142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:07]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu þar sem nauðsynlegt er að halda til haga bæði áliti minni hlutans í umræðunni allri og auðvitað markmiði og tilgangi þeirra lagabreytinga sem fyrir liggja í áliti meiri hlutans. Ég vil samt byrja á því að undirstrika og ítreka mikilvægi sjávarútvegs fyrir Íslands, mikilvægi sjávarútvegs í uppbyggingu landsins á 20. öldinni og þeirri 21. Við eigum sjávarútveginum nánast allt að þakka. Við eigum sjómönnum og útgerðarmönnum ansi margt að þakka við uppbyggingu þessa lands og í sókn þeirra til sjávar til að ná í mat og auðvitað arð og auð fyrir landið sem stóð undir uppbyggingu og nútímavæðingu þessa lands, við skulum ekki gleyma því. Það er enginn í þessum þingsal — ég fullyrði: enginn, ekki nokkur þingmaður sem vill sjávarútveginum illt, sem vill vinna sjávarútveginum mein, sem sér útvegsmenn sem einhvers konar djöfla eða púka, sem sér sjómenn sem einhverja djöfla eða púka. Því fer fjarri. Þetta eru hetjur hafsins, útgerðarmenn hafa byggt þetta land að mörgu leyti. Spurningin er einungis um á hvers forsjá byggja eigi landið til framtíðar. Á það að vera á forsjá þeirra sem taka til sín arðinn eða á forsjá þeirra sem endurúthluta honum með lýðræðislegu aðhaldi? Í því liggur pólitíkin í fiskveiðum sem ég vil viðra.

Frumvarp nr. 74/2012, um veiðigjald, sem samþykkt var á síðasta þingi er svar við kröfu kjósenda um breytingar á kerfi sem flestir telja ósanngjarnt og þurfi að breyta. Þjóðin krafðist þess að fá raunverulegan arð af auðlind sinni og að eignarhald hennar á þessari auðlind sé tryggt. Viðbrögð margra útgerðarmanna við þessum tillögum voru fyrirsjáanleg enda eru þeir margir að fara að missa spón úr aski sínum með þessum lögum. Um það snýst hins vegar pólitík, þ.e. að færa til gæði í samfélaginu. Spurningin núna er: Hvað er verið að færa til? Hið sérstaka veiðigjald er beintengt arði sjávarútvegsfyrirtækjanna eins og er í núverandi lögum. Það virkar einfaldlega þannig að þegar búið er að draga rekstrarkostnað frá tekjum verður eftir höfuðstóll. Að auki kemur til frádráttar 8–10% ávöxtunarkrafa á svokölluðum fastafjármunum og af því sem þá stendur eftir mun ríkið taka 70% eftir þriggja ára aðlögunartíma. Fyrsta árið 60%, svo 65% og svo 70% eftir þriggja ára aðlögunartíma.

Hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir einfaldlega að ef útgerð gerir út skip með mannskap sem veiðir fisk fyrir eigin vinnslu í landi þá dregst allur kostnaður við veiðar og vinnslu frá sölutekjum útgerðarinnar af fiskinum. Þar að auki getur útgerðin dregið frá 8% af metnu virði allra veiðitækja og 10% af metnu virði allra vinnslutækja. Þessar prósentur eru það sem áætlað er að kosti fyrirtæki að endurnýja tæki og búnað og má geta þess að Hagstofa Íslands styðst við 6% fyrir fyrirtæki almennt í landinu. Með öðrum orðum; veiðigjald er ekki reiknað út nema af hreinum hagnaði af rekstri útgerðanna — hreinum hagnaði af rekstri útgerðanna, svokölluðum umframarði eða rentu og er rétt að halda því til haga. Vel rekin útgerðarfyrirtæki geta meira að segja lagt fyrir þessi 8% af metnu virði veiðitækja og 10% af metnu virði vinnslutækja í afskriftasjóð til þess að endurnýja tæki. Í raun er hvati inni í þessu kerfi að vera með sem nýjust og best tæki til vinnslu og veiða vegna þess að þau verða þá metin hæst og þá verður prósentan hæst og mest kemur til frádráttar af sérstaka veiðigjaldinu.

Það sem er mikilvægt að vita er að ofangreindir reikningar snúa sem sagt aðeins að rekstri fyrirtækisins. Það þýðir að ef fyrirtæki er ákaflega skuldugt og borgar mikið í vexti af lánum sínum þá verður að taka það af hinum hreina hagnaði sem áður var nefndur, sem fyrirtækin eiga eftir, eftir að þau hafa greitt sérstaka veiðigjaldið. Það þýðir þá einfaldlega og gefur augaleið að mörg af hinum skuldsettari fyrirtækjum munu ekki ráða við sérstaka veiðigjaldið og það eru fyrirtækin sem hv. þm. Haraldur Benediktsson vísaði til áðan að muni ekki ráða við sérstaka veiðigjaldið. Það eru þau sem eru of skuldsett. Þar með fara þau á hausinn. Og með frumvarpinu er í raun ekki hægt að stofna til mjög skuldugs rekstrar í sjávarútvegi og það skiptir líka máli. Fyrirtæki sem þegar eru of skuldug munu ekki ráða við sérstaka veiðigjaldið, þau munu fara á hausinn. Ekki verður hægt að stofna til nýrra fyrirtækja í sjávarútvegi sem verða mjög skuldug. Það verður ekki hægt með sérstaka veiðigjaldinu eins og þau eru í núverandi lögum. Þá verður gerð bragarbót á því sem við höfum séð til þessa þar sem mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa vissulega skuldsett sig fram úr hófi og því er það jákvætt ef auðlindagjaldið mundi takmarka möguleikann á frekari skuldsetningu og ýta undir hagræðingu að þessu leyti.

