142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[17:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi viðbrögð sem mér finnst fela í sér athyglisverða nálgun. Ég get alveg viðurkennt sjálfur að afstaða mín til þess hvaða mál henta og hver ekki hefur breyst dálítið á nokkuð löngum tíma. Í kjölfar mikillar umræðu um þessi mál í samfélaginu og ekki bara fyrir þessar kosningar heldur almennt á undanförnum missirum og árum, bæði hér og annars staðar, hef ég í ríkari mæli aðhyllst það að menn ættu að nýta sér beina lýðræðið í meira mæli en gert hefur verið. Ég er sammála hv. þingmanni um að það að gefa það út að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið álitaefni knýr fólk til að setja sig betur inn í það. Það knýr líka þá aðila sem vilja hafa áhrif og hafa hagsmuna að gæta til þess að setja sín mál fram skýrt og skilmerkilega gagnvart þjóðinni og draga fram kjarnann og aðalatriðin í því máli sem um er að ræða.

Hér held ég að í raun sé mjög auðvelt að halda því fram að kjarninn í þessu máli sé einfaldur. Þó að það kunni að vera alls konar tæknilegar útfærslur sem menn geta deilt um og haft alls konar skoðanir á held ég að kjarninn í málinu sé tiltölulega einfaldur þannig að ég fagna þessu.

Ég vil líka velta því upp við þingmanninn hvort hann sjái möguleika á öðrum leiðum til að koma málum í þjóðaratkvæðagreiðslu en þá að forsetinn beiti 26. gr. stjórnarskrárinnar til að synja málinu staðfestingar. Þess eru dæmi í þinginu, og það tiltölulega nýleg, að það hafa verið lagðar fram breytingartillögur við frumvörp um að lögin öðlist ekki gildi fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er dæmi um það að menn hafi lagt það til hér þó að það hafi að vísu ekki fengist samþykkt. Telur hv. þingmaður að það gæti komið til greina í þessu máli að leggja fram breytingartillögu í þessa veru?