142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:50]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni aftur fyrir athugasemdir hans. Ég er honum hjartanlega sammála, ekki viljum við sjá frekari samþjöppun í greininni, fjarri því.

Hvað varðar hina frjálslyndu miðjustjórn sem hann talar um og nefndi í upphafi þá er það auðvitað ekki svo að hægt sé að kalla hana það miðað við það sem fyrir liggur af frumvörpum og tillögum. En af verkum verður hver dæmdur, eins og ég segi, og það sjáum við bara til með í haust. En það er rétt, við viljum ekki sjá frekari samþjöppun í greininni. Það að breyta hér markinu, og það sem við erum þá farnir í raun að ræða efnislega, ég og hv. þingmaður, er einmitt að hve miklu leyti hægt er að breyta því marki, það er einmitt spurningin.

Ég sagði ekki að lítil fyrirtæki færu á hausinn, ég talaði fyrst og fremst um að þau skuldsettu mundu ekki ráða við þetta gjald. Svo nefndi ég að lítil fyrirtæki mundu mögulega ekki ráða við þetta — mögulega ekki ráða við þetta — og til þess eru breytingar minni hluta atvinnuveganefndar fallnar, einmitt til að laga það með því að hækka frítekjumarkið. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson telur það ekki duga til. Nú verð ég að bera við fávisku að því leyti að verið getur að það dugi ekki til, en ég tel að þetta sé skref í rétta átt, álit minni hlutans, og það megi þá ræða efnislega að hve miklu leyti það dugi til eða dugi ekki til, frekar en að slá af veiðigjaldið. Það er alveg klárt mál að það mun ekki laga þá meinbugi sem eru á lögum nr. 74/2012 að lækka einfaldlega veiðigjaldið. En það er hins vegar það sem vakir fyrst og fremst fyrir stjórnvöldum, það er að lækka einfaldlega veiðigjaldið til að umframarðurinn haldi áfram að renna í þeim mæli sem hann hefur gert í vasa þeirra sem gera út skipin.

Ég vil breyta þessu, ég legg áherslu á það. Ég vil halda því sem lög nr. 74/2012 lögðu áherslu á, að veiðigjöldin væru óbreytt, það vil ég sjá áfram. En ég vil þá geta lagað það til þannig að ekki líði þeir sem síst skyldu fyrir þessi veiðigjöld og útfærslu gjaldanna.