Þau útgerðarfyrirtæki sem standa vel eru allmörg og þau hafa gott svigrúm til fjárfestingar. Að auki hvetur kerfið þau til fjárfestinga í eigin tækjum og búnaði þar sem þær prósentur sem ég nefndi áðan koma til frádráttar stofninum þannig að sjávarútvegsfyrirtæki eru í raun hvött til að veiða á sem bestum og nýjustum skipum og vinna afla með nýjustu tækjum. Að auki, og það skulum við athuga vel, eru laun fiskverkafólks og sjómanna hluti rekstrarkostnaðar og þar með frádráttarbær frá sérstaka veiðigjaldinu. Með öðrum orðum; það er líka kominn hvati til þess að hækka laun sjómanna og fiskverkafólks. Það er í gegnum laun þeirra og útsvarsgreiðslur innan sveitarfélaga sem arðurinn mun skila sér til samfélagsins og samfélagslegrar uppbyggingar. Þannig er einmitt hægt að skila þessum skatti í gegnum útsvarstekjur fiskvinnslufólks og sjómanna vegna hækkaðra launa þeirra. Það hlýtur að vera gott.

Staðan er sú að vel stöndug sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesta nú víða af hagnaði sínum. Þau kaupa upp alla eigin virðiskeðju auk þess sem þau fjárfesta mörg að í alls kyns óskyldum rekstri; með fjárfestingum erlendis, fjárfestingum innan lands, olíufélögum, jarðborunum, bönkum — nefnið það bara. Þau fjárfesta í óskyldum rekstri auk þess að kaupa upp eigin virðiskeðju. Sum þeirra eru meira að segja í því að niðurgreiða óarðbærar veiðar t.d. eins og hvalveiðar. Þau nýta hagnað sinn til þess að niðurgreiða hvalveiðar, sem er umdeilt mál, en nóg virðast þau eiga til að dreifa.

En því meira sem fólk eignast því meiri völd hefur það og það birtist akkúrat í því að þegar hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja er mikill, methagnaður upp á 100 milljarða — þá er verið að fjárfesta í samfélagi okkar, kaupa upp fyrirtæki, kaupa upp virðiskeðju síns eigin fyrirtækis og fjárfesta í alls kyns óskyldum rekstri — þá færast völdin á hendur þessara einstaklinga sem ráðstafa svo hagnaði sínum. Völdin eru að færast í hendur útgerðarmanna og útgerðarfyrirtækja. Völdin eru sem sagt að safnast á hendur þeirra, safnast á fárra hendur. Handhafar veiðiheimilda lúta í engu aðhaldi kjósenda, en það gerir ríkisreksturinn sannarlega. Sú hugmynd að við tökum þarna til okkar 70% af hreinum hagnaði í gegnum umframrentuna, eins og núverandi lög gera ráð fyrir, snýst þannig í raun um að færa völdin í hendur fólksins í landinu, að taka völdin og færa til gæði og færa völd í hendur fólksins í landinu. Það er það sem hugmyndin snýst um og skiptir máli. Það er pólitíkin í fiskveiðum.

Mig undrar þá auðvitað ekki að þeir sem eru að missa frá sér völdin kvarti yfir því. Mikill vill vissulega meira. Það sem fólk verður að gera upp við sig er spurningin um hvort það sé ekki lýðræðisleg nauðsyn. Í því samhengi er vert að minna á að fiskurinn verður áfram í sjónum og sá mannauður og þekking sem skapast hefur í landinu við veiðar og vinnslu hverfur ekki heldur. Og eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á þá verða örugglega margir til þess að berjast um það ef boðið verður upp þorskkílóið á Íslandsmiðum fyrir 34 krónur, eins og núverandi lög gera ráð fyrir að sérstaka veiðigjaldið verði.

Núna leggur hins vegar meiri hluti atvinnuveganefndar til breytingar á núgildandi lögum nr. 74/2012, um veiðigjald. Hverjar eru þær breytingar? Jú, þær felast fyrst og fremst í því að lækka sérstaka veiðigjaldið á botnfiskstegundum úr rúmum 23 kr. í rúmar 7 kr. Þá skulum við gera skýran greinarmun á hinu almenna veiðigjaldi, sem eru þá 10 kr. á kíló, og svo aftur hinu sérstaka veiðigjaldi sem lagt er til í núgildandi lögum að sé rúmar 23 kr. Sérstaka veiðigjaldið er, eins og ég lýsti nákvæmlega áðan, tekið af umframarði fyrirtækjanna, eftir hagnað og eftir afskriftir og rekstrarkostnað — tekið af umframarði. Sérstaka veiðigjaldið á botnfiskstegundum á að lækka. Það skal hins vegar hækka veiðigjaldið á uppsjávarveiði samkvæmt núgildandi lögum og skal því halda vel til haga. Jú, vissulega mun það hækka sérstaka veiðigjaldið fyrir uppsjávartegundir, enda hefur nú heyrst í þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga.

