli einstakra stofnana, heldur væri einnig óljóst um gæði þeirra gagna sem sækja þyrfti til að geta lagt á þau gjöld; og tíminn að renna frá okkur. Þessir útreikningar þurfa að liggja fyrir á næstu dögum.

Minna hefur farið fyrir umræðunni um atriði er kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofunnar sem fylgir frumvarpinu. Ég vil, með leyfi forseta, vitna beint í hana. Þar segir:

„Í þessu sambandi þarf þó einnig að líta til þess að efasemdir hafa verið um að sjávarútvegsfyrirtæki fengju risið undir því að greiða núgildandi veiðigjöld að fullu án þess að rekstrargrundvöllur a.m.k. sumra þeirra teldist vera orðinn brostinn.“

Þetta kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofunnar um það frumvarp sem við höfum hér til umræðu.

Við þurfum ekkert að deila um það að þegar við lækkum fjárhæðirnar muni krónutalan lækka sem komi inn í ríkissjóð. Það er augljóst. Sú áætlun er líka háð mörgum öðrum óvissuþáttum eins og gengd fiskstofna og hvernig gengur að veiða og nýta o.s.frv. Ég vísa aftur í ofangreinda tilvitnun úr umsögn fjármálaskrifstofunnar, um að efasemdir hafi verið um að sjávarútvegsfyrirtæki fengju risið undir því að greiða núgildandi veiðigjöld að fullu, og mér fyndist það mikill ábyrgðarhluti ef við tækjum ekki slíka aðvörun mjög alvarlega.

Þetta er í umsögn um gildandi lög, lög sem eru nú þegar í gildi, þannig að ekki ætti nokkur maður að velkjast í vafa um að tilefni til breytinganna er ærið og verkefni okkar að koma í veg fyrir kollsteypu, eins og ég rakti hér áðan.

Í annan stað vildi ég vitna í atriði er komu fram í skýrslu OECD sem hefur verið gerð að umtalsefni hér á undanförnum dögum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Draga þarf úr áætlaðri hækkun á sérstöku auðlindagjaldi á sjávarútveginn sérstaklega á botnfisksveiðar, þannig að atvinnugreinin standi undir því.“

Ég hef nú vitnað í tvö álit sem komið hafa fram um mikilvægi þess að við leiðréttum þessa gjaldtöku og fyrirhuguðu álagningu á veiðigjöldum.

Við yfirferð og greiningu á málinu hefur komið skýrt fram að gildandi lög, og miklu frekar þróun afurðaverðs frá setningu þeirra á sínum tíma, mismuna veiðigreinum. Í þessu frumvarpi er því leitast við að leiðrétta þann mun sem þar hefur orðið og hér er verið að stórhækka veiðigjöld á uppsjávarveiðar. Minna fer fyrir umræðunni um verulega hækkun á veiðigjöldum fyrir uppsjávarveiðifyrirtækin. Miklu meira er talað um lækkunina sem gera þarf á botnfisksveiðunum, en við þeim blasti sú hryllilega staða, sem ég hef áður rakið, að mörg fyrirtæki risu ekki undir því.

Tekjustofnar ríkisins þurfa að vera sjálfbærir rétt eins og fiskstofnarnir og grasvöxturinn og hvað sem við höfum. Í sjálfu sér er hægt að taka í eitt, tvö eða þrjú skipti mjög mikla skatta út úr atvinnugreinum en skilja þær síðan eftir sem rjúkandi rústir. Ég held að það sé ekki ætlan nokkurs manns sem situr á Alþingi að gera slíkt.

Það eru fleiri atriði sem maður kemst varla í gegnum og þarf að ræða þegar fjallað er um veiðigjöld. Það er sú arfavitlausa aðferð að skattleggja óskylda aðila eða óskyldan rekstur. Langstærsti hluti þeirra fjármuna sem á að innheimta í gegnum veiðigjaldið er tekinn af vinnsluhlutanum en ekki eru allar útgerðir með vinnslu.

Ég sé ekki hvernig við getum leyft okkur til lengri tíma að skattleggja hjá einum aðila fyrir hagnað einhvers óskylds aðila. Það og afleiðingar af háu veiðigjaldi og afleiðingar af þeim lögum sem við ætlum að breyta, erum að ræða um að breyta, segja okkur að þetta kerfi allt saman og þessa hugsun alla verður að endurskoða.

Fram kom í umsögnum um fiskveiðistjórnarfrumvarp, sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili, að endurnýjun fiskiskipa hefur verið sáralítil. Þegar við setjumst yfir það og náum saman um þetta mikilvæga mál, stjórn fiskveiða og rentu til íslensku þjóðarinnar af auðlindinni, vil ég að við reynum að horfa til þess hversu mikilvægt er fyrir útgerðina að geta endurnýjað fiskiskip. Þó ekki væri nema fyrir þá einu staðreynd að skip sem nýkomið er til landsins eyðir 40% minni olíu en sambærilegt skip í sömu útgerð gerði áður. Við getum líka tínt til bætta vinnuaðstöðu um borð, bætta meðferð afla o.s.frv.

Ég vil líka draga eflingu íslenskrar skipasmíði fram við þessa umræðu. Gríðarleg fjárfesting þarf að eiga sér stað við endurnýjun skipakostsins og í mínum huga er ekkert sjálfgefið að hún renni öll úr landi. Með því gætum við að sjálfsögðu horft til fleiri þátta og iðnaðar sem undirstöðuatvinnugreinar eða frumatvinnugreinar í þessu landi með sín afleiddu störf og þau miklu áhrif sem það getur haft á fjölmörg önnur fyrirtæki, lítil og stór, að beita skynsamlegri innheimtu á auðlindagjaldi sem jafnframt er hvetjandi til þess að byggja hér upp hagkvæman skipastól að nýju.

Framtíð fiskveiða er gríðarlega björt. Framtíð Íslands er að sama skapi óskaplega merkileg. Fáar auðlindir í heiminum eru jafn verðmætar og matarauðlindir. Af þeim erum við mjög rík. Ekki þarf að fara lengra en á vef FAO, og fletta aðeins í gegnum heimasíðu þeirra, til að sjá að þar er meðal annars verið að spá 15–18% raunhækkun á fiskverði í heiminum til ársins 2021. Í íslenska efnahagslögsögu munu gríðarleg verðmæti verða sótt á næstu árum og verðmæti auðlindarinnar mun aðeins halda áfram að hækka. Ekki síst þess vegna er okkur gríðarlega mikilvægt að standa í stafni með skýra sýn á það hvernig við viljum stjórna fiskveiðum og hvernig við viljum nýta afrakstur af þeim fyrir samfélag okkar.

Frumvarp það sem við ræðum nú er til eins árs og er nokkurs konar bráðabirgðaaðgerð, er ekki ætluð til að standa lengur. Þannig að við getum öðrum þræði lagt þann skilning í þetta frumvarp til breytinga á lögum nr. 74/2012 að það sé bráðabirgðaráðstöfun en jafnframt mikilvæg tekjuöflunaraðferð fyrir ríkissjóð.

Grundvallaratriðið er þetta: Við getum ekki gengið fram með óbreytt veiðigjöld. Við verðum að horfa til þess að afurðaverð hefur breyst. Við verðum að horfa til þeirra varúðarorða sem að okkur hefur verið beint. Við getum að sjálfsögðu áfram verið fullkomlega ósammála um hvort lækkunin sé mikil eða lítil eða hækkunin sé eðlileg. Grundvallaratriðið er það að til lengri tíma litið er framtíð Íslands sem matvælaauðlindalands gríðarlega björt.