142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[18:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í ræðu minni hér áðan þurfum við til langs tíma að koma á auðlindarentu eða greiðslu fyrir allar auðlindir. Annaðhvort þurfum við að gera það í gegnum arð af ríkisreknum fyrirtækjum, sem eru rekin og nýta auðlindirnar, þannig að aðföngin, sem eru auðlindin, kalli á að menn greiði ákveðið gjald. Ég held að það sé mikilvægt að þetta sé auðlindarenta frekar en skattlagning því að skattlagning lýtur ákveðnum lögmálum er varða frádrátt og kostnað og annað slíkt sem ekki er með sama hætti.

Það er svolítið merkilegt að sú tillaga sem lögð var fram í fyrra og var samþykkt var í raunveruleikanum niðurstaða stjórnar og stjórnarandstöðu á þeim tíma, hvað varðaði upphæðina. Hugmyndir voru uppi um miklu hærri upphæðir í byrjun, síðan lempuðu menn þetta sameiginlega og komust að niðurstöðu. Þess vegna kom það mjög á óvart að menn skyldu svo víkja frá því, engar nýjar upplýsingar komu fram um afkomu sjávarútvegs sem réttlætir það.

Af hverju gripu menn tækifærið? Var það það sem þjóðin var að kjósa, að veiðigjöld yrðu lækkuð, þegar hún kaus stjórnarflokkana? Ég held ekki, ég held að það hafi hvergi komið fram í umræðu eða stefnumótun að þeir ætluðu að lækka þetta með einhverjum ósköpum nema kannski á einhverjum svæðum, en það er alla vega ekki meginástæðan fyrir fylgi þessara flokka.

Varðandi það hvort menn hafi verið að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána — já, ég held að segja megi að með því að fara svona hart í þetta og forgangsraða með þessum hætti séu menn að gefa niðurstöðum þeirrar vinnu langt nef og það finnst mér miður. Þetta lýsir ákveðinni forgangsröðun sem ekki öllum líkar. Ég ætla að vona að menn snúi af þessari leið og bæti ráð sitt og að við finnum leið til að leggja eðlilega og sjálfsagða auðlindarentu á sjávarútveginn.