Það sem minni hlutinn bendir hins vegar á í áliti sínu og skiptir miklu máli er að veiðigjöld eru fyrst og fremst auðlindagjöld til að tryggja þjóðinni arð af auðlind sem er í hennar eigu. Minni hlutinn undirstrikar að meiri hluti þjóðarinnar, og meira að segja yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, hefur lýst sig fylgjandi sterkum stjórnarskrárákvæðum um sameignina, sameign þjóðarinnar á auðlindinni. Slíkt ákvæði er harla innihaldslítið ef því fylgir ekki tilkall til sanngjarns hluta auðlindarentunnar eða umframarðsins af náttúruauðlindum. Veiðigjöldin almennt og sérstaka veiðigjaldið þarf að ákveða með hlutlægum og gagnsæjum hætti og til þess voru sett inn ákvæði um hvernig þau skyldu reiknuð og það sem Hagstofan á að standa skil á. Það hefur einnig sýnt sig að sú gjaldtaka sem lögð var til í lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, er hófleg og þrengir ekki óeðlilega að rekstrarskilyrðum sjávarútvegsfyrirtækja. Þvert á það sem hv. þm. Haraldur Benediktsson lét hér í veðri vaka þegar hann flutti ræðu sína þá þrengir þetta ekki óeðlilega að rekstrarskilyrðum sjávarútvegsfyrirtækja. Það þrengir að sumum. Hv. þm. Haraldur Benediktsson vildi meina að það þrengdi að mörgum. Nei, það þrengir að sumum. Hver eru sum fyrirtæki? Jú, það eru þau sem eru skuldsett eða þau sem eru lítil, smá. Þess vegna kemur minni hlutinn í atvinnuveganefnd með breytingartillögu sem lýtur að því að hækka aflamarkið þannig að í raun falla ekki smæstu útgerðirnar undir hið sérstaka veiðigjald fyrr en á seinni stigum. Það skiptir miklu máli.

Umsagnaraðilar hafa vissulega lýst því og rökstutt það að fyrirtæki ráði vel við gjaldtökuna. Umsagnaraðilar sem fjallað hafa um breytingar meiri hlutans sem nú eru lagðar til, hafa bent á að nýja sérstaka veiðigjaldið upp á rúmar 7 kr. þýði í raun að ekkert sérstakt veiðigjald verði greitt af botnfiskstegundum vegna þess að í núgildandi lögum, nr. 74/2012, eru ýmis ákvæði um afslátt, ýmis ákvæði eru þar tilgreind um afslátt af sérstaka veiðigjaldinu og þegar þau eru öll tiltekin á botnfisksveiðarnar mun þetta sjö komma eitthvað krónu gjald þurrkast út. Það mun einfaldlega ekki vera fyrir hendi. Það verður með öðrum orðum ekki greitt neitt sérstakt veiðigjald ef til kemur. Vissulega munu einhver fyrirtæki gera það en ekki öll.

Það sem skiptir máli í umræðunni, sem er merkilegt og er haldið til haga í áliti minni hlutans, og það var rætt á þingi fyrr í dag, er að þegar við ræðum um olíu- og gasvinnslu og ríkisolíufélag í kringum olíu- og gasvinnslu hugsanlega á Drekasvæðinu þá er engin spurning um ríkisfyrirtæki sem eigi að útdeila sérleyfum og hirða af því arð og umframarð og auðlindarentu. Þar er engin spurning um það, allir eru sammála um það. Sæju menn mögulega fyrir sér einhvers konar ríkisfyrirtæki í kringum sjávarútveg? Einhvers konar Icefish sem héldi utan um sérleyfi til veiða og tæki af því ákveðið gjald, segjum til dæmis 34 kr. fyrir hvert kíló á botnfisksveiðum, af þorskígildistonni? Gætum við séð það fyrir okkur? Af hverju ekki? Ekki stendur á mönnum að þetta sé hægt varðandi olíu- og gasvinnslu. Af hverju er það ekki hægt með fiskveiðar? Nei, það er ekki hægt af því að um fiskveiðar standa gríðarmiklir hagsmunir.

Það eru gríðaröflug hagsmunasamtök sem heita Landssamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, sem standa vörð um þann tilflutning gæða og tilflutning auðs í samfélaginu sem birtist okkur í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, sem stóð sem sagt til að breyta með núgildandi lögum nr. 74/2012. LÍÚ stendur vörð um þá hagsmuni. Það eru engin samsvarandi samtök hagsmunaaðila í olíu- og gasvinnslu enda ekki skrýtið, hún hefur aldrei verið hér á landi. Þess vegna er ekkert mál að koma þar á auðlindagjaldi og koma upp ríkisfyrirtæki í kringum útgáfu sérleyfa.

