142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:01]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú spyrja á móti hvort það teljist endilega vera rétt vinnubrögð að reikna út framlegð einnar atvinnugreinar og blanda saman ólíkum þáttum bæði veiða og vinnslu og sækja það með þessum hætti til annars aðilans sem er útgerðin.

Ég segi sem betur fer er ágæt afkoma — og ég rakti það í upphafi ræðu minnar — það er ágæt afkoma í útgerð og fiskvinnslu. Aðferð til gjaldtöku með þeim hætti sem við ræðum hér er hins vegar hættuleg. Ég bið þingmanninn sem hér spyr hvort hann hafi ekki kynnt sér þá þessa umsögn fjármálaráðuneytisins sem ég vitnaði til um að óbreytt gjald gæti stofnað mörgum fyrirtækjum í hættu.

Hitt er að framtíð matvælaauðlindanna er geysilega björt. En deilan stendur í sjálfu sér um það hvað sé mikill eða lítill hagnaður, er eðlilegt að taka af miklum hagnaði.

Þannig að ég spyr á móti: Nú voru um það fréttir fyrir nokkrum dögum að tiltekið verslunarfyrirtæki hér á Íslandi greiddi 40% í arð til sinna eigenda. Er það eðlilegt?