142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[17:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi góðu viðbrögð. Það er ekki bara það sem hv. þingmaður nefnir réttilega, að þegar þrýstingurinn á það að sýna gögnin og frumvarpið og rökstyðja það með viðundandi hætti er til staðar myndist betri umræða, það er líka ágætt að yfirvöld hafi það alltaf á bak við eyrað að hlutirnir geti endað í þjóðaratkvæðagreiðslu í óþökk þeirra. Það er hollt vegna þess að þá einmitt undirbúa þau málin kannski með þeim hætti að þau séu skýrari fyrir almenningi eins og hv. þingmaður minntist á.

Sú leið sem við neyðumst til að fara undir núverandi stjórnarskrá er afleit. Við höfum í raun bara eina leið til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu og hún er að treysta á forseta lýðveldisins til að hafna því að skrifa undir lög. Þetta þykir mér og okkar flokki mjög óeðlilegt fyrirkomulag en því miður það eina sem við höfum. Allar leiðir til að koma svona málum í þjóðaratkvæðagreiðslu með skilvirkari hætti, svo sem við mótmæli einhverrar prósentu kjósenda gegn lögum til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu, eru akkúrat það sem við mundum helst vilja og það væri mun eðlilegri farvegur.

Með hliðsjón af því að nú hafa borist 34 þús. undirskriftir gegn þessu frumvarpi af einni eða annarri ástæðu liggur í augum uppi að þetta frumvarp hefði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu undir slíkum kringumstæðum. Með það í huga kemur alveg til greina að ræða breytingartillögur að því að lýðræðisvæða þetta frumvarp, að sjálfsögðu, með þetta frumvarp og öll frumvörp, það má vera alveg skýrt. Ef þjóðaratkvæðagreiðsla hefði einhver meint neikvæð áhrif, að góð lög yrðu felld, er samt mikilvægt að sá þrýstingur sé til staðar fyrir yfirvöld svo þau hugsi sinn gang þegar þau semja frumvörp.