Kjarni málsins er einfaldlega sá að íslenska þjóðin á auðlindina og veitir með lögum einkaaðilum tímabundið sérleyfi til nýtingar hennar og á því rétt á hluta af auðlindarentunni. Það er réttlætiskrafa, eins og ég nefndi áðan. Það er lýðræðiskrafa, eins og ég nefndi áðan. Þetta er spurning um völd í samfélaginu. Þetta er einfaldlega spurning um hver ræður. Hins vegar má alveg halda því vel til haga, og meiri hlutinn í atvinnuveganefnd gerir það og réttlætir breytingartillögur sínar á núgildandi lögum þannig, að vandkvæði hafa komið upp með framkvæmd laga um veiðigjöld. Það er rétt. Minni hlutinn leggur þess vegna fram tillögur til breytingar á lögunum. Vandkvæðin sem meiri hlutinn bendir á lúta til að mynda að upplýsingaöfluninni og hefur meiri hlutinn haldið því helst á lofti að það sé upplýsingaöflunin sem skipti máli. Auðvitað eiga viðbrögðin við því þá ekki að vera þau að lækka veiðigjaldið. Það skiptir engu máli varðandi galla eða annmarka á upplýsingaöfluninni. Það er hægt að laga það og í tillögu minni hlutans er gert ráð fyrir að bregðast við framangreindum vanda, að ríkisskattstjóra verði gert skylt að afhenda Hagstofu Íslands og veiðigjaldsnefnd rekstrarframtöl og aðrar upplýsingar úr skattframtölum sem þýðingu hafa fyrir ákvörðun veiðigjalda. Það er mikilvæg breyting, mikilvæg bragarbót í áliti minni hlutans og væri hæglega hægt að bæta inn í lög nr. 74/2012, til þess að laga þann annmarka um gjaldstofn og reiknigetu eða upplýsingar til að reikna hið sérstaka veiðigjald.

Minni hluti leggur einnig til breytingar á lögum um tekjuskatt þannig að skýrt verði að Hagstofu Íslands sé skylt að vinna úr upplýsingum til samræmis við lög um veiðigjald, þ.e. að segja horfa til tekjuskattsins og horfa til ríkisskattstjóra varðandi það hvernig reikna skuli hið sérstaka veiðigjald. Það er bragarbót á því sem var ambaga og meinbugur á núgildandi lögum nr. 74/2012. Því er einmitt ætlað að koma til móts við þá gagnrýni meiri hluta atvinnuveganefndar, sem er réttmæt, að erfitt hafi verið að reikna út hið sérstaka veiðigjald og að það hafi byggt á of gömlum upplýsingum, nánar tiltekið að sérstaka veiðigjaldið í ár þyrfti að reikna út frá upplýsingum frá árinu 2011. Það er hægt að laga með þeirri tillögu sem minni hlutinn leggur hér til og með því að gera ríkisskattstjóra skylt að afhenda Hagstofu Íslands upplýsingar um skattframtöl og rekstrarframtöl sem þýðingu hafa.

Hinn gallinn sem meiri hlutinn hefur bent á og kom fram mjög snemma er sá að lítil fyrirtæki sem veiða lítið eiga erfitt með að standa undir hinu sérstaka veiðigjaldi, fyrirtæki sem eru með lítinn rekstur, lítil umsvif og litla veltu eiga erfitt með þetta. Til að koma til móts við þau, í því skyni að minnka álögur á minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki þá leggur minni hluti til breytingar sem felur í sér að sérstakt veiðigjald verði ekki greitt af fyrstu 50 þús. þorskígildiskílóunum í stað fyrstu 30 þús., eins og kveðið er á um í a-lið greinarinnar, og í framhaldinu verði hálft gjald af næstu 200 þús. þorskígildiskílóum í stað 70 þús. áður. Það er hugsað til að koma til móts við lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki og skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að það léttir undir með þeim en rýrir ekki tekjumöguleika ríkisins af hinu sérstaka veiðigjaldi nema um mun minna en annars hefði verið. Það skiptir máli, það er mjög mikilvægt og gerir þá smærri útgerðum kleift að komast betur af, ekki hins vegar hinum skuldsettu. Hin skuldsettu sem hafa skuldsett sig um of, jafnvel tekið út hagnað sinn og arð og notað í eitthvað allt annað án þess að fjárfesta í eigin fyrirtæki. Þau fyrirtæki mega kannski bara fara á hausinn eða hvað?

