142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að það sé góð rekstrarafkoma í sjávarútvegi og hún er það, hefur aldrei verið betri. Það er einfaldlega þannig.

Það er auðvitað ýmislegt í veiðigjaldinu sem má lagfæra, samanber þær breytingartillögur sem minni hlutinn í nefndinni flytur hér við 2. umr. Auðvitað má taka tillit til sérstakra aðstæðna í tilteknum útgerðarflokkum eða tilteknum stærðum, flytja til gjöldin innan greinarinnar, létta hjá einum og auka hjá öðrum. Um það snýst deilan ekki. Deilan snýst um það hvort skynsamlegt sé þegar við eigum ekki nægilega fjármuni til þess að bæta til að mynda þær skerðingar á ellilífeyri og örorkulífeyri sem hafa orðið, þegar við eigum varla fyrir því að reka landspítalann okkar, þegar ríkissjóður er rekinn með verulegum halla, hvort þá eigi að skrifa 10 milljarða gjafabréf handa útgerðarmönnum í landinu. Þegar hv. þingmaður kemur svo og upplýsir til viðbótar, sem ég vissi ekki áður en þessi umræða hófst, að spáð sé 15–18% raunhækkun á fiskverði á næstu átta árum, sem þýðir enn þá meiri hagnað í greininni, og þá sé ályktunin sú að lækka eigi gjaldið er það ákaflega einkennilegt. Þegar við skoðum það er þetta mjög íþyngjandi gjald.

Ég nefndi tölurnar hér áðan, 34 kr. fyrir kíló af þorski. Ég fullyrði að útgerðarmenn um víða veröld væru tilbúnir til þess að sækja á þeim grundvelli. Ef við settum upp 34 króna gjald fyrir að sækja kíló af þorski yrðu slagsmál um það innan lands af hálfu útgerðarmanna hver fengi að sækja það vegna þess að það er einfaldlega mjög sanngjarnt gjald. Hér er stjórnarmeirihlutinn að lækka það niður í 17 kr. Fyrir vikið verður ekki hægt að efla aftur velferðarþjónustuna, bæta aftur í lífeyriskerfið og ná niður (Forseti hringir.) hallarekstrinum á ríkissjóði. Virðulegi forseti. Það er vond pólitík.