Með breytingartillögum minni hluta atvinnuveganefndar á núgildandi lögum, nr. 74/2012, er brugðist við þeirri gagnrýni sem beinst hefur að lögunum um veiðigjöld samhliða því að styrkari stoðum er skotið undir starfsemi veiðigjaldsnefndar og lagagrundvöll veiðigjaldanna. Því miður fékkst ekki mikil efnisleg umræða í atvinnuveganefnd, ef þá nokkur, um frumvarp og tillögur minni hlutans sem sneru að því að laga til lög nr. 74/2012, um veiðigjöld. Þær sneru að því að laga til þá galla sem bent hafði verið á og sem komið höfðu í ljós við framkvæmd laganna. Það er óhjákvæmilegt að einhverjir annmarkar finnist þegar lög koma til framkvæmda. Við þeim er hægt að bregðast og þá er hægt laga. Hvað gerir meiri hlutinn hins vegar? Hann fer engu að síður fram með breytingartillögu sína á lögum nr. 74/2012. Hann breytir aðeins hinu sérstaka veiðigjaldi, færir það til þannig að það verði nánast hverfandi í tilfelli botnfisks, hækkar verulega í tilfelli uppsjávarfisks, en þegar öllu er á botninn hvolft, rýrir það mjög það sem hið opinbera mun hafa út úr hinu sérstaka veiðigjaldi, svo mikið að stjórnarmeirihlutinn á í stökustu vandræðum, að hluta til þess vegna, með að móta nýtt fjárlagafrumvarp. Enn er ekki neitt komið fram í þeim efnum og jafnvel er rætt um að fresta þingi í haust til þess að gefa þeim meira andrými til þess að skapa fjárlagafrumvarp sitt.

Auðvitað eru menn í vandræðum með fjárlagafrumvarp þegar verið er að rýra og veikja tekjustofnana eins og raun ber vitni. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýr frumvarp meiri hlutans í atvinnuveganefnd um breytingar á lögum um veiðigjaldið að því að veikja tekjustofna almannaþjónustunnar og það er miður. Stjórnarflokkarnir eru nú tveir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, en stefna Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið skýr; hann hefur ævinlega verið á móti hinu sérstaka veiðigjaldi enda ganga sjálfstæðismenn erinda útgerðanna og það hefur engum dulist. Þeir hafa heldur ekki farið leynt með það. Þeir standa stoltir með því sem málsvarar útgerðarmanna og er það bara vel. Það er gott að þeir eiga sér pólitíska málsvara. Hins vegar eru ansi mörg samtök í þessu landi sem eiga sér enga pólitíska málsvara. Það er nefnilega þannig að pólitískir málsvarar almennings, sem er auðvitað mjög óljós hópur, eru frekar fáir.

Hvað varðar hinn stjórnarflokkinn, Framsóknarflokkinn, þá hefur hann ævinlega viljað vinna á grunni skýrslu sáttanefndar frá 2010. Framsóknarmenn hafa ævinlega viljað vinna á grunni þeirrar sáttanefndar og ég kalla eftir því núna: Hvar er sú vinna? Af hverju nýta menn sér ekki vinnu sáttanefndar frá árinu 2010? Og af hverju fylgir Framsókn því ekki eftir, eins og stefna þeirra var og eins og mátti lesa út úr kosningabaráttu þeirra? Þar var verið að leggja grunn að sátt um veiðigjöld, sátt um kvótakerfið og það skiptir gríðarlegu máli vegna þess að sú vinna var þverpólitísk með aðkomu allra flokka, allra hagsmunaaðila. Eins og allir vita sem þeirri vinnu tengdust og komu henni nálægt þá var ansi nærri því að sátt næðist. Það var mjög nærri, það ber alls ekki mikið í milli. Sú breyting sem meiri hluti atvinnuveganefndar stendur fyrir er mjög róttæk. Verið er að klippa niður um rúmlega helming hið sérstaka veiðigjald, a.m.k. á botnfiskstegundir og í raun af engum sjáanlegum ástæðum. Ég endurtek það sem komið hefur ítrekað fram hér að árið í ár er metár í hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja. Og það hefur einnig komið fram, m.a. í máli hv. þm. Haraldar Benediktssonar, að matvælasamtök Sameinuðu þjóðanna, FAO, spá 15–18% raunvirðishækkun á matvælum í heiminum, þar á meðal fiskstofnum.

Fátt bendir til annars en að það sé gósentíð fram undan hjá íslenskum sjávarútvegi — gósentíð. Eigum við þá ekki að tryggja það að endurúthlutun umframarðsins sé í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa en ekki útgerðarmanna einna? Útgerðarmenn hafa góð tækifæri samkvæmt gildandi lögum um veiðigjöld til þess að byggja upp sterk og öflug fyrirtæki. Þeir hafa ríflegar afskriftaprósentur samkvæmt núgildandi lögum umfram það sem fyrirtæki almennt í landinu hafa. Það er því ekkert sem ætti að standa í vegi fyrir því að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geti haldið áfram að byggjast upp með öflugum hætti og verði áfram þær styrku stoðir, styrku undirstöður í íslensku efnahagslífi og hjá íslenskri þjóð sem þær hafa verið um áratugaskeið. Það er ekkert sem bendir til þess að svo geti ekki orðið. Heimurinn allur leggst á sveif með íslenskum sjávarútvegi, en það sem meira er, af einhverjum dularfullum ástæðum — ja, þær eru kannski ekki endilega svo dularfullar — þá kýs stjórnarmeirihlutinn að leggjast á sveif með heiminum öllum og íslenskum sjávarútvegi.

Mér finnst það undarlegt. Mér finnst skrýtið að ekki megi reyna að taka hluta umframrentunnar með eðlilegum hætti af sjávarútveginum. Mér finnst það skrýtin forgangsröðun hjá núverandi stjórn. Ekki það að hún komi á óvart, því var svo sem lofað og það eru fleiri þættir, lækkun virðisaukaskatts af ferðaþjónustu og ýmislegt annað sem er tekið. Verið er að veikja mjög tekjustofna almannaþjónustunnar á fyrstu dögum þingsins eins og komið hefur fram í ræðu og máli margra hv. þingmanna, verið er að veikja tekjustofna almannaþjónustunnar mjög markvisst á þessum fyrstu dögum þingsins og það slær mjög tóninn fyrir það sem fram undan er.

Ég veit að hér höfum við hægri stjórn, það er engin spurning um það jafnvel þó að hæstv. forsætisráðherra kalli það einhvers konar, ja, hvað kallaði hann það? Hann lýsti því sem einhvers konar samsæri á Rauða þræði samfylkingarmanna, einhvers konar spjallþræði þeirra sem kallast víst Rauði þráðurinn. Hæstv. ráðherra sagði að það að kalla stjórnina hægri stjórn væri samsæri þar. Ég vil meina að stjórn dæmist af verkum sínum og ef við horfum til þeirra verka sem unnin hafa verið hér á fyrstu dögum þessa þings, sem snúa fyrst og fremst að því að veikja tekjustofna almannaþjónustunnar og í annan stað að veikja möguleika á andsvari með því að herða að fjölmiðlum í þessu landi, þá með frumvarpinu um RÚV, þá munum við sjá í framkvæmd harðsvíraða hægri stefnu sem ég tel að við munum sjá enn meira af á næstu missirum. Og hvernig mun hún birtast? Jú, með því að veikja tekjustofna almannaþjónustunnar og skapa þannig svigrúm, eins og þeir kalla það, svigrúm til einkavæðingar, svigrúm til þess að selja út hluta almannaþjónustunnar til einkaaðila og svo framvegis.

Ég get ekki trúað því að þeir góðu og gegnu framsóknarmenn sem ég þekki víða um héruð og sérstaklega í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, þeir félagshyggjumenn sem þar er að finna, samvinnumenn sem er að finna í öllum kjördæmum og tilheyra Framsóknarflokki, geti sætt sig við og lifað með þessari forgangsröðun núverandi stjórnar. Ég get ekki ímyndað mér það. Ég held að þeim mundi frekar hugnast samvinnuform á útgerðina, að endurvekja slíkt. Það væri áhugavert að sjá. Af hverju er ekki talað fyrir því? Af hverju er ekki Framsóknarflokkurinn, stærstur flokka á þessu landi, að tala fyrir samvinnu í útgerð, samvinnufyrirtækjum í útgerðum? Það þætti mér meiri og skemmtilegri forgangsröðun og það lofaði betur fyrir okkur og framtíð þessa lands ef við sæjum Framsókn, hæstv. forsætisráðherra jafnvel tala fyrir því að útgerð þessa lands væri rekin á grundvelli samvinnuhugsjónarinnar. Það væri áhugaverð nálgun og þá mundi ég ekki standa hér og fullyrða að í framkvæmd væri hægri stefna og að í landinu væri hægri stjórn. Langt í frá, ég mundi aldrei þora að fullyrða það, ég mundi eiginlega ekki vita hvað ég ætti að kalla það. Blöndu af samvinnuhugsjón og sjálfstæðismönnum? Ég mundi reyna það en ég gæti alla vega ekki kallað það hægri stefnu.

Til eru mýmörg fordæmi fyrir auðlindagjaldi eins og því sem er í gildi í lögum nr. 74/2012. Nærtækasta dæmið er frá Noregi og er mjög mikilvægt að horfa til fordæmanna sem eru við lýði víða um heim. Auðvitað verður alltaf deilt um nákvæma krónutölu og nákvæma útfærslu á því gjaldi. Auðvitað verða alltaf einhverjir sem líða fyrir þetta gjald, en staðan eins og hún er í dag er sú að tekjustofnar almannaþjónustunnar verða látnir líða fyrir það. Það kemur nú í ljós, sennilega á haustþingi þegar forgangur í niðurskurði verður tilkynntur, að tekjustofnar almannaþjónustunnar verða látnir líða fyrir auðlindagjaldið ef þessi breyting meiri hlutans verður samþykkt.

Ég legg áherslu á að það eru fjölmargar umsagnir um frumvarp meiri hlutans í atvinnuveganefnd, um breytingar í veiðigjaldi aftur til þessara 7 kr., sem mæla ekkert sérstaklega mikið með því. Hv. þm. Haraldur Benediktsson tiltók álit í fyrri ræðu sinni sem sögðu að þetta væri hið besta mál, en önnur álit, aðrar umsagnir segja að þetta sé hið versta mál, að þarna sé ekki vel að verki staðið. Það er mikilvægt að við horfum til beggja sjónarmiða. Með breytingum á veiðigjöldum, eins og í núgildandi lögum nr. 74/2012, þá munu auðvitað einhverjir líða fyrir álagningu þeirra en það er hægt að stilla það af og það er hægt að laga það með ýmsum öðrum hætti en bara með því að slátra veiðigjaldinu nánast eins og það leggur sig, eins og meiri hlutinn leggur til. Meiri hlutinn leggur í raun til að sérstaka veiðigjaldinu, sérstaklega á botnfisk, sé slátrað og það er slæmt.

Það er hægt með ýmsum öðrum hætti og það birtist einmitt í áliti minni hlutans frá atvinnuveganefnd, þ.e. með því að stilla til kvótamarkið og með því að auka valdheimildir Hagstofunnar til þess að kalla eftir upplýsingum til þess að reikna hið sérstaka veiðigjald. Það eru leiðirnar sem er hægt að nota til að stilla það af. Það þarf ekki að slá gjaldið af, langt í frá. Það er hægt að stilla af innheimtuna á því þannig að menn líði ekki óhóflega og að þeir sem síst skyldi líði ekki vegna þess. Þetta eru allt möguleikar, en var það til umræðu? Var hægt að ræða það í atvinnuveganefnd? Nei, það var ekki tími til þess. Það lá mikið á að koma þessu í gegn á sumarþingi. Það var aðalatriðið á sumarþingi. Þetta þurfti að keyra í gegn vegna þess auðvitað að búið var að lofa útgerðinni því. Og Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem er pólitískur málsvari útgerðarinnar, hann hefur aldrei leynt því og er bara stoltur af því og má vera það. Eins og ég lagði áherslu á í upphafi ræðu minnar er full ástæða til að vera stoltur af íslenskri útgerð og ég get staðið hvar sem er á erlendri grund og sagt stoltur frá því að ég sé Íslendingur og hvernig íslenskri útgerð tókst að ganga um auðlindina, íslenskan fisk og sjávarútveg, sem eru eiginlega fá fordæmi fyrir annars staðar í heiminum. Sjálfur hef ég unnið í Kanada, í Noregi og víðar. Ég nefni Kanada sérstaklega og ef ég horfi aftur til 1991 og Grand Banks þá var það nú ekki fögur sjón.

Hér hefur tekist með einstökum og undraverðum hætti að byggja upp auðlindina og rækta til vaxtar þessa auðlind sem mun vaxa um 15–18% að raunvirði að mati FAO. Það skiptir gríðarlegu máli, það er alveg glæsilegt. Við getum verið stolt af íslenskri útgerð öll sem eitt og hvernig hún hefur undirbyggt íslenskt samfélag og hvernig hún gefur okkur möguleika á því. En við verðum auðvitað að tryggja að útgerðin geti áfram verið burðarásinn í íslensku samfélagi og það gerum við ekki með því að gefa henni fríspil með allan sinn umframhagnað. Það er leiðir ekki til góðs. Það leiðir til þess að völd hafa safnast á fárra hendur, eins og ég rakti í upphafi máls míns. Það leiðir til þess að keypt er á ýmsum stöðum, sem er oft miður kræsilegt, eins og útgerð við strendur Vestur-Afríku, eða hvað við getum kallað það. Það er margt sem mælir með því að umframarði auðlindarinnar íslenskum sjávarútvegi sé endurútdeilt með lýðræðislegum hætti, með lýðræðislegum og gegnsæjum hætti, með aðhaldi kjósenda. Það er það sem við þurfum að tryggja og það er það sem við þurfum að standa vörð um.

Ég mæli sérstaklega með því að atvinnuveganefnd taki frumvarpið aftur til umfjöllunar, taki til efnislegrar umfjöllunar álit og tillögur minni hlutans um breytingar á útfærslu veiðigjaldsins og þar af leiðandi lögum nr. 74/2012. Það mundi vera metið mikils vegna þess að það er alveg ljóst að útgerðin getur getur staðið undir þessu gjaldi og ætti að geta það vegna þess að ekki er þetta nú hátt gjald, 34 krónur á kílóið, að frádregnum rekstrarkostnaði, að frádregnum afskriftareikningi.

Það er gaman að segja frá því að ég sat og hlustaði á erindi Arngríms Jóhannssonar sem stofnaði Flugfélagið Atlanta. Hann lýsti því sem meginuppistöðu árangurs í uppbyggingu stórfyrirtækis síns, sem hann á náttúrlega ekki lengur, þessu merka fyrirtæki, Flugfélaginu Atlanta, hversu vandlega var haldið utan um afskriftareikning, þ.e. það hlutfall sem ganga átti til afskrifta var lagt inn á sérstaka bók. Það var afskriftareikningur sem vextir voru síðan auðvitað hirtir af og nýttust vel. Sjávarútvegurinn ætti væntanlega að geta gert það sama vegna þess að hann fær frádregið af sérstöku veiðigjaldi 8% af metnu virði allra veiðitækja og 10% af metnu virði allra vinnslutækja. Það skiptir máli.

Ég legg því til að í stað þess að ráðist sé í að lækka hið sérstaka veiðigjald, lækka það bara beint vegna þess að útgerðin hefur krafist þess, sérstaklega á botnfisk, verði það óbreytt eins og fram kemur í áliti minni hlutans sem ég styð. Ég legg til að það verði óbreytt. Ég legg til að við nýtum okkur umræðu og ræðum efnislega um tillögur um lagfæringar á lögum nr. 74/2012, hvernig við getum lagað þau og sniðið þau til eftir því sem reynsla kemur á þau við útfærslu, útreikninga og innheimtu á sérstöku veiðigjaldi, vegna þess að þetta sérstaka veiðigjald hefur lagt grunninn að til að mynda fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem í voru meðal annars Norðfjarðargöng og ýmsar aðrar framkvæmdir, uppbygging rannsókna í samfélaginu, uppbygging skóla og fleira. Þetta var meðal annars það sem hið sérstaka veiðigjald átti að standa undir og meðal annarra gjaldstofna. Ég legg þess vegna til að það sé óbreytt og að við nýtum það í þær framkvæmdir sem tillögur hafa þegar komið fram um og að við ræðum efnislega á þessu þingi, sérstaklega á haustþingi, hvernig við eigum að ráðstafa þessu sérstaka veiðigjaldi frekar en við séum að ræða hér hvort við eigum að hafa það yfirhöfuð eða ekki.

Þetta er óumdeilanlega krafa þjóðarinnar; 34 þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftalista þess efnis að ekki eigi að breyta veiðigjaldinu. Þjóðin vill halda sérstöku veiðigjaldi, þjóðin vill fá sanngjarnan og raunverulegan arð af auðlind sinni, sem er vissulega sameign þjóðarinnar og enginn hefur deilt um þó að það reynist raunar mjög erfitt að setja afdráttarlaus ákvæði þar um í stjórnarskrá. Það er alveg merkilegt hversu mikið staðið er í vegi fyrir því að hafa afdráttarlaus ákvæði um það í stjórnarskrá á meðan dómstólar dæma þannig að kvótinn erfist, sem er nánast eins og að breyta því í eignarrétt, þannig að málið er vandmeðfarið. En þjóðin á þessa auðlind, hún vill og á að fá af henni arð. Það er útfærslan á því sem við eigum að vera að ræða. Ég frábið mér með öllu þann málflutning sem bar á í ræðu hv. þm. Haraldar Benediktssonar hér áðan að um væri að ræða ofurskattlagningu þar sem teknir væru tugmilljarðar út úr greininni.

Það eru fráleitar fullyrðingar. Það er enginn — enginn að tala um tugi milljarða sem taka á með sérstöku veiðigjaldi, það er enginn sem talar um ofurskattlagningu í því samhengi. Það skiptir máli að halda því til haga vegna þess að verið er að undirbyggja einhvers konar goðsögn um að það eina sem vaki fyrir þeim sem vilja sérstakt veiðigjald sé einhver skattamanía. Að við viljum bara skattleggja allt sem við sjáum, skattleggja það til dauða, pína það þannig að ekkert verði eftir. Hirða út úr því tugi milljarða og skilja eftir rjúkandi rústir eftir tvö til þrjú ár. Það er bull. Það hefur aldrei staðið til. Og eins og ég hef rakið ítarlega í máli mínu þá er íslenskur sjávarútvegur og íslensk útgerð ein af undirstöðum þessa samfélags. Hún er orðin ein af þremur undirstöðum efnahagslífsins í dag ásamt áli og ferðaþjónustu. Það færi enginn heilvita maður að svipta einni af þremur stoðum efnahagsins undan íslensku samfélagi bara sisvona, á tveimur til þremur árum. Það er bara bull og það er óþolandi að menn tali þannig. Það er óþarfi, það er enginn að ræða það á þeim nótum og ég minni á hversu nærri samkomulagi sáttanefndin var árið 2010. Það ber ekki mikið í milli og það vita allir sem til þekkja. Þetta snýst um útfærsluna og í áliti minni hluta atvinnuveganefndar eru vandlega útfærðar tillögur að því hvernig laga má útfærsluna á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, sem fela áfram í sér að hið opinbera fái af þeim eðlilegan arð. Ég tala um eðlilegan arð, ekki ofurskattlagningu heldur eðlilegan arð. Það er mikilvægt að halda því til haga.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra um þetta, ég tel þetta vera komið. Þetta frumvarp, breyting á lögum um veiðigjöld, sem fram er komið hjá stjórninni, er eitt nokkurra sem lögð eru fram nú á sumarþingi. Öll ber að sama brunni; málið snýst um að veikja tekjustofna almannaþjónustunnar, veikja tekjustofna okkar til að halda úti almannaþjónustu og velferðarkerfinu og önnur frumvörp snúast í ofanálag um að passa upp á að þessi mál verði ekki rædd á öðrum nótum í þjóðfélaginu — að þeim verði alla vega haldið vel við hælinn sem ætla að ræða málin á einhverjum öðrum nótum. Tónninn var gefinn í alveg fádæma ávarpi forsætisráðherra í blaðagrein í síðustu viku þar sem hann talaði um loftárásir stjórnarandstöðu og fjölmiðla. Þar var auðvitað gefinn tónninn fyrir hvernig farið verður með þá sem leyfa sér að andæfa þeirri hægri stjórn og hægri stefnu sem hér er í framkvæmd.